Það er von á Djöflavarpi fljótlega en ritstjórar svöruðu nokkrum einföldum spurningum til að gera upp þetta fyrsta tímabil José Mourinho. Hér er fyrri hlutinn, seinni hluti þeirra birtist á morgun.
Hver er ykkar skoðun á þessu tímabili með United?
Bjössi
Mjög viðunandi, þökk sé Evrópudeildartitlinum.
Deildarbikarinn var skemmtilegt aukakrydd og gaman að vera kominn á toppinn í titlatalningunni.
En sjötta sætið í deildinni voru gríðarleg vonbrigði fyrir alla, leikmenn, þjálfara og stuðningsmenn. Það sást á gleði Mourinho eftir leikinn í Stokkhólmi hvað hann hafði verið gríðarlega stressaður síðustu vikur og mánuðir. Hann hafði ætlast til að United væri í titilbaráttu en eftir að það klikkaði og síðan hvarf mjöguleikinn á fjórða sætinu hægt og rólega þó andstæðingarnir gerðu sitt besta til að halda voninni á lífi. Þá lagði Mourinho allt undir sigur í Evrópudeildinni og ef það veðmál hefði ekki gengið upp hefði þetta tímabil flokkast sem skelfilegt.
Titlarnir voru í raun það sem var bjart við þetta tímabil. Margt annað var vonbrigði, nýju leikmennirnir stóðu sig vel, nokkrir aðrir áttu þokkalegt tímabil en United spilaði oft of neikvæðan fótbolta, það vantaði neistann í spilamennskuna og of margir leikmenn eru hreinlega ekki nógu góðir.
Allt þetta þarf að leysa fyrir næsta tímabil og stór hluti þess er að Mourinho takist jafn vel upp í leikmannakaupum í sumar og í fyrra.
Elli
Maður hefur dálítið skrítna tilfinningu fyrir tímabilinu. United náði að vinna tvo bikara, komast í meistaradeildina og vinna góðgerðarskjöldinn. Það getur nú ekki talist annað en skrambi góður árangur, hvað þá á fyrsta tímabili nýs stjóra. En á sama tíma situr í manni pirringur yfir að hafa horft á liðið gera 15(!) jafntefli í deildinni (10 af þeim á Old Trafford), lenda í sjötta sæti og eiga oft á tíðum alveg skelfilega erfitt með að skora mörk (Fimm 0:0 jafntefli og níu 1:1).
En ég er pollýanna að eðlisfari og einblíni því á það góða. Við unnum bikara, spilum í meistaradeildinni á næsta tímabili, komumst langt í öllum bikarkeppnum og fengum oft á tíðum fengum við að sjá liðið spila eins og gamla góða United. Ég horfi því bjartsýnn til næsta tímabils og er gríðarlega spenntur að sjá hvernig Mourinho mun styrkja liðið í sumar.
Halldór
Það voru mikil vonbrigði hversu snemma Manchester United datt út úr alvöru baráttu um deildartitilinn. Aðalvæntingarnar hjá mér, og mörgum öðrum, tengdust því að liðið myndi koma sér aftur í þá baráttu af fullum krafti eftir daufa frammistöðu þar síðan Fergie hætti.
En eftir að það varð ljóst að deildin væri farin urðu væntingarnar meira að gera vel í bikarkeppnum og umfram allt að tryggja sæti í Meistaradeildinni á næsta tímabili. Það gerði liðið svo sannarlega og þessi endapunktur á tímabilinu var bæði gríðarlega skemmtilegur og jákvæður upp á nánustu framtíð.
Hvað spilamennsku liðsins varðar þá finnst mér um framför að ræða frá síðustu 3 tímabilum. Undir stjórn van Gaal snerist allt um að halda boltanum en gera voðalega lítið við hann fyrir utan að senda á næsta mann. Liðið í ár heldur boltanum minna en reynir yfirleitt þeim mun meira, enda er United búið að eiga margfalt fleiri marktilraunir og skorað miklu fleiri mörk en síðustu tímabil. Þá hefur varnarleikurinn heilt yfir verið mjög góður, hlutfallslega hefur liðið ekki fengið á sig færri mörk síðan tímabilið 2008-09, þegar United setti met í því að halda hreinu.
Maggi
Tveir bikarar og þar af einn sem að liðið hefur aldrei unnið áður. Varnarleikurinn hefur verið prýðilegur en sóknarleikurinn þarfnast yfirhalningar. Fyrst að meistaradeildarsætið náðist á endanum þá er ég þokkalega sáttur miðað við allt.
Runólfur
Þetta er svo svart og hvítt. Liðið var augljóslega algjör vonbrigði í deildinni enda er sjötta sæti ekki ásættanlegt fyrir Manchester United. Frammistöðurnar á Old Trafford voru nánast til skammar. En svo er það hitt – bikarkeppnir. United vinnur Góðgerðaskjöldinn, hvort það sé titill eða ekki er annað mál. Liðið vinnur Deildarbikarinn, Evrópudeildina og dettur út úr FA bikarnum gegn Chelsea eftir að Ander Herrera fær ósanngjarnt rautt spjald. Í raun eru allar aðrar keppnir en deildin upp á 10. Svo það er erfitt að vera of gagnrýninn.
Tryggvi
Eftir sigurinn í Evrópudeildinni á dögunum er erfitt að vera óánægður með tímabilið sem heild. Liðið er á leið í Meistaradeildina á ný og bætti tveimur bikurum við bikarasafnið stórglæsilega, þar með talið einum sem hefur ekki verið þar áður. Heilt yfir og fljótt á litið var þetta tímabil því árangursríkt.
Evrópudeildarsigurinn nær að breiða yfir hversu slakt gengið var í deildinni enda er það nánast óafsakanlegt fyrir félag eins og Manchester United að enda í 6. sæti. Metnaðurinn er meiri, peningarnir eru það miklir að allt annað en titilbarátta fram á síðasta dag er óásættanlegt.
Þetta var skrýtið tímabil í deildinni og miðað við spilamennskuna í mörgum leikjum, sérstaklega öllum þessum jafnteflisleikjum, er alveg klárt að það er innistæða fyrir mun betri árangri í deildinni. United skapaði sér færi eins og topplið en nýtti þau eins og botnlið og þar liggur hnífurinn í kúnni. Ég hugsa að ef United hefði kannski nýtt 10 prósent af þeim dauðafærum sem klúðruðust væri enginn að tala um að tímabilið í deildinni hefði verið vonbrigði.
Að sama skapi er alveg klárt að björgunarhringur þessa tímabils, Evrópudeildin, hélt liðinu niðri í deildinni. Liðið spilaði töluvert fleiri leiki en helstu andstæðingar, 17 fleiri leiki en meistarar Chelsea og þetta telur einfaldlega. Leikmenn tala um að það sé erfiðara að spila á fimmtudegi og aftur á sunnudegi í stað þriðjudegi/miðvikudegi og aftur á laugardegi. Þetta hafði sín áhrif og þetta sást oftar en ekki best þegar okkar menn þurftu að sækja mark á lokamínútunum til að næla í sigur. Bensínið var oftar en ekki búið.
Þetta eru samt allt afsakanir og José Mourinho er borgað fyrir að finna leið til þess að koma liðinu aftur á toppinn, honum er borgað fyrir að glíma við allar þessar áskoranir. Og félag eins og Manchester United á að gera betur en það gerði á tímabilinu 2016/2017.
Þegar maður hugsar til baka er þetta tímabil að ákveðnu leyti keimlíkt fyrsta tímabili Louis van Gaal. Það tímabil steig liðið klárlega skref fram á við frá fyrra ári þrátt fyrir að ýmislegt neikvætt væri einnig í gangi. Það sem klikkaði eftir það tímabil voru leikmannakaupin um sumarið. Það má ekki gerast aftur.
Gefið José Mourinho einkunn. 1-10
Bjössi
8. Sjö fyrir frammistöðuna á tímabilinu, og einn auka fyrir góð kaup.
Kaupin hjá Mourinho gengu upp, allir fjórir leikmenn skiluðu sínu yfir tímabilið. Zlatan var flottur en fáir aðrir skoruðu nóg. Pogba var mjög góður, þó hann væri ekki þessi flugeldasýning sem fólk virtist halda að væri nauðsynlegt bara af því hann kostaði pening. Frammistaða United með og án hans í liðinu sýndi hversu mikilvægur hann var í vetur. Það tók góðan tíma fyrir Mkhitaryan að komast í gír en eftir það var hann góður og stundum frábær. Eric Bailly var einfaldlega besti varnarmaður United, þegar hann var heill.
Hann var með of þunnan hóp og lenti í vandræðum með það undir lok tímabilsins. Það er ólíklegt að það að halda Memphis hefði skipt máli, en Schneiderlin hefði getað komið inn. Vona að Mourinho læri af því. Næsta vetur verður að nota yngri leikmennina í deildarbikanum, styrkleikinn í U-23 er ekki nægur þannig að það verða líklega einhverjir af þeim sem hafa verið í U-18 sem fá að reyna sig. Það má því ekki lána of marga af þeim út.
Elli
Á sínu fyrsta tímabili með United náði Mourinho að:
- styrkja liðið með kaupum á fjórum stórgóðum leikmönnum
- vinna góðgerðarskjöldinn
- vinna deildarbikarinn
- vinna Evrópudeildina
- sjá til þess að United spili í meistaradeildinni á næsta tímabil
Slíkur árangur á skilið eina góða sjöu frá mér.
Halldór
Mourinho fær 8 í einkunn fyrir tímabilið frá mér. Hann skilaði samfélagsskildi, deildarbikar, Evrópudeildartitli og Meistaradeildarsæti. Kaupin hans voru frábær og það eru leikmenn sem hafa vaxið mikið undir hans stjórn. Hann náði líka að fasa Wayne Rooney út úr byrjunarliðinu á mjög góðan hátt en gerði honum samt kleift að ná markametinu og lyfta titlum.
Hann hefði þó mátt rótera meira á ákveðnum lykilleikmönnum og þrátt fyrir að léleg færanýting skrifist að mestu á sóknarmenn liðsins þá hlýtur Mourinho samt líka að þurfa að taka einhverja ábyrgð á öllum þessum jafnteflum. En þetta var fyrsta tímabilið hans svo ég dæmi hann ekki of harkalega fyrir það núna. Svipað með frammistöðuna í leikjunum gegn toppandstæðingunum í deildinni.
Maggi
7,5
Runólfur
José Mourinho fær 7.7 í einkunn, sjá fyrsta svar fyrir frekari rökstuðning.
Tryggvi
Ég gef okkar manni sex í einkunn.
Það er alveg ljóst að Mourinho hentar þessu liði umtalsvert betur en síðustu tveir forverar hans í starfi. Hann fær samt ekki hærri einkunn en sex vegna þess að hann þarf að gera betur.
Liðið náði ekki að standa sig betur í deildinni vegna þess að hann notaði hópinn alltof lítið. Hann keyrði ótrúlega mikið á sama hópnum á meðan sumir leikmenn fengu ekki leik. Þetta gengur ekki til lengdar hjá félagi eins og United sem vill, eins og Mourinho, keppa til sigurs í öllum keppnum. Eitthvað þarf undan að láta og á þessu tímabili, því miður, var það deildin.
Að sama skapi þarf Mourino að skerpa á sóknarleik liðsins. Það vita það allir að hann skipuleggur vörn liðsins afar vel en svo virðist sem að sóknarleikurinn snúist bara um að leikmennirnir eigi að redda þessu. Það virkaði þegar Zlatan var í stuði, annars ekki.
Ég er þó handviss um að okkar maður hafi svarið við öllu þessu.
Meðaleinkunn: 7,36
eða II. einkunn. Ekki nógu gott!
Leikmaður ársins. raðið í sæti 1-3
Bjössi
Erfitt að velja, þar sem enginn leikmaður hefur skarað framúr yfir allt tímabilið
- TonyV: Stöðugastur allra. Gríðarlega traustur í bakverðinum og betri framávið en síðustu ár.
- Zlatan: Markakóngurinn, en einhvern veginn er það svo að stundum var eins og hann hyrfi í leikjum sem skipti máli. Viðbrögð sumra eftir meiðslin um að þetta gæti bara gefið United ný tækifæri fram á við sýndu að það var ekki óalgeng skoðun. Það reyndist svo röng viðbrögð.
- Ander, Pogba, Bailly: Get hreinlega ekki gert upp á milli. Herrera var frábær seinni hluta móts, Pogba sýndi oft hvers hann var megn, það sýndi stigasöfnun United með og án hans, og Bailly var besti varnarmaðurinn þegar hann var ekki meiddur.
Elli
- Herrera
- Bailly/Zlatan
- Pogba
Halldór
Leikmenn ársins hjá mér eru:
1. Paul Pogba. Hann á mikið inni en gaurinn er bara svo ótrúlega góður í fótbolta að hann hefur samt sýnt hvers vegna það var svona mikilvægt að fá hann heim aftur. Í flestum leikjum hefur hann verið yfirburðarleikmaður og hann á bara eftir að verða betri fyrir liðið.
2. Ander Herrera. Ég dýrka þennan leikmann. Hann er svo all-in í því að vera leikmaður hjá Manchester United. Einn af þeim sem hefur vaxið mikið eftir að Mourinho tók við enda virðist Mourinho ætla að nota hann meira þannig að styrkleikar Herrera nýtist sem best, ólíkt t.d. van Gaal sem vildi frekar reyna að halda aftur af Herrera.
3. Zlatan Ibrahimovic. Meiztarinn. Var alls ekki orðinn of gamall fyrir enska boltann. Kom með mörk og swagger inn í liðið og ég er fullviss um að hann hefur haft góð áhrif á ungu leikmenn liðsins, jafnvel líka eldri og reynslumeiri leikmenn.
Svo er nú ósanngjarnt að minnast ekki aðeins á Anthonio Valencia. Maðurinn hefur verið einn af bestu hægri bakvörðum deildarinnar, og þótt víðar væri leitað.
Maggi
- Ander Herrera
- Antonio Valencia
- Zlatan Ibrahimovic
Runólfur
- Ander Herrera = Fór úr því að vera „bit-part“ leikmaður hjá Louis Van Gaal í að vera einn af fyrstu mönnunum á blað hjá Mourinho. Þetta do or die hugarfar er eitthvað sem flestir aðdáendur elska.
- Paul Pogba = Skítt með verðmiðann. United er allt annað (og miklu verra) lið þegar Pogba er ekki á vellinum.
- Zlatan Ibrahimovic = Hvað getur maður sagt? Maðurinn er ómennskur. Fyrsti leikmaður United til að skora meira en 20 mörk á einu tímabili síðan Robin Van Persie gerði það 2012/2013.
Tryggvi
- Ander Herrera – Jafnbesti maður liðsins heilt yfir tímabilið. Er að verða ómissandi á miðjunni. Hann elskar að spila fyrir United og þarna er á ferðinni framtíðarfyrirliði United.
- Zlatan – 28 mörk.
- Eric Bailly – Í Bailly erum við að því er virðist loksins búin að finna arftaka Nemanja Vidic. Var á tímum stórbrotinn í vörninni og verður stór hlekkur í þessu United-liði um ókomin ár
Leikmaður ársins valinn af ritstjórn RD: Ander Herrera
Mestu framfarirnar
Bjössi
- Marcos Rojo
- Matteo Darmian átti nokkra stórfína leiki undir lokin
Elli
Herrera. Drengurinn hefur nánast alltaf spilað vel fyrir okkur en undir stjórn Mourinho hefur hann risið upp og eignað sér sætið við hliðina á Pogba á miðjunni. Vandamál Mourinho er núna einfaldlega hver á að vera á miðjunni með Pogba á Herrera.
Halldór
Valencia hefur verið stöðugur og flottur en mér finnst Ander Herrera hafa sýnt mestu framfarirnar. Hann hafði alveg sýnt að hann væri góður á þessum 2 tímabilum fyrir þetta en hann hefur virkilega blómstrað á þessu tímabili og líka sýnt það að hann hefur akkúrat rétta karakterinn í þetta. Sífellt fleiri sjá hann fyrir sér sem framtíðarfyrirliða liðsins og ég get alveg tekið undir að hann væri flottur sem slíkur.
Maggi
- Marcos Rojo
- Antonio Valencia
Runólfur
Ander Herrera fær framfarir ársins, maður ársins.
Tryggvi
Marcos Rojo á skilið þessi verðlaun. Fyrir þetta tímabil var þetta miðvörðurinn sem maður var helst tilbúinn til þess að afskrifa. Hann steig heldur betur upp undir stjórn Mourinho og myndaðu heljarinnar miðvarðapar með Bailly. Sýndi og sannaði að það er hægt að treysta á hann þegar á reynir. Ef til vill þarf liðið að bæta við sig miðverði í sumar en það er ekki slæmt að hafa mann eins og Rojo í hópnum miðað við frammistöðuna á tímabilinu.
Mestu framfarirnar í vetur: Ander Herrera og Marcos Rojo
Þeir félagarnir fá að deila þessu hjá okkur.
Auðunn says
Skemmtilegar pælingar og misjafnar skoðanir manna á þessu tímabili.
Að mínu mati slapp þetta tímabil rétt fyrir horn fyrst sigur náðist gegn Ajax.
Þannig að maður er svona semí ánægður, gef Mourinho 6,5 í einkunn.
Er ánægðastur með kaup liðsins fyrir tímabilið, fenguð klárlega aukin gæði inn í liðið sem liðið þurfti á að halda.
Fannst Herrera, Eric Bailly og Zlatan bestu menn liðsins.
Sá ekki miklar framfarir hjá yngri strákunum frá tímabilini áður, þeir eiga meira inni.
Mestu vonbrigðin var spilamennska liðsins, og þá sérstaklega í þessum stærri leikjum.
Alltaf of varnarsinnað fyrir minn smekk, hræðsla við að halda boltanum og pressa andstæðinginn.
Ég hef hlustað á spekinga benda á þetta á erlendum miðlum sem og starfsmenn MUTV sem eru þá gamlir leikmenn liðsins.
Menn eru ekki vanir svona mikilli varnartaktík á Old Trafford og þetta pirrar suma.
En eins og talað var um í einhverjum þætti sem ég sá brot úr þá kom fram að leikmenn og þjálfarar liðsins sem og Móri væru meðvitaðir um að stuðningsmenn liðsins vildu sjá United spila meiri sóknarbolta þannig að ég vona að við fáum að sjá meiri sóknartilburði frá liðinu á næsta tímabili.
Nú vonar maður bara að klúbbnum takist vel upp á leikmannamarkaðinum í sumar og fái inn meiri gæði allstaðar á vellinum.
Liðið þarf miðvörð, bakvörð, tvo miðjumenn og sóknarmann eða c.a 5 leikmenn að mínu mati og það getur auðveldlega losað sig við 3-4 leikmenn í staðinn.
Zlatan fer líklega sem og Rooney, Young og Fellaini mættu einnig fara og svo kæmi mér ekkert gífurlega á óvart ef Smalling og Darmian færu líka.
Januzaj fer en spurning hvað verður um Andreas Pereira.
Liðið missti tvo miðjumenn eftir áramót og það kom enginn í staðinn, þar vantar alveg klárlega bæði gæði og breidd.
Finnst að Mourinho þurfi líka aðeins að hætta þessu kvarti í fjölmiðlum með meiðsli, leikjaálag sem og hætta að gagnrýna leikmenn liðsins opinberlega.
United vill vera með í öllum keppnum og spila tvo leiki í viku, þjálfarinn verður að ráða við það og vera óhræddur við að nýta hópinn betur en hann gerði.
Birgir G Valgeirsson says
Árangurinn í vetur og bara síðan Fergie hætti fyrir 4 árum er ekki boðlegur fyrir stórlið eins og Man Utd! Leikmenn eru ekki að ná að sýna sína næga hæfileika á vellinum af einhverjum ástæðum! Sjötta sætið er nánast skandall ef ekki væri fyrir sigur í Evrópukeppninni. Bjargaðist fyrir horn með naumindum! Verður að kaupa sterka leikmenn eins og 4-5 fyrir næstu leiktíð annars verður liðið einungis meðallið með allra þeirri keppni sem önnur stórlið veita á seinni árum! Ekki viljum við sjá það! Áfram Manchester United!
Tommi says
Blendnar tilfinningar. Fannst liðið vera að spila vel um miðbik tímabils, dóminera marga leiki, sína annars lagið fína sóknartakta en ekki ná að landa sigri… pínu óheppnir á köflum. Fannst spilamennskan gefa ástæðu til bjartsýni.
Síðan þegar leikjaálag varð meira og menn fóru að meiðast, þá varð Mourinho og liðið kannski eðlilega rosalega pragmatískt. Hættum að hafa yfirhönd í flestum leikjum. Engin áhætta tekinn. Iðulega boðið upp á varnartaktík þar sem Fellaini lék stórt hlutverk í að taka við löngum boltum. Það skilaði uefa cup. En maður vill ekki að þetta sé taktíkin hjá Manchester United til frambúðar í stórum leikjum.
Solid byrjun hjá Mourinho. Að vera kominn í meistaradeildina tekur smá pressu af fyrir næsta tímabil. Með réttum kaupum á liðið að geta komið sterkt til leiks á næsta tímabili… og spilað skemmtilegan bolta.
Tony D says
Ég veit ekki alveg hvað mér finnst persónulega um tímabilið. Byrja á að þakka ritstjórum fyrir flotta pistla og góðar leikskýrslur. Þið eigið skilið gott hrós :)
Að Morinho, þá vantaði upp á að hann róteraði hópnum meira, seldi tvö miðjumenn á miðju tímabili sem snarminnkaði breiddina og spilaði full passíft á heimavelli oft á tíðum. Lið eru engan veginn hrædd við að mæta á Trafford lengur og það verður að laga. Samt sem áður er hann að ná mjög vel út úr mönnum t.d Herrera, Rojo, Fellaini ofl.
En mjög sterkt að klára evrópudeildina og ég er sáttur að lokum. Sumarkaupin stóðu sig vel, sérstaklega Zlatan og Pogba. Nú er bara að bíða þangað til í ágúst.
Rauðhaus says
Tímabilið hefði flokkast sem ömurlegt ef ekki væri fyrir Evrópudeildarbikarinn. Hann bætir þó útlitið allsvakalega og gríðarlega gott að ná að enda á háum nótum. Léttir líka pressuna.
Mourinho hefur oft verið öflugur á markaðinum og vonandi tekst líka vel upp í sumar. Það sem er nauðsynlegt að fá er:
1. Byrjunarliðsmiðvörður með Bailly. Væri alveg til í Virgil van Dijk. Hef miklar efasemdir um Michael Keane sem hefur verið orðaður við okkur. Átta menn sig t.d. á því að Keane er aðeins 11 mánuðum yngri en Phil Jones? Við verðum að stefna hærra. Ætli JM nái í free agent Pepe?
2. Miðjumaður til að spila með Pogba og Herrera í byrjunarliðinu. Ég vil fá einhvern góðan sendingamann. Vil miklu frekar fá Fabinho heldur Bakayoko frá Monaco.
3. Griezmann.
4. Annan sóknarmann, í staðinn fyrir Zlatan.
5. Svo mætti alveg bæta við upp á breiddina.
Áttum okkur líka á því að við munum losa einhverja menn og að það munar ekkert smávægilega á að losa Zlatan og Rooney af launalistanum okkar. Ég vil að Shaw verði bakvörður nr. 1 hjá okkur en óttast mjög að JM selji hann. Virðist engan veginn kunna að meta hann. Það sama á við um Martial.