Manchester United hefur ekki unnið heimaleik í deildinni síðan 24. september, þegar liðið vann flottan sigur á Englandsmeisturunum í Leicester City. Að vísu hefur liðið ekki spilað nema 3 heimaleiki í deildinni síðan þá en þeir hafa allir endað með jafntefli. Í þessum leikjum, gegn Stoke, Burnley og loks Arsenal, var Manchester United betra liðið.
Knattspyrnan sem United lék var ekki slæm, í öllum þrem leikjunum náði Manchester United að skapa helling af færum. En það vantaði upp á að klára þessi færi og því fékk Manchester United 3 stig í þessum 3 leikjum í stað 9 stiga. Það munar alveg um þessi 6 stig, bæði í baráttunni um efstu sætin en líka í allri umfjöllun um Manchester United og það sem José Mourinho er og hefur verið að gera með liðið. Það eru framfarir á liðinu, slíkt ætti að vera augljóst þeim sem horfir á liðið spila núna og man hvernig liðið spilaði undir stjórn Louis van Gaal. En umræða um það hvort Mourinho sé búinn að missa það selur fleiri blöð.
Liðið hans Mourinho þarf þó vissulega að fara að nýta færin betur í deildinni og fara að loka þessum heimaleikjum. Það fær tækifæri til þess núna þegar West Ham kemur í heimsókn á Old Trafford. Þetta er fyrri heimsókn West Ham af tveimur á 4 dögum, við byrjum á deildarleiknum.
Manchester United
Henrikh Mkhitaryan fékk loksins almennilegt tækifæri í liði Manchester United þegar hann var í byrjunarliðinu í síðasta leik. Hann nýtti það tækifæri gríðarlega vel. Hugarfarið virðist ekki vera vandamál hjá drengnum, gaman að sjá það. Þessi frammistaða hlýtur að þýða það að hann fái fleiri mínútur og fleiri leiki í byrjunarliðinu á næstunni.
Annar leikmaður sem hefur nýtt nýlegt tækifæri vel er Phil Jones. Hann hefur verið afskaplega óheppinn með meiðsli síðustu ár. Náði til að mynda aðeins að spila 13 leiki á síðasta tímabili. Síðasti leikur hans það tímabilið kom 2. janúar, hann spilaði ekki aftur fyrr en rúmlega 10 mánuðum seinna.
Það er ekkert grín að koma til baka eftir löng og erfið meiðsli. Hvað þá þegar leikmaður hefur trekk í trekk lent í leiðinlegum meiðslum. Phil Jones virðist ekki hafa látið það há sér að ráði, það er virðingarvert. Ef hann nær að haldast heill þá er ekkert fjarri lagi að líkja því hreinlega við það að Manchester United hafi verið að kaupa nýjan, heimsklassa leikmann í vörnina. Ef hann nær að haldast heill þá eru allar líkur á því að hann verði hluti af besta mögulega miðvarðapari United, byrjunarliðsmaður þegar allir eru heilir. En þetta er risastórt ef, meiðslasaga Phil Jones sýnir það.
Á miðjunni höfum við Ander Herrera, Michael Carrick og Paul Pogba sem hafa allir verið að spila mjög vel. Þar fyrir framan er Mata búinn að vera frábær. Mkhitaryan er dottinn inn. Rooney spilaði mjög vel í síðasta leik. Zlatan er alltaf hættulegur, hefur verið mikið í færum upp á síðkastið og er byrjaður að skora aftur. Martial er góður, þótt hann hafi kannski ekki verið jafn skeinuhættur og í fyrra, og svo höfum við líka flotta leikmenn eins og Rashford og Lingard. Það er skemmtilegur hausverkur að þurfa að velja byrjunarlið úr þessum flotta hópi.
Það er ekki mikið um meiðsli hjá Manchester United. Það munar þó samt heilmikið um að vera án þeirra Bailly og Smalling en Jones og Rojo hafa staðið vaktina vel í stað þeirra. James Wilson er svo einnig frá en það væri seint hægt að segja að liðið sakni hans eitthvað.
Ef ég ætti að velja liðið þá myndi það vera svona:
En kannski er þetta leikur fyrir fyrirliðann okkar. Hann hefur nú löngum haft gaman af því að skora gegn West Ham:
.@WayneRooney loves a goal against West Ham! Watch his 11 @PremierLeague strikes for #MUFC v the Hammers… https://t.co/Sa6RdIxoao
— Manchester United (@ManUtd) November 26, 2016
West Ham
West Ham átti nokkuð gott tímabil síðasta vetur, spilaði oft á tíðum glimrandi fínan bolta og endaði í 7. sæti sem þýddi Evrópubolta. Innan liðsins eru nokkrir prýðisgóðir leikmenn, til að mynda hinn frábæri Dimitri Payet. En West Ham hefur lent í bölvuðu ströggli á þessu tímabili og er nú í fallbaráttu, fyrir þessa umferð var West Ham í 17. sæti, aðeins stigi frá fallsæti.
West Ham hefur aðeins náð í 3 stig á útivöllum á tímabilinu, eftir sigur á Crystal Palace um miðjan október. Öll liðin í fallsæti hafa náð í fleiri stig á útivöllum. Raunar eru aðeins 2 lið í deildinni, Leicester og Burnley, sem hafa náð í færri stig á útivöllum en West Ham.
Markahæsti leikmaður West Ham í deildinni er Michail Antonio. Hann hefur skorað 6 af 13 mörkum liðsins. Antonio getur spilað sem hægri kantmaður en hefur upp á síðkastið spilað mest sem hægri vængbakvörður. Dimitri Payet hefur ekki verið í alveg jafn miklu stuði og hann var í síðasta vetur en þó verið nokkuð drjúgur, hann er stoðsendingahæsti leikmaður West Ham á tímabilinu, með 4 stollur, og hefur auk þess skorað 1 mark.
Það eru þrír leikmenn meiddir hjá West Ham: Arthur Masuaku, Gökan Töre og Sam Byram. Auk þess sem Andy Carroll og Reece Oxford eru tæpir. Það sem er þó öllu verra fyrir West Ham er að miðvörðurinn Winston Reid lét reka sig af velli í síðasta leik og missir því af þessum leik vegna leikbanns.
Lið West Ham verður því mögulega eitthvað á þessa leið:
Þó gæti liðið farið aftur í 4 manna varnarlínu fyrst Reid verður ekki með. Þá eru uppi efasemdaraddir um að fyrirliðinn Mark Noble eigi að byrja þennan leik. Hann missti af síðasta leik vegna leikbanns en West Ham spilaði vel í þeim leik þrátt fyrir að hafa ekki náð hagstæðum úrslitum.
Leikurinn
Við viljum sá meira af því sama, Manchester United að stjórna leikjum, sýna yfirburði, skapa sér góð tækifæri og eiga fullt af marktilraunum. Það sem má batna er færanýtingin. Ef það dettur inn í þessum leik þá gæti liðið verið komið á ansi gott skrið, það væri mjög heppilegt núna rétt fyrir strembna desembertörn.
West Ham er þó ekki lið sem er sniðugt að vanmeta. Staða liðsins í deildinni er ekki góð en leikmannahópurinn er hreint ekki svo slæmur.
Leikurinn byrjar klukkan 16:30.
Dómari í leiknum er Jonathan Moss.
Stefan says
Væri nú nice að gefa Wilson mun meira tækifæri en Ibrahimovic er fastur byrjunarliðsmaður þótt hann skorar ekki 5x í röð.
Væri frábært ef Rashford og Wilson , jafnvel Martial fengi ST frammi öðru hvoru inná milli, það er ekki eins og Ibra sé ekki 35 ára.
Svo er rétt að það er ekki hægt að vanmeta West Ham, þeir unnu okkur 3-2 í fyrra og eru í bullandi fallbaráttu og þurfa sigur.
Payet á eftir að vera vesen á morgun.
Björn Friðgeir says
Wilson er nota bene frá út tímabilið eða því sem næst.
Runar says
Ég á ekki vona á neinu öðru en að þessi leikur fari 3-1 og ég segi bara eins gott! því ManUtd er búið að bjóða mér á leikinn.. já verð á svæðinu í boði ManU ;) Og þá ætlaðist ég til þess að við vinnum.
Björn Friðgeir says
Annars fer þessi leikur annað hvort 4-1 eða 1-2 og verður þannig annað hvort endirinn á byrjuninni eða byrjunin á endinum.
Þannig er þetta bara.