Þú last ekki vitlaust. Heimsókn til Eddie Howe og sveina hans í Bournemouth í hádeginu á morgun í 11. umferð úrvalsdeildarinnar er tækifæri fyrir Manchester United til að jafna Bournemouth að stigum í 6. sætinu. Það er að vísu ólíklegt að okkar menn hirði sætið af gestgjöfunum á morgun, Bournemouth hefur betri markatölu sem nemur sjö mörkum!
United hafði betur gegn Everton um síðustu helgi, 2:1, þökk sé vítaspyrnumarki Paul Pogba og glæstri afgreiðslu Anthony Martial. Rauðklæddir urðu að sjálfsögðu að gera sér erfitt fyrir í leik sem virtist nokkuð þægilegur; Chris Smalling gaf vítaspyrnu í síðari hálfleik sem enginn annar en Gylfi Þór Sigurðsson afgreiddi af sinni alkunnri snilld en nær komust gestirnir frá Bítlaborginni ekki.
Við fáum því möguleikann á morgun á því að vinna tvo leiki í röð í annað sinn á tímabilinu en til þess þarf að komast í gegnum sprækt lið Bournemouth sem enn kemur á óvart í úrvalsdeildinni. Eddie Howe heldur áfram að gera stórgóða hluti; Bournemouth er í 6. sæti deildarinnar í nóvember mánuði og hefur unnið síðustu þrjá deildarleiki sína. Góðu fréttirnar eru kannski þær að síðasta liðið til að mæta á Vitality leikvanginn og sækja sigur var einmitt United í apríl síðastliðnum. Sá leikur fór 2:0, þökk sé mörkum Smalling og Romelu Lukaku sitt hvorum megin við hálfleikinn.
Alexis Sanchez og Jesse Lingard voru báðir á varamannabekknum gegn Everton enda að ná sér eftir smávægileg meiðsli. Þær ættu því að vera nær góðri heilsu á morgun. Fyrirliðinn, Antonio Valencia, er auðvitað áfram fjarri góðu gamni ásamt þeim Marouane Fellaini og Diogo Dalot. Þá er Phil Jones einnig frá en hann hefur ekki spilað síðan í september.
Fyrirliði Bournemouth, Simon Francis, varð fyrir hnjaski í sigri Bournemouth á Norwich í deildabikarnum í miðri viku og fyrrverandi United maðurinn, Joshua King, verður ekki með en Norðmaðurinn er meiddur á ökkla.
Það verður áhugavert að sjá byrjunarliðið. Lukaku byrjaði á bekknum gegn Everton enda hefur honum lítið gengi að skora á meðan Martial hefur verið aðalmaður liðsins í síðustu leikjum. José Mourinho hefur þó eflaust hugann við ferðalagið til Ítalíu eftir helgi er United mætir Juventus í síðari leik liðanna í Meistaradeildinni. Byrjunarliðið gæti þó litið svona út:
Skildu eftir svar