Nú er komið að því. Þetta er búið að vera svo auðvelt að það er ekkert er að marka að United situr í öðru sæti deildannar á markatölu, og hefur bara gert eitt jafntefli í sjö leikjum. Það er ekkert að marka það að í sömu sjö leikjum í fyrra gerði United fjögur jafntefli, flest með herkjum, og það er ekkert að marka að í þessum sjö leikjum hefur liðið skorað 21 mark. Það er bara ekkert að marka allt þetta, vegna þess að Liverpool leikurinn á laugardaginn kl 11:30 skiptir miklu meira máli en allt þetta.
Nei, bíðið nú aðeins hæg!
Manchester United hefur vissulega ekki leikið gegn neinu þessara liða sem við sjáum hér í efstu sjö sætunum í stigatöflunni. En þú getur ekki unnið aðra leiki en þú spilar og þó að fyrstu sjö leikirnir hafi vissulega verið auðveldir á pappír og hægt að láta sig dreyma fyrirfram að vinna þá alla þá er annað láta þá drauma rætast. United hefur unnið sex af leikjunum í deildinni, og fjóra þeirra með markatölunni 4-0, og aðeins fengið á sig tvö mörk, í jafnteflinu gegn Stoke.
Það er varla hægt að gera betur.
Hitt er vissulega rétt að í hádeginu á laugardag kemur ný þolraun. Liverpool á Anfield er stórleikur og mun alltaf vera jafnvel þó hvorugt liðið væri í toppbaráttu. En núna er þetta toppslagur. Liverpool þarf nauðsynlega á þremur stigum að halda til að halda í við toppliðin. Manchester United undir stjórn José Mourinho er hins vegar lið sem mun ekki láta slíkt hafa áhrif á sig.
Það er nefnilega alveg á kristaltæru að þegar svona leikir koma, þá verður það ekki „4-0“ José sem leikur lausum hala, það verður „þessum leik töpum við ekki“ José. Í vikunni sagði hann
It’s three points, not four. Maybe if we were in a moment of the season where it was a duel between two teams it could mean more but it’s not the case.
Það væri hins vegar þessum José mun meira til hugarhægðar ef einn besti maður liðsins í haust hefði ekki meiðst í landsleik með Belgíu á laugardaginn. Það hefði verið algerlegar öruggt að ef svo hefði ekki farið þá væri ég í dag að spá honum og Nemanja Matić saman á miðjunni í þessum leik. En í staðinn verður það Ander Herrera sem fær tækifærið.
Herrera hefur verið út úr liðinu í haust, og það eðlilega því Matić og Pogba og síðan Matić og Fellaini hafa hreinlega sýnt að það séu miðjupörin sem afgreiða leiki. En það afskrifar enginn Ander Herrera, einn okkar besta mann síðasta vetur, ef ekki besta.
Í jafnteflisleik á Anfield í janúar var hann bestur United manna þegar hann þurfti að spila með Carrick við hliðina á sér og Pogba átti sinn slakasta leik. Í leiknum á Old Trafford í fyrrahaust var hann með Fellaini með sér og var langbesti maður United. Nú fær hann tröllið Matić með sér sem hefur verið frábær í vetur og án nokkurs vafa betri en Carrick og Fellaini.
Það þarf ekki að hafa nokkrar áhyggjur af því fyrirfram að þessir tveir á miðjunni láti Liverpool komast upp með eitthvað mikið.
Liðið verður því líklega svona:
Nema að Jafnteflis-José ákveði að skella í 3-5-2. Phil Jones fór ekki í landsliðið vegna meiðsla og gæti verið tæpur og þá gætum við séð Blind og Smalling koma inn í þriggja manna vörn, og einhverjar tilfærslur frammi. Rashford spilaði síðasta leik fyrir landsleikjahlé þannig að það er líklega komið að Martial, sem að auki fékk frí í landsleikjahléinu (vissuð þið að Ísland er komið á HM?)
Liverpool
Liverpool hefur ekki gengið sem skyldi í haust. Þrjú jafntefli og eitt tap í deildinni og þó að það sé aðallega Unitedfólk sem er í #KloppOut er ekki laust við að hvatvísara stuðningsfólk sé farið að ókyrrast. Helsti gallinn við Liverpool hefur verið að vörnin og markvarslan þykir brothætt. Ein af sögum sumarsins var ekki-kaup Liverpool á Virgil van Dijk frá Southampton og enginn vilji þeirra til að sætta sig við einhvern annan leikmann til að styrkja vörnina. Stóru kaupin þeirra í sumar voru Alex Oxlade-Chamberlain frá Arsenal sem hefur alls ekki staðið sig vel. Mohamed Salah hefur hins vegar komið sterkur inn og skorað fjögur mörk í deild og tvö í Meistaradeildinni. Philippe Coutinho fer hægt af stað eftir að hafa verið úti í kuldanum vegna ekki-sölunnar til Barcelona. Hann og Firmino voru með Brasilíu í leik aðfaranótt miðvikudags og eru því væntanlega að komast á æfingu í dag, fimmtudag og vonandi að ferðalagið sitji í þeim.
En það versta fyrir Liverpool var að Sadio Mané sem hefur verið líklega besti maður Liverpool í haust meiddist í leik Senegal gegn Grænhöfðaeyjum. Þar er skarð fyrir skildi en það sem upp er talið áður af framlínumönnum ættu að vera nægur prófsteinn á vörn United sem, sem fyrr segir, er bara búin að fá á sig tvö mörk í deildinni, og eitt í Meistaradeildinni.
Þrátt fyrir að Belgía gerði sitt besta til að spila með Lukaku eins mikið í þýðingarlausum leikjum og hægt var kemur hann ómeiddur til baka og það ætti því að vera hans verkefni að halda áfram frábærri byrjun sinni og bæta við þessi ellefu mörk sem hann hefur skoraði í fyrstu tíu leikjunum
Búast má við Liverpool liðinu einhvern veginn svona. Einhver vafi er þó á að Dejan Lovren nái ekki leiknum og væri vissulega enn frekar til að veikja vörnina.
Þetta Liverpool lið hefur í síðustu sex leikjum unnið Leicester, tapað fyrir Leicester í Carabao bikarnum, en annars gert fjögur jafntefli. Á sama tíma hefur United unnið sex leiki.
Það er ekki nokkur vafi á því að ef United gengur af velli á laugardaginn með stig í vasanum þá verður José ánægður. Það getur verið að hann tali að ofan um leikinn sem ekki hluta toppbaráttunar, en Anfield er Anfield og hann mun bera fulla virðingu fyrir því. Við vitum að deildin vinnst ekki endilega á sigrum á slíkum útivelli, það sem skiptir máli er að hitt liðið fái ekki þrjú stig.
En að því sögðu, með fullri virðingu fyrir Liverpool og þessum risaslag, sem oftar en ekki fer gegn gangi liðanna annars, þá ætla ég að leyfa mér hæfilega bjartsýni á það að Rashford, Martial og Lukaku sýni á laugardaginn áfram hvers konar markamaskína þetta lið er orðið og geri helgina okkur öllum gleðilega!
Halldór Marteins says
Djöfull er maður orðinn peppstressaður fyrir þetta!
Nokkuð sammála þessu liði sem Bjössi hendir upp. Mig grunar reyndar að Mourinho gæti valið Rashford fram yfir Martial af því Rashford hefur sýnt það að hann er alltaf til í að sinna varnarvinnunni og leggjast niður að hlið bakvarðar þegar þarf. En hann var þó reyndar að taka þátt í landsleikjahlénu á meðan Martial hvíldi svo það gæti auðvitað spilað inn í líka.
Og varðandi bakvörðinn vinstra megin þá veit ég ekki hvort ég treysti Young í svona stórleik varnarlega séð. Fíla Young í botn en það gæti verið sniðugra að velja Darmian sem er mun betri í varnarleiknum og góður í að detta í þessa stöðu inn að miðvörðunum þegar þarf virkilega að loka og læsa.
Þetta verður mjög áhugavert hvað stjórarnir gera báðir og maður býst jafnvel við meira fjöri í taktísku pælingunum en endilega inná vellinum.
einarb says
Stórgóð upphitun. Þrátt fyrir að Liverpool hafi kannski ekki byrjað stórkostlega er ég er helvíti stressaður. Staðan í deildinni skiptir engu máli í þessum leikjum, og þetta er Anfield. Það eru ekki svo margar vikur síðan ég horfði Liverpool rúlla Arsenal upp 4-0 á þessum velli.
Held þetta verði varfærnislegur leikur frekar en flugeldasýning. Mourinho vill ekki tapa þessum leik umfram allt. Ég yrði allavega himinlifandi með jafntefli af Anfield. Það var svekkjandi að missa Fellaini í meiðsli í landsleikjahléinu en á sama skapi vona ég að Herrera komi inn og grípi tækifærið.
1-1 í stál í stál leik!
Kristján says
Hvað er betra en að fá Liverpool – Manchester United stærsta leik knattspyrnunnar í kjölfarið á því að Ísland hafi tryggt sér farseðilinn á HM í Russlandi. :)
Siggi Tomm says
Stóru kaupin þeirra í sumar voru Alex Oxlade-Chamberlain frá Arsenal 😅😅😅
Rúnar P. says
Hefur enginn ManU maður/kona fattað að Jose er meistari í „út úr snúning“???
Það kemur ekkert rétt upp úr honum og hann er eins og NFL þjálfanir sem gefur lítið sem ekkert um sitt lið eða leikmenn..
Með þessu vil ég meina að Pogba verður klár í slaginn fyrr en síðar og Zlatan allt í einu vera á leikskýrslu án þess að nokkur maður fatti það! (kannski ekki á Laugardaginn, en bíðið bara ;) )
Björn Friðgeir says
Rúnar: Ég vildi óska þú hefðir rétt fyrir þér…
Karl Garðars says
Skíta tilfinning fyrir þessum leik því ég er ekkert stressaður. Það segir mér að púðlurnar skora mark eftir 3 mín. okkar menn verða mun betri aðilinn í leiknum og Lukaku jafnar. Við töpum manni út af og fáum á okkur aulamark undir lok leiks. Töpum þvert á gang leiksins og megi ég vera deadwrong.
Egill says
Takk fyrir frábæran pistil. Við erum með betra lið og betri stjóra, ef allt verður eðlilegt þá vinnum við þennan leik. En þessir leikir eru bara ekki eðlilegir. Undanfarin 20+ ár hefur Liverpool meira eða minna verið rétt rúmlega miðlungslið í deildinni en hafa átt sín móment og komist í top 4 endrum og eins, á meðan hefur Man Utd verið á toppnum eða alveg við toppinn, fyrir utan örfáar undantekningar, en staða liðanna í deildinn hefur aldrei skipt máli. Þessi leikir eru alltaf óútreiknanlegir, nema þegar Moyes var að stýra okkur. Anfield er erfiður völlur og andrúmsloftið getur verið gríðarlega stór faktor, þá skiptir máli að vera með leikmenn sem þola álagið, en við erum akkúrat með þannig leikmenn hjá okkur núna.
Ég hef enga trú á því að við munum leggja rútunni, veikleiki púlara er vörnin, og okkar styrkleiki er sókn og vörn. Mourinho mun finna leið til að svæfa Coutinho og Salah mun vera vaktaður allan leikinn, ef það gengur eftir ætti þetta ekki að vera ýkja erfitt fyrir okkar menn. Slík eru gæðin í hópnum okkar.
ÁFRAM MAN UTD!!!