Á morgun heimsækjum við Burnley í fjórða leik ársins en 2018 hefur farið vel af stað hjá okkar mönnum. Eftir afar erfiða jólatörn hefur liðið unnið alla þrjá leiki sína á nýju ári án þess að fá á sig mark og vonandi heldur það fína gengi áfram á morgun þegar við heimsækjum Jóhann Berg og félaga á Turf Moor. Það hefur reynst mörgum United mönnum erfitt að huga að leiknum undanfarna daga enda aðalfrétt vikunnar yfirvofandi félagsskipti Alexis Sanchez frá Arsenal. Jose Mourinho talaði stuttlega um kaupin, þar sem Henrikh Mkhitaryan fer í hina áttina, á blaðamannafundi sínum í dag og staðfesti að ekki er búið að ganga frá neinu en að skiptin séu vissulega í vinnslu. Við gleymum því Sílemanninum í bili og hugum að því sem skiptir máli, leiknum sjálfum.
Við minnum á 46. þátt Djöflavarpsins fyrir þá sem kunna illa við að gleyma Alexis Sanchez slúðrinu en í gær fórum við vel yfir möguleg skipti Sanchez og Mkhitaryan ásamt því að fara yfir undanfarna leiki og svara spurningum frá hlustendum og lesendum.
Andstæðingurinn
Burnley hefur verið spútniklið vetursins og situr í 7. sæti í dag þrátt fyrir erfiðar undanfarnar vikur. Lærisveinar Sean Dyche eru með eina sterkustu vörn deildarinnar og hafa aðeins fengið á sig 20 mörk í 23 leikjum, aðeins Chelsea, United og City státa af betri tölfræði. Þrátt fyrir það hefur Burnley gengið illa nýlega og ekki unnið leik síðan um miðjan desember en þeir eru orðnir sjö í röð án sigurs núna. Það er ekki alltaf sem lið mætast með svo stuttu millibili í ensku úrvalsdeildinni en okkar menn mættu auðvitað Burnley nú síðast á öðrum degi jóla. Það blés ekki byrlega á Old Trafford þann daginn er Ashley Barnes kom Burnley yfir strax á þriðju mínútu eftir fyrirgjöf frá Jóhanni Berg. Belginn Steven Defour sá svo til þess að staðan var 0:2 í hálfleik með frábærri aukaspyrnu en Jesse Lingard bjargaði stiginu með tvennu, það seinna í uppbótartíma.
Stephen Ward er áfram meiddur og er það skarð fyrir skildi hjá Burnley en írski landsliðsmaðurinn er algjör lykilleikmaður. Sóknarmaðurinn Chris Wood er áfram frá ásamt Robbie Brady og enginn Tom Heaton verður í markinu. Burnley fékk framherjann Georges-Kevin N’Koudou á láni frá Tottenham og spilaði hann sínar fyrstu mínútur í tapinu gegn Crystal Palace um síðustu helgi, hann mun að öllum líkindum taka þátt á morgun. Okkar maður Jóhann Berg Guðmundsson er heill heilsu og hefur verið að spila vel undanfarið en hann er kominn með fimm stoðsendingar og eitt mark en það skoraði hann gegn Liverpool á nýársdag, við þurfum að hafa gætur á honum.
Manchester United
Desember mánuður gaf ekki ýkja mikið en það eru ekki alltaf jólin og uppgangur er á Manchester United þessa daganna. 2018 fer vel af stað og nú virðist sem Alexis Sanchez muni bætast við sóknarleikinn á næstu dögum, stuðningsmenn eru bjartsýnir og spenntir og nú er mikilvægt að missa ekki þetta skrið með því að misstíga okkur gegn Burnley á morgun.
United hefur ekki fengið á sig mark á árinu og haldið hreinu í síðustu fjórum leikjum sínum; Burnley var síðasta liðið til að þenja út netmöskva David de Gea en Spánverjinn hefur haldið hreinu 13 sinnum í vetur, oftar en allir aðrir í úrvalsdeildinni. United vann 3:0 sigur á Stoke á mánudaginn var eftir afar jákvæða frammistöðu þar sem Paul Pogba hélt áfram uppteknum hætti með því að leggja upp tvö mörk ásamt því að Romelu Lukaku skoraði gott mark. Á morgun tekst okkar mönnum vonandi að halda áfram að spila vel enda mikilvægir leikir framundan í deild, bikar og Meistaradeild.
Það eru fimm leikmenn fjarverandi en þeir Zlatan Ibrahimovic, Eric Bailly og Michael Carrick vissum við af. Jose Mourinho staðfesti svo á blaðamannafundi sínum fyrr í dag að Daley Blind væri smávægilega meiddur og yrði því ekki með. Henrikh Mkhitaryan er við bestu heilsu en verður ekki í leikmannahópnum í ljósi aðstæðna, hann er sennilega á leiðinni til Arsenal.
Ashley Young hefur nú lokið þriggja leikja banni sínu og gæti því tekið þátt á morgun en ólíklegt er að Luke Shaw verði vikið úr vinstri bakavarðar stöðunni. Shaw hefur nú spilað 90 mínútur, fimm leiki í röð og er það lengsta törn hans í byrjunarliðinu síðan fyrir fótbrotið alræmda í desember 2015. Samband Mourinho og Shaw hefur oft virkað stirt en Portúgalinn hrósaði bakverðinum sérstaklega í dag og því fagna allir góðir menn.
Jose on @LukeShaw23: “Luke has done very well recently, played very well. I’m really happy with him. I can say in this moment, I don’t see many left-backs better than Luke Shaw.” #MUFC pic.twitter.com/Tk8H2spLlQ
— Manchester United (@ManUtd) January 19, 2018
Næsti leikur er gegn D-deildarliði Yeovil Town í enska bikarnum á föstudaginn kemur og getur Mourinho því leyft sér að tefla fram sínu sterkasta á morgun. Ég spái sama byrjunarliði og gegn Stoke í síðasta leik og mikilvægum en naumum sigri til að halda Chelsea og Liverpool frá okkur.
Albert says
Ég er kvíðinn fyrir leiknum. Við erum ekki að spila þann bolta sem stórliðið á að spila. Varnarsinnað, hægt, fyrirsjáanlegt og afar dapurt. Við óskum engum að þurfa að horfa á leiki með liðinu eins og ég lenti í á Old Trafford í jólafríinu. Var næstum að missa áhuga á boltanum.