Næstkomandi föstudag geta United-stuðningsmenn tekið gleði sína á ný en þá hefst nýtt tímabil í ensku Úrvalsdeildinni með viðureign Manchester United og Leicester City. Leikurinn fer fram á Old Trafford kl. 19:00 að íslenskum tíma og samkvæmt veðurspám má búast við kjöraðstæðum til fótboltaiðkunar í Manchester á föstudaginn. Leikmenn United hafa verið að tínast á æfingasvæðið á síðustu dögum enda sjaldan ef nokkurn tímann verið jafn stutt frá lokadegi heimsmeistaramóts að fyrstu umferð í enska boltanum. Við fórum aðeins yfir stöðuna hjá okkar mönnum frá HM-lokum og gerðum upp sumargluggann í síðasta djöflavarpinu en hann lokar í kvöld og verður fróðlegt að sjá hvort United nái að auka við breiddina í hópnum á síðustu klukkustundum gluggans.
En aftur að leiknum. Segja má að um nokkurs konar drauma byrjunarleik sé að ræða þar sem United hefur ekki tapað fyrir Leicester í síðustu 8 viðureignum (5 sigrar og 3 jafntefli) og að sama skapi að lenda á móti miðlungsliði sem á í svipuðum vandræðum og við þ.e.a.s. með nokkra byrjunarliðsmenn sem voru á HM og örfáa sem fóru í útsláttarkeppnina eins og Kasper Schmeichel, Shinji Okazaki, Harry Maguire og Jamie Vardy og misstu þar af leiðandi af hluta af undirbúningstímabilinu. Þessi leikur gæti því reynst henta okkur, það gæti verið mun erfiðara að fá topp6 lið strax í fyrsta leik og sama má segja um minni liðin, að mæta hungruðum nýliðum sem enn eru með blóðugar vígtennur eftir Championship-deildina.
Mótherjinn
Leicester City F.C. endaði síðasta tímabil í 9. sæti eftir hroðalegt gengi í síðustu sjö umferðunum þar sem liðið vann einn leik, náði einu jafntefli en tapaði hinum fimm, þar á meðal 5-0 tap fyrir Crystal Palace. Það var því deginum ljósara að Claude Puel, stjóri Leicester, þyrfti á einhverjum liðsauka í sumar en Leicester hafa styrkt sig vel í sumar, sérstaklega þegar kemur að öftustu línu.
Þeir keyptu Danny Ward (markmann) frá Liverpool, Jonny Evans (miðvörð) sem var falur fyrir rúmar 3 milljónir punda eftir að West Brom féll úr Úrvalsdeildinni og Ricardo Pereira (bakvörð) frá FC Porto. Þar fyrir utan hafa þeir fengið til liðs við sig James Maddison (miðjumann) sem var besti maður Norwich City á síðasta tímabili og að lokum Rachid Ghezzal (hægri kantmann) frá AS Monaco en stuðningsmenn LCFC binda miklar vonir við hann enda misstu þeir sinn besta mann Riyad Mahrez til Manchester City. Hvort skarðið sem hann skilur eftir sig verður of stórt fyrir Ghezzal til að fylla verður að koma í ljós.
Leicester City virðast vera í basli með að halda í bestu leikmennina sína, N’golo Kante fór til að mynda til Chelsea og Danny Drinkwater elti hann á síðasta degi leikmannagluggans í fyrra. Mahrez fór eins og áður sagði til nágranna okkar í City fyrir um 60 milljónir punda og núna hafa verið sterkir orðrómar þess efnis að kletturinn í vörninni hjá Leicester, Harry Maguire, sé á leiðinni til United en það virðist þó ekkert vera að gerast í þeim málum, ekki frekar en öðrum þegar kemur að félagsskiptamálum og United.
Claude Puel sagði þó nýlega í viðtali að hann væri ánægður með hópinn sem hann er með í höndunum og gang mála hjá liðinu á undirbúningstímabilinu í heild sinni en því lauk með góðum 1-2 útisigri á Lille í Frakklandi. Liðið hefur náð í þokkaleg úrslit í öðrum leikjum en voru kannski ekki að spila við lið á borð við Real Madrid og Bayern Munich.
Þá hafa leikmenn liðsins líka sagt það að þótt liðið hafi yfirleitt verið þekkt fyrir að liggja aftar á vellinum og beita skyndisóknum sem öskufljóta sóknarmenn, þá vilji stjórinn að þeir færi sig framar á völlinn og nái meiri tökum á leiknum og stjórni honum í meira mæli en oft áður. Það kann að reynast þeim erfitt enda verða ekki allir leikmenn Leicester orðnir leikfærir á föstudaginn en engu að síður spái ég því að Puel stilli upp liðinu sínu svona í 4-2-3-1 leikkerfi:
Það verður þó að koma í ljós hvort Claude Puel treysti liðinu til þess að reyna á þessar breytingar gegn okkur á föstudaginn og verður áhugavert að sjá hvort hann hendi Ghezzal beint í djúpu laugina en annars býst ég við að sjá Diabate á kantinum. Næstu leikir Leicester í deildinni eru svo heimaleikur gegn nýliðunum í Wolves og útileikur gegn dýrlingunum í Southampton.
United
Jafnvel þótt það kunni að hjálpa okkur að Leicester hafi átt tíu fulltrúa á heimsmeistaramótinu erum við í sömu stöðu og jafnvel verri. Við komum til með að vera án Romelu Lukaku, Paul Pogba og Jesse Lingard, sem allir voru frábærir á heimsmeistaramótinu. En ég ætla ekki að fara gráta það að við verðum án okkar sterkustu manna því það gefur öðrum leikmönnum færi á að stíga upp og gera tilkall til byrjunarliðssætis. Ég tel að í fjarveru fyrrnefndra leikmanna muni Marcus Rashford, Alexis Sanchez og Juan Mata koma til með að vera í fremstu víglínu. Þar fyrir aftan verður svo léttleikandi en þrældugleg miðja með Ander Herrera, Andreas Pereira sem var stjarna undirbúningstímabilsins og svo nýliðinn okkar og nafni lukkudýrsins okkar, Fred the real Red.
Hafandi horft á nokkra leiki úr Bandaríkjatúrnum verð ég að viðurkenna að ég er spenntur fyrir því að sjá hvernig Fred og Pereira koma til með að ná saman í fjarveru fastamanna eins og Matic og Pogba. Mögulega þurfum við ekki að reiða okkur alltaf á Plan B (lesist Marouane Fellaini) á þessu tímabili heldur verði hægt að hvíla lykilleikmenn og gefa Pereira dýrmætan leiktíma sem honum gafst ekki á síðustu leiktíð þar sem hann var á láni.
Vörnin verður svo aftur stórt spurningarmerki. Bæði Eric Bailly og Matteo Darmian þurftu að fara útaf vegna meiðsla í vináttuleiknum gegn Bayern München fyrr í vikunni. Þar fyrir utan þá er Matteo Darmian líklega andlega fjarverandi þó hann sé ennþá í hópnum enda virðist flest benda til þess að hann fari frá Manchester.
Einnig Antonio Valencia er meiddur og sömuleiðis Diogo Dalot og því er Timothy Fosu-Mensah í mínum augum augljósasti valkosturinn hægri bakvarðarstöðuna. Það er ekki eins óljóst hver spilar vinstra megin en líklega tekur Luke Shaw þá stöðu. De Gea ætti að öllu óbreyttu að byrja milli stanganna með þá Chris Smalling og Eric Bailly fyrir framan sig ef við gefum okkur að meiðsli þess síðarnefnda hafi ekki verið eins alvarleg og við var búist í fyrstu.
Mikið hefur verið rætt um José Mourinho á síðustu vikum, þá aðallega um ummæli hans varðandi liðið sitt og almennt neikvætt viðhorf hans gagnvart öllu og öllum á undirbúningstímabilinu. Það kann að vera bara ryk í augun á fjölmiðlum og vilja sumir meina að Mourinho sé að pressa á Glazer-fjölskylduna með þessu. Það er sárt fyrir hvern þann United stuðningsmann og -konu að horfa upp á liðin í kringum okkur eyða formúu í leikmenn á meðan sumarglugginn okkar virðist ansi fúinn. Flest önnur lið af topp6 virðast vera búin að styrkja sig heilmikið á meðan við bíðum eftir því að glugginn loki með engisprettuhljóðin í eyrunum.
Þó er hópurinn okkar orðinn nokkuð sterkari (eins og við fórum yfir í upphituninni fyrir leiktíðina) en hann var í fyrra þegar liðið náði öðru sætinu en ég held ég tali fyrir hönd margra stuðningsmanna þegar ég segi að við þurfum miðvörð og hægri kantmann til þess að eiga raunverulegan möguleika á að keppa um titilinn. Leikurinn á morgun verður þó áhugaverður þar sem kemur í ljós hvort Mourinho sé í raun og veru að fara yfir um, en vonandi fáum við smjörþefinn af því sem koma skal á þessari leiktíð, jafnvel í fjarveru manna eins og Pogba og Lukaku. Það væri óskandi að sama leikgleði og einkenndi byrjun síðustu leiktíðar náist en það verður bara að koma í ljós eins og allt annað. Ef við ætlum okkur stóra hluti á þessari leiktíð þá er þetta leikurinn til þess að setja upp viðmiðin. Undirbúningstímabilinu er lokið og alvaran tekin við.
Ernir says
Búið að lána Fosu-Mensah til Fulham.
Þórður says
Erum við ekki með 12 miðverði og einn bakvörð? samt er alltaf talað um að það vanti miðverði. hann keypti tvo í fyrra. Shaw er bakvörður, hefur ekki heillað eftir meiðsli, Dalot er framtíðarkaup og svo eru þetta kantmenn að spila bakverði… samt vantar alltaf miðverði?