José Mourinho stýrði Manchester United í 100. leiknum sínum í kvöld. Hann á líka afmæli í dag. Og hann var að skrifa undir nýjan samning hjá Manchester United. Svo það var þegar komin þreföld ástæða til að fagna fyrir leik. Þessi leikur var í fjórðu umferð ensku bikarkeppninnar.
Mourinho skellti í þetta byrjunarlið:
Varamenn í kvöld: Pereira, Smalling, Young, Gomes, Lingard, Matic, Lukaku
Lið heimamanna í Yeovil var þannig skipað:
Varamenn: Maddison, Whelan, C. Smith, Gobern, Santos, Browne, Fisher
Leikurinn
Leikmenn Yeovil voru ansi sprækir í byrjun leiks, vörðust framarlega og reyndu að vera eins ágengir og þeir gátu. Það tók þá ekki nema 15 sekúndur að ná í fyrsta gula spjaldið, þegar fyrirliðinn Zoko var alltof seinn í Marcos Rojo. Á fyrstu 15 mínútum leiksins náði Yeovil líka að skapa sér tvö opin marktækifæri. Fyrst var það kantmaðurinn Jordan Green sem komst einn í gegn eftir góðan samleik en skotið hans var laust og truflaði Romero ekkert. Síðan fékk Sowunmi frían skalla eftir aukaspyrnu utan af velli en aftur var marktilraunin laus og nokkuð beint á Romero.
Eftir þetta fór að draga af Yeovil og Manchester United náði betri tökum á leiknum. Það gekk þó mjög misvel að ná upp almennilegu spili. Sendingar rötuðu ekki alltaf á samherja, af hinum ýmsu ástæðum. Í liðinu voru líka leikmenn sem hafa lítið spilað að undanförnu, leikmenn sem eru ekki mjög vanir að spila saman og svo var völlurinn hreint ekki að hjálpa til þegar kom að spili. Óútreiknanleg skopp á bolta trufluðu oft í þessum leik, bæði þegar boltinn lenti eftir háar sendingar en líka þegar boltinn gerði eitthvað óvænt rétt áður en spyrnt var í hann.
Alexis Sánchez var sprækasti leikmaður liðsins framan af, hann var duglegur að láta finna fyrir sér, mikið í boltanum og mikið að reyna að búa eitthvað til. Af einhverjum ástæðum fann stuðningsfólk Yeovil sig tilknúið að baula á Alexis í hvert skipti sem hann fékk boltann í fyrri hálfleik. En hann lét það ekki á sig fá heldur hélt áfram að reyna. Dró sig ýmist vel út á vinstri kant eða leysti inn að miðju. Átti hugmyndaríkar stungusendingar og leitaði að samherjum í bland við að reyna að skapa eitthvað fyrir sjálfan sig.
Á 24. mínútu var Alexis næstum því búinn að ná fyrstu stoðsendingunni sinni, þegar hann átti góðan sprett á vörn Yeovil, fann McTominay þar við vítateigsjaðarinn sem kom með fínt skot neðarlega á markið sem Krysiak í marki Yeovil gerði mjög vel í að verja. Eftir hálftíma leik fékk United svo aukaspyrnu. Hún var nokkuð langt frá marki en Alexis lét engu að síður vaða. Þótt skotið væri út við stöng þá var það ekki nógu fast til að trufla Krysiak að ráði.
Alexis var allt í öllu í spilinu næstu mínúturnar á eftir og nokkur fín færi sköpuðust út frá því sem United náði þó ekki að nýta. Yeovil fékk reyndar aukaspyrnu á hættulegum stað í millitíðinni en bombuðu boltanum beint á Romero úr henni. Alexis átti svo færi á 40. mínútu og náði fínu skoti en það fór rétt framhjá.
Aðeins mínútu síðar náðu þeir þó að brjóta ísinn, og auðvitað var Alexis Sánchez þar nálægt. United vann boltann eftir útspark frá Yeovil. Rashford kom boltanum á Alexis og þeir tveir tóku á sprett að markinu. Umkringdir varnarmönnum en Alexis fann samt sem áður Rashford. Rashford keyrði á varnarþvöguna, Yeovil virtist hafa unnið boltann af Rashford en Rashford gafst ekki upp heldur náði að stinga sér fram fyrir varnarmann Yeovil og skora. Varnarmaðurinn beið þarna alltof lengi eftir markmanninum sínum en Rasahford sýndi góðan karakter í að ná þessum bolta.
Eftir þetta breyttist yfirbragðið á leiknum, held að bæði lið hafi vitað það við þetta mark að United myndi alltaf sigla þessu. Yeovil reyndi svosem áfram en áræðnin var ekki alveg eins mikil og það vantaði sannfæringuna í það. Manchester United gat farið í autopilot, haldið boltanum og spilað honum sín á milli mest allan seinni hálfleikinn.
Alexis Sánchez hélt áfram að vera mikið í boltanum, Rashford varð líka sprækari eftir því sem leið á leikinn. Rashford átti til dæmis flottan sprett á 50. mínútu inn í teig Yeovil og náði skoti en það fór af varnarmanni og rétt framhjá.
Eftir klukkutíma kláraði United leikinn endanlega. Yeovil tók þá hornspyrnu og var með marga leikmenn í teig United. En United vann boltann og hann barst fram völlinn á Juan Mata. Mata fann Alexis Sánchez sem tók sprett með boltann upp að vítateig Yeovil. Hann hafði með sér Mata, Rashford og Herrera, fann þann síðastnefnda með góðri sendingu. Herrera hefur gaman af að skora gegn Yeovil í bikarnum og kláraði þetta færi vel með fínu vinstrifótarskoti. 2-0 og leikurinn endanlega kláraður.
Eftir það var hægt að fara að skipta. Lukaku kom inn fyrir Juan Mata, sem hafði rétt áður skorað mark sem var dæmt af vegna rangstöðu. Líklega réttur dómur en sóknin fram að því var skemmtileg. Jesse Lingard kom svo inn á fyrir Alexis Sánchez, sá hafði skilað góðu dagsverki. Í lokin fékk svo hinn bráðefnilegi Angel Gomes að koma inn á fyrir Marcus Rashford, virkilega skemmtilegt að sjá það. Hann minnti strax á sig, átti frábæran sprett inn í vítateig Yeovil þar sem hann þvældi varnarmenn Yeovil upp úr skónum. En skotið endaði í hliðarnetinu, því miður. Vel gert, engu að síður.
Jessinho Messi Lingard skoraði síðan þriðja mark United í leiknum undir lokin. Hljóp bara með boltann upp völlinn, inn í teig og lét vaða, boltinn söng í markhorninu. Toppnáungi, hann Lingard. En það var ekki búið enn, Lukaku skoraði fjórða markið í uppbótartíma.
Pælingar eftir leik
Afmælisbarnið José Mourinho vann í kvöld 62. sigur sinn með Manchester United, í 100 leikjum. Hvað sigurhlutfall varðar er hann með bestan árangur allra knattspyrnustjóra Manchester United. Til samanburðar var van Gaal með 52 sigurleiki eftir 100 leiki, og átti þá aðeins 3 leiki eftir af sínum stjóraferli hjá liðinu. Mourinho á allavega 17 leiki eftir af þessu tímabili. Liðið hefur skorað 180 mörk í þessum 100 leikjum og fengið á sig 70, 110 mörk í plús. Það er mikil framför frá síðasta stjóra.
Þessi leikur var að megninu til ekki merkilegur áhorfs. Þetta var ekta bikarleikur þar sem stærra og betra lið þarf að heimsækja minna lið úr neðri deild á torfæran útivöll. Völlurinn hafði áhrif. Leikform sumra hafði áhrif, sjálfstraust annarra. Engu að síður var þetta aldrei í hættu, verkefnið var klárað og undir lokin var algjörlega gengið frá því.
Það var virkilega gaman að sjá fyrirliðann Carrick mættan aftur á völlinn. Ekki endilega eitthvað sem maður bjóst við að sjá aftur, miðað við veikindin sem hrjáðu hann. Hann reyndi sitt besta til að stýra umferðinni og halda spilinu gangandi á þessum velli. Það tókst heilt yfir vel, sérstaklega þegar markmiðið var bara að stjórna leiknum og klára hann án þess að eyða of mikilli orku.
Maður leiksins
Það er ekki hægt annað en gefa Sílemanninum þetta. Hann var sprækur, hann hélt alltaf áfram að reyna. Besti maður vallarins.
Framhaldið í bikarnum
Manchester United er komið áfram í bikarnum. Fimmta umferðin verður spiluð helgina 16.-18. febrúar. Það verður dregið í keppninni á mánudagskvöldið, klukkan 19:20.
Albert says
Þreföld ástæða til að fagna? Nei bara einföld, að við séum að spila í kvöld. Mourinho er ekki Man Utd stjóri að gæðum. Við höfum séð það á spilamennskunni, nálguninni og viðhorfunum. Því miður. Frábært að Sanchez byrji og ég held að við fögnum sigri. Það eru þá tvær ástæður
Sindri Þ says
Mjög ánægður að Mourinho hafi skrifað undir nýjan samning og verði vonandi allavega til 2020.
Þvílíkur refur Rashford í markinu. Áræðinn drengurinn, það er akkúrat það sem þarf til að vinna þessa leiki.
Spái 3-0. Alexis og McTominay opna báðir markareikninga sína í síðari hálfleik.
Karl Garðars says
Þessi skortur á gæðum hjá Mourinho hefur skilað okkur alveg hreint ágætis árangri á þeim stutta tíma sem hann hefur sinnt starfinu. Ætla ekki nánar út í það því mér finnst það nokkurn veginn segja sig sjálft.
En það væri þó verulega forvitnilegt að heyra hvaða stjórar séu það ef hann er það ekki?
Að leiknum. Þetta er ekki mjög sannfærandi ekki frekar en kartöflugarðurinn sem spilað er á. Tæki 0-1 og engin meiðsli fyrirfram en Alexis mætti samt setja eitt fyrir okkur.
Bjarni says
Mikið er þetta bragðdaufur leikur sérstaklega hjá okkar liði. Menn nenna þessu ekki gera bara sitt og þá er von á öðru.
Keane says
Menn eru bara að spila nokkuð áreynslulaust, sem betur fer.
Runólfur Trausti says
Elska svona 4-0 sigra í bragðdaufum leikjum þar sem menn nenna ekki neinu og gera bara sitt.
Mótherjinn mögulega ekki upp á marga fiska en það þarf samt sem áður að vinna svona leiki. Skiljanlega var liðið ryðgað þar sem José sigurvegari Mourinho gerði 10 breytingar á byrjunarliðinu og hvíldi þá leikmenn sem nauðsynlega þurftu á því að halda.
Nú er bara að vinna Tottenham á miðvikudaginn og vona að West Bromwich Albion geri United stóran greiða gegn City.