Ef markmiðið var að klára þetta einvígi með því að leggja sem minnst í seinni leikinn þá heppnaðist það ágætlega hjá leikmönnum Manchester United í kvöld. Frammistaðan var ekki öflug en þó nógu öflug til að duga Manchester United til að bóka miða í úrslitaleikinn á Wembley.
Byrjunarliðið hjá Manchester United í kvöld var þannig skipað:
Varamenn: Romero, Fosu-Mensah, Shaw, Fellaini (90+1′), Mata, Mkhitaryan, Rooney (79′)
Lið heimamanna í Hull var svona:
Varamenn: Kuciak, Robertson, Hernández (70′), Elabdellaoui, Weir, Evandro (64′), Markovic (59′)
Fyrri hálfleikurinn
Þegar leikurinn byrjaði þá var strax augljóst að hvorugt liðið vildi fá á sig mark snemma í leiknum. Leikurinn var varfærnislega spilaður, Manchester United meira með boltann en hvorugt liðið náði nokkuð að ógna að ráði. Fengu sína hornspyrnuna hvort á fyrsta stundarfjórðungi liðsins sem og sitt hvora aukaspyrnuna fyrir utan teig andstæðingsins en ekkert varð úr neinu af þessu.
Þeir sem mættu hins vegar til leiks í virkilegu stuði voru stuðningsmenn Manchester United sem lagt höfðu á sig þetta 170 km ferðalag til Hull. Þeir létu nístandi kulda og rólegheitaspilamennsku ekki á sig fá heldur sungu, dönsuðu og hoppuðu frá fyrstu mínútu. Stuðið var slíkt að það kviknaði m.a.s. nýr stuðningsmannasöngur sem var sunginn ítrekað með ákafa og ástríðu sem leikmenn Manchester United hefðu gjarnan mátt taka sér til fyrirmyndar.
Woke up this morning feeling fine
Got Man Utd on my mind
Jose’s got us playing the way Utd should
Something tells me I’m into something good— Samuel Luckhurst (@samuelluckhurst) January 26, 2017
Rólegheitaboltinn og varfærnin til að byrja með hentaði Manchester United auðvitað mun betur vegna þess hver staðan var í einvíginu. Hull fór því að reyna að setja meira í sinn leik eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn. Á meðan virtust leikmenn Manchester United sáttari við að reyna bara að drepa tempóið.
Mourinho stóð á hliðarlínunni og virtist heldur sjá eftir nýju klippingunni þarna í kuldanum í Hull þar sem hann reyndi að nudda smá hita í kollinn. Ég kannast við þetta, hef sjálfur gert þau mistök að snoða mig í janúar. Klassísk mistök að gleyma svo húfunni.
Á 26. mínútu hófst mínútu klapp til heiðurs Ryan Mason. Leikmenn Manchester United virtust ætla að taka þátt í þeim heiðursviðburði, í það minnsta slökkti vörnin á sér á þeim tíma í stað þess að eiga við háan bolta sem kom inn í teiginn svo skyndilega var Dawson kominn í dauðafæri. Smalling náði að bæta upp fyrir eigin mistök og blokka skot Dawson en boltinn hrökk þaðan yfir á frían Niasse sem bombaði föstu skoti á markið sem De Gea varði vel. Hann var þó nokkuð heppinn að því leyti að skotið var svo til beint á hann. En það þurfti að verja boltann engu að síður.
Á 34. mínútu fékk Hull síðan hornspyrnu. Eftir klafs í teignum sá dómarinn skyndilega eitthvað sem enginn annar sá og flautaði vítaspyrnu á það. Kolrangur dómur en Huddlestone þakkaði pent fyrir sig og skoraði. Allt annar leikur núna.
Á 38. mínútu fékk Zlatan boltann á miðjum velli og hljóp með hann í átt að vítateig Hull. Varnarmennirnir bökkuðu bara og bökkuðu, þar til Zlatan var kominn í skotfæri. Hann lét vaða með góðu skoti sem markmaðurinn sá seint. Marshall í marki Hull varði engu að síður mjög vel. Hættulegasta tilraun Manchester United í fyrri hálfleiknum.
Seinni hálfleikur
Þrátt fyrir að Mourinho hefði sent varamenn að hita upp strax eftir markið sem Hull skoraði gerði hann engar skiptingar í hálfleik. Leikmenn Manchester United virkuðu þó aðeins sprækari í byrjun seinni hálfleiks. Pogba féll í teignum og vildi fá víti en fékk ekki. Endursýningar bentu til að Pogba hefði einfaldlega runnið og því réttur dómur að sleppa vítinu í þetta skiptið.
Á 52. mínútu náði Manchester United þungri sókn. Lingard átti gott hlaup innfyrir vörn Hull og fékk stungusendingu, brunaði með boltann að marki og reyndi fyrirgjöf en varnarmenn Hull náðu að bjarga því. Manchester United fékk í þessari sókn 4 hornspyrnur í röð. Hefði getað fengið víti, þegar leikmaður Hull ýtti í bakið á Smalling sem var að komast í álitlegt færi. Þar var í raun um snertingu að ræða og brot, ólíkt vítinu sem Hull fékk. En ekkert dæmt.
Pogba skoraði síðan jöfnunarmark á 66. mínútu. Zlatan fékk þá boltann á vinstri kantinum. Gaf góða stungusendingu á Rashford sem kom á ferðinni inn í teiginn. Hann náði að komast að endamörkum og gefa fyrir þar sem Paul Pogba rak stórutá í boltann og í markið fór hann. Stórt mark því þarna þurfti Hull 3 mörk til að vinna einvígið. 2 mörk til viðbótar hefðu þó sent leikinn í framlengingu.
Stuttu síðar átti Rojo fastan skalla í þverslá eftir frábæra hornspyrnu frá Lingard. Abel Hernández fékk síðan boltann við vítateiginn en átti skot í varnarmann og yfir. Eftir þá hornspyrnu átti Hull líka skalla í þverslá, 1-1 í sláarkeppninni.
Rashford stríddi vörn Hull við og við í leiknum með góðum sprettum en náði samt ekki að skapa verulegan usla nema í þetta skiptið sem markið kom. Á 85. mínútu sofnaði vinstri vængur Manchester United og hægri bakvörðurinn David Meyler var allt í einu gapandi frír þar sem hann fékk háa sendingu. Hann þakkaði pent fyrir sig með góðri fyrirgjöf á Oumar Niasse sem var álíka frír í teignum. Hull komið í 2-1, þurfti nú aðeins eitt mark til að ná leiknum í framlengingu og hafði látið vörn United líta hræðilega út.
En Manchester United náði að hanga á þessu nauma forskoti til leiksloka. Niðurstaðan í þessum leik tap en sigur í einvíginu.
Eftir leik
Taplausu hrinu Manchester United og Michael Carrick er lokið í bili. Þetta var hrikaleg frammistaða og verðskuldaður sigur hjá Hull. Liðið fær ekkert fleiri leiki þar sem það kemst upp með að spila svona, það er alveg á hreinu.
Það var eins og leikmennirnir mættu til leiks með það hugarfar að láta það sleppa að taka leikinn í 2. gír, eins og forskotið úr fyrri leiknum hefði hálfpartinn þvælst fyrir mönnum. Þetta var andlaus, og á löngum köflum áhugalaus, frammistaða.
En hún dugði þó til. Og ef dómarinn hefði ekki fært Hull City hreina gjöf með þessari vítaspyrnu þá hefði þetta kannski bara mallað í rólegheitunum vandræðalaust til leiksloka.
Ef þetta væri fyrsti leikurinn í einhvern tíma þar sem liðið væri að spila ósannfærandi þá væri hægt að líta framhjá því, gefa þeim það að taka einn leik með vinstri til að spara orkuna. En liðið hefur virkað hálf andlaust í síðustu leikjum og því er þetta ákveðið áhyggjuefni. Framundan er leikur í bikarnum, leikir í Evrópukeppni, úrslitaleikur í þessari keppni og mjög mikilvæg leikjatörn í deildinni, þar sem United verður að halda sér í baráttunni um Meistaradeildarsæti.
Frammistaða liðsins var alls ekki dómaranum að kenna en ég get ekki látið það vera að tuða aðeins yfir dómaranum í þessum leik. Hvers konar vitleysa var þetta eiginlega?! Nú hafa einstaka dómar fallið með Manchester United í vetur og auðvitað nota stuðningsmenn annarra liða það sem rökfærslu fyrir því að Manchester United fái alla dóma og dómara sér í hag. En þau glórulausu dómaramistök sem hafa ítrekað fallið gegn Manchester United eru fyrir löngu hætt að vera hlægileg.
Aftur, ekki að ég kenni dómaranum um frammistöðu leikmanna í leiknum. Stundum þarf maður bara aðeins að fá að pústa.
Maður leiksins
Mér fannst eiginlega enginn leikmaður eiga skilið þessa nafnbót. Svo ég ætla að nefna hina eitilhörðu útivallarstuðningsmenn Manchester United sem menn leiksins. Sungu og trölluðu allan leikinn. Það er vonandi að þeir mæti í álíka stuði á Wembley og það er vonandi að þeir fái margfalt betri leik frá Manchester United í þeim leik.
Afmælisbarn dagsins
José Mourinho á afmæli í dag. Hann hefði nú mátt fá sigur í afmælisgjöf en hann fékk þó allavega úrslitaleik. Og köku.
Jose Mourinho after tonight’s game #MUFC pic.twitter.com/24SWdKt6oV
— Manchester United (@MUFCScoop) January 26, 2017
Til hamingju með afmælið, Mourinho!
Bjarni says
Spyr sá sem ekki veit, hvar er Martial? Er hann næsti maður sem verður seldur eða er verið að hvíla hann fyrir Wigan?
Halldór Marteins says
Mér finnst líklegt að það sé bara verið að taka Mkhitaryan meðferðina á Martial. Ef hann setur hausinn í verkefnið þá sjáum við hann aftur í góðu formi fyrr en varir. Hef engar teljandi áhyggjur af þessu eins og er.
Bjarni says
Nei kannski ekki en mér sýnist hausinn vanta leikmenn, þora ekki í tæklingar eða návígi. Verður erfitt kvöld
einar__ says
haha, hvaða djók vítaspyrnudómur var þetta?!
Bjarni says
Hvað sagði ég :) því miður hefur maður séð þetta áður í gegnum tíðina.
Karl Gardars says
Þetta er átakanlega lélegt. De Gea, Rashford og mögulega Darmian mættu til leiks. Rest er rusl það sem af er. Algjörlega áhugalaust með öllu.
Arnar says
Mjög soft víti.
Rúnar Þór says
Þessi fyrri hálfleikur…. þvílíkt SNOOZEFEST. Menn mæta með kolrangt hugarfar eins og ég vissi að þeir myndu gera. Mæta með hálfum hug og hleypa Hull inn í leikinn í stað að með krafti skora og klára leikinn snemma
Bjarni says
Sammála þér Karl. Við eigum ekkert skilið úr þessum leik nema flengingu sem góða áminningu um að það er sama hvað þú heitir, hvað marga titla þú hefur unnið, það þarf að mæta til leiks og það minnsta að sýna áhuga á að vinna leikinn. Nú verður lesið yfir þeim í hálfleik en dugar það, er ekki viss. Með þessari spilamennsku getum við alveg fengið á okkur 2 mörk til viðbótar. Svo hlógu aðdáendur að úrslitum leiksins í gær og voru borubrattir. Höfum ekki efni á slíku.
Karl Gardars says
Það var samt sturlað fyndið :-D :-D :-D Eins og alltaf þegar september meistararnir fatta að liðið þeirra er ennþá utter shyte!! ;-)
Ég er nokkuð viss um að þessi viðureign hafist nú ef dómarinn gætir hlutleysis en menn þurfa eitthvað að taka til í blöðrunni á sér fyrir So’ton því þeir myndu slátra okkur í þessu formi.
Það vantar kolbrjálaðan Rooney inn á.
einar__ says
Jahérna.. Jonathan Moss virðist vilja sjá til þess að hann eigi allar fyrirsagnir morgundagsins, hann heldur áfram. En við eigum að klára þetta þrátt fyrir áframhaldandi inngrip hans. En ég skil þetta bera eftir http://www.independent.co.uk/sport/football/premier-league/premier-league-referee-study-jonathan-moss-leicester-city-jamie-vardy-a7004621.html
Karl Gardars says
Hefur einhver séð Pogba?
einar__ says
@Karl mér sýndist hann vera að skora ;)
Hjörtur says
Maður er svo rasandi að maður á bara ekki til orð, liðið arfalélegt og dómarinn ennþá lélegri. Að mínu viti sýnist mér hann ætla að koma Utd út úr þessari keppni. Vítadómurinn út úr korti, a.m.k. hefði þá Utd átt að fá víti í upphafi síðari hálfleik, þegar Rashford að mér sýndist var feldur. Mér hefur fundist með þá leiki sem ég hef séð, að það halli ansi mikið á Utd hvað dómara varðar, er þetta eitthvað bara sem ég sé eða hvað finnst ykkur.
Karl Gardars says
Þarna var djöfsi :-)
Arnar says
Takk fyrir þetta King Pogba. Sjáumst á Wembley:)
einar__ says
Slæmur leikur, en Wembley hér komum við! :) Rashford sá skásti en þetta dugaði.
Sjaldan séð dómara jafn ‘unfit’ síðan Alan Wiley skokkaði másandi um völlin hér um árið. Agaleg frammistaða en ég vona að Mourinho þegi bara yfir henni. Win some, lose some
Bjarni says
Jæja, rétt sluppum fyrir horn. Flest allt lélegt við þennan leik nema úrslitin. Vonast eftir að menn sýni betri leik um helgina og sýni okkur að þeir hafi lært eitthvað af þessu leik.
Rúnar Þór says
Komnir í úrslitaleikinn en hrikalega lélegt að klúðra þessu unbeaten run hjá okkur
Hjörtur says
Ef það hefði verið jafntefli úr þessum tveimur leikjum þ.e.a.s. Hull hefði skorað þriðja markið, hefði þá verið framlengt eða gildir útimarkareglan í þessari keppni? Ég sá á mbl.is þegar staðan var 1-1 þá skrifuðu þeir að Hull þyrfti 2 mörk til að komast áfram.
Þórður yfir stöng says
United búnir að vera lélegir í undanförnum 3 leikjum, Móri á mjög erfitt með að höndla mótlæti eins og hann sýndi enn einusinni í gær eftir leikinn sem er alls ekki gott fyrir móralinn í liðinu.
Hann verður að geta höndlað mótlæti kallinn á þroskaðan hátt.
SHS says
@Hjörtur
Gummi Ben sagði allavega að ef þessi leikur hefði farið 3-1 þá hefði verið framlengt en ef staðan væri sú sama eftir hana myndi útivallamarkið gilda.
Rúnar says
Flestir ykkar eruð hálfvitar sem hafa ekkert vit á einu né neinu.
United voru hörmulegir í þessum leik og Mourinho er ekki á réttri leið með þetta lið.
United væri í margfalt betri stöðu í dag ef þeir hefðu haldið sig við Van Gaal.
Þeir sem ekki sjá það eru þröngsýnir og óþroskaðir hálfvitar.
Karl Gardars says
Og þetta bank í þessum ofnum hérna….