Þá heldur Manchester United suður með sjó til Brighton og hittir þar fyrir topplið Mávanna í annarri umferð deilarinnar á þessu tímabili. Brighton sitja á toppi deildarinnar eftir 0-3 útisigur gegn Everton en United situr því sjöunda eftir 1-0 heimasigur gegn Fulham. Bæði lið eru því með fullt hús stiga, heil þrjú stig en tímabilið auðvitað nýfarið af stað.
Síðustu viðureignir þessara liða hafa 2 marka sigrar, United vann 0-2 á þessum heimavelli í fyrra en Brighton gerði sér lítið fyrir og vann United 1-3 á Old Trafford. Það er aldrei að vita hvernig leikir þessara liða fara en eitt er víst að þrjú stig væru kærkomið nesti inn í erkifjendaslaginn um næstu helgi gegn Liverpool áður en liðin halda inn í landsleikjahlé.
Brighton and Hove Albion
Brighton voru undir stjórn Roberto De Zerbi á síðustu leiktíð en eftir að liðið hafnaði í 11. sæti eftir miðjumoðsbaráttu við Fulham, Bournemouth, Crystal Palace og Wolves lét klúbburinn Ítalann taka pokann sinn flestum að óvörum. De Zerbi hafði verið orðaður við nokkur stórlið, þar á meðal United og Chelsea en í hans stað réðu þeir Fabian Hürzeler, 31 árs gamlan Þjóðverja en fyrir okkur sem ekkert vitum um hann þá þjálfaði hann FC Pipinsried í utandeildinni í Þýskalandi á tímabilinu 16/17 og svo aftur 19/20. Eftir það færði hann sig yfir til FC St. Pauli og tók þá upp úr annarri deild upp í þýsku Bundesliguna eftir tvö tímabil við stjórnvölinn. Þá sagði stjórnarformaður Brighton, Tony Bloom : „Þetta er minn maður!“ og fékk þennan unga mann til að taka við Mávunum fyrir komandi tímabil.
Tony Bloom hefur reyndar verið lunkinn við kaup á leikmönnum til Brighton og hreint út sagt með ólíkindum hversu vel hefur tekist til undanfarin ár. Helst ber að nefna kaup hans á Moises Caicedo á undir 5 millj. pund sem fór á síðasta ári til Chelsea fyrir yfir 100 milljónir punda. Þá skiluðu sölurnar á Yves Bissouma, Marc Cucurella, Leandro Trossard og Alexis Mac Allister inn um 120 millj. punda hagnaði. Tony Bloom er að spila Monopoly á meðan við hin erum að spila lúdó.
En eitthvað virðist hafa breyst hjá Mávunum í suðrinu því á síðasta ári settu þeir met þegar þeir keyptu Joao Pedro á rétt undir 30 millj. punda en í ár hafa þeir keypt fjóra af fimm dýrustu leikmönnunum sínum. Hinn franski Georginio Rutter var keyptur frá Leeds á 39 millj., gambíska táningsundrið Yankuba Minteh kom frá Newcastle á tæpar 30 millj., hollenski varnarmiðjujaxlinn Mats Wieffer kostaði þá um 26 millj. og að lokum fengu þeir einn þýskan að nafni Brajan Gruda frá Mainz á sama prís og Hollendinginn.
Minteh og Wieffer voru þeir einu sem spiluðu gegn Everton en sá fyrrnefndi þurfti að hætta í hálfleik vegna meiðsla. Aðrir á meiðslalista Mávanna eru Gruda, Verbruggen, Estupinian, Lamptey, Enciso, March og Ferguson. Þetta er í fyrsta sinn í langan tíma þar sem meiðslalisti mótherjanna er lengri en okkar eigin listi. Þrátt fyrir þau spilaði liðið samt glimrandi vel undir stjórn Hürzeler og í ljósi þess tel ég að Þjóðverjinn geri ekkert nema nauðsynlegar breytingar á byrjunarliðinu, þ.e. að Adingra komi inn fyrir meiddan Minteh. Liðið verður því líklega:
Manchester United
„Hated, adored and never ignored“. Það er búið að vera lýsandi fyrir sumarið hjá United. Leikmannaglugginn fór vel af stað hjá okkar mönnum með kaupunum á Leny Yoro og Joshua Zirkzee en svo virtist sem stjórn liðsins hefði dottið í Ólymíuleikahámhorf og vaknað af værum blundi nokkrum vikum síðar því ekkert gerðist lengi vel eftir það. Jú, liðið losaði nokkra leikmenn á borð við Mason Greenwood, Willy Kambwala og samdi aftur við Johnny Evans og svo runnu nokkrir samningar út en núna rétt fyrir síðustu umferð kláraði liðið kaup á Matthjis de Ligt og Noussair Mazraoui sem báðir komu við sögu í leiknum gegn Fulham. En enn er United ekki búið að fá inn neina uppfærslu inn á miðjuna sem var ekki síður mikilvægt en liðið er sterklega orðað við Manuel Ugarte frá PSG.
Það sást á köflum í leiknum gegn Fulham að sömu vandamál virðast blasa við okkur og voru til staðar á síðustu leiktíð. Bilið milli varnar og miðju skapar verulega mikið pláss fyrir mótherjana til að spila í gegnum okkur og þrátt fyrir að Casemiro og Mainoo hafi verið mjög öflugir í fyrsta leiknum eru enn blikur á lofti ef ekki verður stoppað upp í þetta gat. Hins vegar tókst liðinu að breyta einum mikilvægum hlut frá síðustu leiktíð en Fulham átti einungis 10 skot og þarf af einungis tvö sem rötuðu á markið. Það er nær þrefalt færri skot en liðið var að fá á sig á síðustu leitkíð.
Fyrir tölfræðinördana þarna úti þá var United með 2,43 í xG á meðan þeir svarthvítu voru með 0,44. Þess má líka geta að markið kom úr færi sem einungis var 0,07 xG og því var nógu mörg tækifæri til liðið til að gera út um leikinn. Þannig var til að mynda færið sem Garnacho fékk undir lok leiks 0,64 xG en þeim stutta brást heldur betur bogalistin þar.
United skapaði fjögur stór tækifæri á meðan gestirnir sköpuðu ekkert. En tölfræðin skilar ekki endilega stigum en gefur kannski ágætismynd á að leikurinn hefði auðveldlega geta farið 3-0 eða 4-0. Því tel ég ekki mjög líklegt að Erik ten Hag geri miklar breytingar á liðinu. Því spái ég liðinu svona:
Væntanlega mun ten Hag gera breytingar á miðvarðarparinu á endanum en eins og við sáum þegar Casemiro kom til liðsins fyrir 2 árum síðan þá var hann lengi að komast að inn í byrjunarliðinu. Því býst ég við að de Ligt og Zirkzee byrji á bekknum en ef einhver missir úr væri það líklega Amad Diallo og Garnacho sem kæmi inn fyrir hann. Sóknarpressan virkaði vel hjá United í síðasta leik en liðið vann boltan 10x á sóknarþriðjungnum og ekkert lið í deildinni gerði betur en það. Mount virðist henta vel í þannig áhlaup og mögulega sjáum við bara sóknarmann detta inn á þegar sjöan okkar er búinn að pressa úr sér lungu og lifur.
Dómari leiksins er Craig nokkur Pawson en leikurinn hefst kl hálf 12 á morgun á American Express vellinum.
Skildu eftir svar