Þetta er byrjað! Loks getum við gleymt öllu ruglinu, hvort sem það er fáránlegt undirbúningstímabil eða aðgerðarleysi á meðan félagsskiptaglugginn stóð opinn. Það er liðin tíð sem verður ekki breytt, en nú er fótboltinn farinn af stað, loksins. Ekki er verra að stigin þrjú fylgdu með fyrsta leik þó frammistaðan hafi varla verið sígild, byrjunarliðið var eftirfarandi:
Bekkur: Lee Grant, Chris Smalling, Scott McTominay, Romelu Lukaku, Ashley Young, Anthony Martial og Marouane Fellaini.
Leicester : Schmeichel, Amartey, Morgan, Maguire, Chilwell, Ndidi, Silva, Ricardo, Gray, Maddisson og Iheanacho.
Bekkur : Ward, Evans, Fuchs, Vardy, Albrighton, Iborra og Ghezzal.
Leikurinn
Eftir leiðindin og ruglið sem hefur verið viðloðandi Manchester United í allt sumar var það sennilega draumur allra stuðningsmanna félagsins að byrja tímabilið vel. Slæm úrslit í kvöld hefðu sett krísu af stað á algjörum mettíma en okkar menn voru vel á nótunum. Alexis Sánchez nældi í vítaspyrnu strax á annarri mínútu þegar sending hans hrökk af hönd Daniel Amartey. Sílemaðurinn átt þá stutt spjall við Paul Pogba og bað um að fá að taka vítaspyrnuna. Frakkinn hafði lítinn áhuga á því, enda með fyrirliðabandið og nýkrýndur heimsmeistari! Pogba steig á punktinn, tók eitthvað allra fáránlegasta tilhlaup sem sést hefur en klessti boltann svo upp í hornið hægra megin, 1:0 og geggjuð byrjun.
Okkar mönnum tókst ekki alveg að láta kné fylgja kviði. Gestirnir frá Leicester, án Jamie Vardy framan af leik en með Harry Maguire í fullu fjöri í vörninni, voru sprækari í fyrri hálfleik og sáu mun meira af boltanum. Eftir tæpan hálftíma var ljóst að David de Gea er ekki lengur með spænska landsliðinu. James Maddison átti þá fast skot af ekki meira en tíu metrum sem Spánverjinn þurfti að skutla sér á eftir með annarri, frábær varsla.
United vann sig svo vel inn í síðari hálfleikinn, stýrði leiknum og var heldur líklegra til að finna annað mark. Paul Pogba var frábær á miðjunni og smellpassaði í fyrirliðabandið. David de Gea þurfti þó að taka aftur á honum stóra sínum, stundarfjórðungi fyrir leikslok, þegar Demarai Gray átti fast viðstöðulaust skot að marki eftir að Luke Shaw sofnaði á verðinum og leyfði Jamie Vardy að hirða af sér boltann. Shaw átti ágætis kvöld þrátt fyrir þessi einu mistök og kvöldið átti heldur betur eftir að skána.
Á 83. mínútu fékk Shaw boltann í hlaupi inn í vítateiginn frá Juan Mata. Hann ætlaði að taka á móti boltanum og taka hann með sér á ferðina; fyrsta snertingin var þó hæpin og hann vippaði boltanum huggulega yfir einn varnarmann áður en hann stýrði honum laglega í fjærhornið, framhjá varnarlausum Kasper Schmeichel í marki gestanna. Ótrúlegt mark og það fyrsta sem Shaw skorar á ferlinum. Vardy átti eftir að skora með skalla í uppbótartíma en það kom ekki að sök, United hirti þrjá punkta í fyrsta leik tímabilsins.
Umræðupunktar eftir leik
Luke Shaw hefur skorað fótboltamark, það allra fyrsta á ferlinum. Og þvílíkt mark! Ég hef ekki farið í neinn feluleik með skoðun mína á Shaw, hann hefur of oft ekki svarað kallinu þegar hann fær sénsinn og þó eitt gott kvöld geri hann ekki skyndilega að þeim leikmanni sem við vonuðumst eftir á hann hrós skilið fyrir dagsverkið. Vonandi, vonandi, vonandi er þetta helvítis skiptið þar sem hann grípur loks gæsina og heldur áfram að spila vel.
Alexis Sánchez heldur áfram að vera týndur. Hefur hann átt virkilega góðan leik fyrir Man. United? ég man ekki eftir því. Hann var mikið í boltanum og gekk oft illa að skila honum vel frá sér, það vantar ekki að hann reyni en þetta gengur nær aldrei upp hjá honum. Ég, eins og flestir, vonaðist innilega til að undirbúningstímabil myndi gera honum gagn og ég er hlynntur því að dæma hann ekki út frá síðasta tímabili. Það er allavega ljóst að hann verður að stíga upp í vetur.
Fred er dálítið villtur, kannski full hvatvís en það er líka smá púki í honum, það er hið besta mál. Hann á auðvitað eftir að venjast enska boltanum og lét í kvöld nokkrum sinnum hirða tuðruna af sér á einhverju gaufi. Þá var hann heldur betur ákafur og hefði getað bakað sér vandræði en hann lætur heldur ekki vaða yfir sig. Lenti aðeins upp á kant við hinn hárfagra James Maddison (enginn með því nafni er annað en fífl) og gaf ekkert eftir.
Andrea Peireira sat djúpur á miðjunni í kvöld og var sem herforingi. Margir hafa beðið þess í ofvæni að sjá Brasilíumanninn loks fá tækifærið og hann var öflugur í kvöld, engin spurning. Var mikið í boltanum, skilaði honum ótrúlega vel frá sér og flækti hlutina ekki um of. Minnti kannski helst á Michael nokkurn Carrick, vonandi sjáum við meira af þessu. Þetta var aðeins í þriðja sinn sem hann spilar 90 mínútur fyrir liðið.
Að lokum verðum við að hafa í huga að þetta var fyrsti leikur. Annar hver leikmaður fékk ekkert eða slitrótt undirbúningstímabil eftir heimsmeistaramótið í Rússlandi og spilamennska beggja liða bar það alveg með sér. Í svona leik skipta stigin hreinlega öllu máli, nú er alvaran tekin við og keppt er um punkta. Frammistaðan var stirð og minnti reyndar á tíðum um of á þessa leiðinlegri leiki á heimavelli í fyrra en þó er líka tilefni til bjartsýni. Næst er það heimsókn til Brighton á sunnudaginn eftir rúma viku.
Thorleifur Gestsson says
Líst vel á þetta
SHS says
Það er alveg pínlegt að horfa á Darmian þarna, stígur vonandi upp þegar líður á
Bjarni says
Nú er að duga eða drepast og skerpa á sóknarleiknum ef það er hægt. Að vera yfir er eini ljósi punkturinn. Menn að klappa boltanum allt of mikið og sóknir fjara út snemma.
Rúnar P says
Er ekki kominn tími á að feita Sílebúanum verði skipt út af?
Ingvar says
Er einhver með tölfræðina hjá Alexis í þessum leik, fannst hann annaðhvort tapa boltanum eða ekki komið honum á samherja allan leikinn.
Snorkur says
Góður sigur.. ekkert spes spilamennska samt. En nokkuð margar afsakanir sem við höfum fyrir því eins og er.
Var ekki frá því að það mótaði fyrir ástríðufullum Móra:)
DMS says
Gott ef Móri sýndi ekki smá innlifun og ástríðu þegar Shaw skoraði. Shaw var flottur í þessum leik.
Fyrir mitt leyti þá hefði ég alveg viljað sjá hinn höfuðstóra Macquire mynda svakalegt kjötað miðvarðapar með Eric Bailly. En vonandi bara að Bailly og Lindelöf nái saman í vetur.
Ef Pogba fær að spila með Pereira, Matic/Fred með sér á miðjunni þá ætti að losna meira um hann fram á við. Það er jákvætt. Pereira hefur mér fundist frábær í æfingaleikjunum og hann átti flottan leik í kvöld. Tek undir að Fred er pínu villtur en gleymum því ekki hvaðan hann er og úr hvaða liði hann er að koma. Það mun sennilega taka smá tíma fyrir hann að venjast enska boltanum en hann lofar góðu.
Jákvæðir punktar frá leiknum en líka leiðinlega mikið af negatífum bolta á köflum sem við þekkjum frá fyrri tíð. Fannst við detta alltof aftarlega eftir markið, en fórum líka illa með dauðafæri í síðari hálfleik. Þrír punktar í fyrsta leik og allir komust heilir í gegnum leikinn þrátt fyrir að einhverjir séu ekki í leikæfingu.
Karl Garðars says
Iðnaðarsigur og gríðarlega mikilvæg 3 stig. Leicester eiga örugglega eftir að hirða stig af topp 6 liðunum.
Okkar menn voru talsvert ryðgaðir og það fór aðeins um mann þegar McTominay og Fellaini voru komnir inn á og Vardy skoraði. Maður skilur mikilvægi þess að drepa leikina en það er örlítið hættulegt að mínu mati að setja þá báða inn á til þess, jafnvel þó það þurfi að dreifa álaginu.
Alexis og Mata virðast vera að ná vel saman en það pirrar mig aðeins hvað Alexis virðist ekki hitta nógu vel inn á Rashford/Lukaku og öfugt.
Miðjan okkar var fín ásamt vörninni.
Lukaku hefði þó mátt setja þennan sitter en hvað um það. 3 fín stig og góð byrjun á tímabilinu.
Rúnar P says
Sanchez klúðraði 95% af sínum sendingum, Peireira leik af því líkri yfirvegun og Fred var hreint út sagt frábær í þessum leik, vona að þetta haldi áfram.
Laddi says
Pereira, Shaw, Bailly (fyrir utan markið) og Lindelöf voru fínir.
Rashford, Mata og Fred voru í lagi, Fred lofar þó góðu.
de Gea var flottur, fyrir utan markið sem mér fannst hann eiga að stórum hluta.
Darmian og Sanchez áberandi slakastir, Sanchez arfaslakur og þyrfti að fara á bekkinn eftir þessa frammistöðu.
Pogba var MoM, þvílík gæði sem hann hefur og færir liðinu!
3 stig á móti góðu Leicester liði en döpur spilamennska. Kannski það góða að spilamennskan getur bara batnað þegar allir leikmenn eru heilir/í formi.
Herbert says
Okey ánægður með sigurinn en að Sanchez hafi átt svona lélegan leik er nú frekar ýkt. Sprengdi nokkrum sinnum upp leikinn í skyndisóknum sem klúðruðust svo vegna slæmra ákvarðanna annara leikmanna. Mata var mjög flottur og ég elska þegar Shaw tekur þessi hlaup inn á teiginn. Stóð sig líka vel varnarlega. Darmian er ekki einu sinni með gæði til að spila í ensku úrvalsdeildinni. Var skelfilegur frá upphafi til enda. Rashford var langt frá sínu besta og verður að fara að stíga upp eftir dapurt tímabil í fyrra. En svona sá ég leikinn allavega…. Áfram United!
Helgi P says
sem betur fer var mótherjinn ekki betri en þetta ekki góð framistaða
gummi says
Djöfull getur Móri vælt það er eins og hann sé að reyna láta reka sig
Auðunn says
Fín úrslit en afskaplega lélegur leikur að hálfu United.
Var United 30% með boltann í fyrrihalfleik?
Varla hægt að bjóða manni upp á þennan rusl fótbolta á heimavelli gegn ekki sterkara liði en þetta.
United lítur ílla út, eru óþéttir og óskipulagðir.
Auðvitað gott að fá 3 stig, annað hefði verið skandall en liðið er ekki að fara að vinna neitt með svona spilamennsku. Það er á hreinu.
Jón says
meðað við hvernig Liverpool lítur út held ég að það verði erfit að stopa þá í vetur
gummi says
Liverpool er bara sýna það hvernig á að spila fótbolta
Helgi P says
við ættum líka getað spilað svona sóknarbolta en Móri treystir bara ekki leikmönunum sínum til þess sem er fáránlegt því við erum með mikið betri sóknarmenn en varnarmenn
Karl Garðars says
Eru kopítar að missa sig í trollinu hérna?
Höfum eitt á hreinu. Þó það gangi aðeins hjá aumingjans púðlunum þessa stundina þá eru nærri 30 ár síðan þeir gátu eitthvað að ráði. Eigum við ekki að sjá hvort þeir geri eitthvað að gagni í þetta skiptið áður en þið tapið ykkur alveg.
Ragnar says
Karl Garðars:
Talandi um troll ? hvað ert þú vinurinn það koma líka United menn yfir á Kopið og það þýðir ekki að vera pirraður yfir því að við erum líklegri en þínir menn þetta árið farðu ekki að grenja.
gummi says
Karl Garðars ég er búinn að stiðja United yfir 30 ár ég horfi bara raunsært á þetta þá er Klopp að gera mikið betri hluti hjá Liverpool en Móri er að gera hjá United
Cantona no 7 says
Góður sigur í fyrsta leik.
ath gummi að herr KFlopp hefur ekkert unnið fyrir Liverhampton og mun ekki gera.
Það eru margir leikir eftir og verður spennandi að sjá okkar menn í vetur.
G G M U
Magnús Þór says
Liverpool að slá öll met. Búnir að vinna deildina eftir 1 leik.
@Ragnar: Það er alveg óþarfi að vera með dónaskap. Þú ert velkominn til að kommenta hérna ef þú finnur þig knúinn til þess en það er lágmark að sýna kurteisi. NB: Þó að einhver United kjáni „trolli“ hina ágætu Kop síðu þá er samt alveg óþarfi að vera einnig kjáni.
Sindri says
Ragnar þarf ekki að passa sig í ágúst. West Ham tapaði líka opnunarleiknum 4-0 í fyrra… fyrir „ömurlegu“ sóknarliði.
Ekki sniðugt að vera með of miklar yfirlýsingar, til að mynda eins og í apríl þegar Liverpool var orðið Evrópumeistari og búnir að tryggja annað sætið í deild.
Ragnar says
Fór framúr sjálfum mér við að fara niðrá hans plan ætlaði mér ekki að vera með dónaskap í garð annara né þessa góðu síðu biðst afsökunar á þessu.
Karl Garðars says
@Ragnar á plani
Spurningin um púllarana var meint sem góðlátlegt gant. Eflaust hafa staðreyndirnar sem á eftir fylgdu farið fyrir brjóstið á litlum sálum.
Staðan er óbreytt þó að liverpool hafi unnið einn leik.
Síðast en ekki síst, mér gæti alls ekki verið meira sama um það þótt einhverjir ágústmeistarar séu að gapa á internetinu hvort sem það er hér eða þar. Það er ennþá nákvæmlega ekkert að frétta í dolluskápnum í Merseyside.
gummi says
Það er orðið nokkuð ljóst að Pogba vilji fara því hann nennir ekki að spila fyrir Móra lengur þannig að við verðum frekar að láta Móra fara en að missa Pogba
Jón says
enda skilur maður Pogba vel að vilja fara á meðn Móri er þarna
Helgi P says
Það er bara allt að verða vitlaust á milli Móra og Pogba
Keane says
Leiðinda ástand virðist vera. Eru þetta staðfest leiðindi?
Vilberg says
Það eru alltaf staðfest leiðindi með móra.
Keane says
😄 já því miður er þetta eins og sirkus allt saman. Þessir menn ættu bara að sinna sinni vinnu, jafnvel að reyna að spila af sannfæringu í 90+