Erik ten Hag ákvað að henda Rashford á bekkinn og byrja með Garnacho, Zirkzee og Amad sem framlínuna í dag. Eins fékk Eriksen óvænt sæti í byrjunarliðinu eftir frábæra frammistöðu í miðri viku rétt eins og flestir sem byrjuðu í deildarbikarnum fyrir United.
Fyrri hálfleikur
Fljótlega fengu gestirnir í United hornspyrnu sem rataði á kollinn á de Ligt en skallinn beint á Henderson í markinu og aldrei líklegt til mikilla ónota fyrir hann. Að öðru leyti voruy fyrstu níu mínúturnar rólegar og liðin bæði að reyna að fóta sig þar til Zirkzee var eitthvað að dúlla sér á miðjunni með boltann og stakk honum inn fyrir vörnina í hlaupaleið fyrir Garnacho sem komst inn í teiginn og í skotfæri. Hann lét vaða á markið en var búinn að opna líkamann og Henderson las hann eins og opna bók og var kominn í fjærhornið og blakaði boltanum í horn.
United komust í álitlega sókn stuttu síðar og voru í raun að sleppa þrír gegn tveimur en hlaupaleiðir Zirkzee og Garnacho skárust og boltinn hrökk af hælnum af Argentínumanninum og eftir pínulítið mennskt dómínó komst heimamönnum að koma boltanum burt en gestirnir fengu horn.
Úr því fékk de Ligt frábært færi en Henderson varði vel í horn. Aftur kom upplagt færi úr föstu leikatriði þegar boltinn datt fyrir fætur Martinez af mjög stuttu færi en hann þurfti að snúa upp á líkamann og skot hans endaði við fætur markvarðarins.
Heimamenn gátu þakkað manninum í búrinu sínu að vera ekki lentir undir en pressan frá United var mikil og þung á köflum. Þó virtust taugarnar vera þandar á báða bóga og hvorugu liðinu tókst að ná góðum tökum á leiknum til að byrja með. United var þó mun meira með boltann en gekk illa að þræða boltann í gegnum vel skipulagt lið heimamanna.
Ekki var mikið að frétta næstu tímu mínúturnar en loksins þegar Dalot skar í sundur vörn Palace með sendingu bakvið vörnina, komst Garnacho í upplagt skotfæri. Hann opnaði líkamann aftur en að þessu sinni skaut hann yfir Henderson en boltinn small í þverslánni og endaði út í vítateignum hinu megin þar sem næsta skot kom frá Bruno. Það fór reyndar í jörðina og skoppaði í átt að markinu en small einnig í þverslánni.
Aftur virtist pressan aukast á heimamenn, Zirkzee átti gott skallafæri eftir hornspyrnu en boltinn rétt framhjá stönginni. United voru duglegir að pressa á vallarhelmingi Palace og unnu marga bolta þar. United var um 70% með boltann þessar fyrstu 40 mínútur og tókst heimamönnum ekki að ná snertingu innan vítateigs United.
Henderson, óneitanlega maður fyrri hálfleiksins, hélt áfram uppteknun hætti þegar hann blakaði boltanum í enn eitt hornið eftir frábært færi sem kom upp úr fyrirgjöf frá Bruno á hægri vængnum. Boltinn sveif inn í markmannsteiginn þar sem varnarmaður náði tá á boltann sem gerði það að verkum að hvorki Garnacho né Zirkzee náðu að snerta boltann.
En heimamenn minntu á sig þegar markamínútan var nýliðin. Eze bar boltann upp völlinn og fann Mitchell sem komst inn í teiginn og renndi honum út á fyrrnefndan Eze sem átti slakt skot beint á Onana. Einhver meðbyr virtist fylgja þessu færi og tók völlurinn við sér en sem betur fer flautaði dómarinn til leikhlés áður en meðbyrinn þeirra varð að mótblæstri okkar.
Tölfræði úr fyrri hálfleik. United var 67% með boltann, átti 9 skot og þar af 4 á rammann og tvö í hann. Á sama tíma var Palace með 2 skot og einungis annað þeirra á markið.
Síðari hálfleikur
Erik ten Hag gerði engar breytingar í hálfleik en kollegi hans, Glasner gerði hins vegar tvær breytingar. Útaf fóru þeor Adam Wharton og Mateta en í stað þeirra komu þeir Ismaila Sarr og Jefferson Lerma.
United fékk gott færi eftir að Mainoo opnaði miðjuna og smá þríhyrningsspil milli Bruno og Zirkzee sem endaði með því að Portúgalinn tók skot í vítateigsboganum, utanfótar en boltinn sveif öfugu megin við stöngina.
Annars var fyrsta korterið tíðindalítið en eftir klukkustundarleik mætti Rashford af bekknum í stað Zirkzee sem var búinn að vera duglegur að láta finna fyrir sér í dag.
United pressaði hraustlega á heimamenn og átti Garnacho hörku skot af vinstri vængnum en Henderson aftur vandanum vaxinn í markinu og bjargaði í horn. Stuttu síðar var Martinez í sviðsljósinu þegar hann tók áhugaverða tveggjafóta hopptæklingu á boltann og uppskar réttilega gult spjald.
Heimamenn voru samt ekki að fara krumpast undir álaginu og Eddie Nketiah átti bylmingsskot frá vítateigslínunni sem Onana varði hetjulega en frákastið datt fyrir fætur Munoz sem hefði með réttu átt að taka forystuna fyrir Palace en Onana var snöggur upp og lokaði á seinna skotið. Hreint út sagt mögnuð tvöföld markvarsla.
Dampurinn virtist aðeins detta niður úr þessu eftir þetta og tilvalinn tími fyrir breytingar til að hrista upp í hlutunum en hvorugur stjórinn virtist vera með hugann við slíkt. En um leið og menn slökkva á sér er hætta á mistökum og United voru heppnir að sleppa með skrekkinn á 73. mínútu þegar Nketiah renndi boltanum út í teiginn fyrir Eze sem átti skot rétt framhjá markinu.
En Ten Hag hefur fengið hugskeytið því rétt í því gerði hann tvöfalda breytingu, Eriksen og Amad Diallo út fyrir Ugarte og Hojlund. Sem var gott því liðin virtust vera búin að sætta sig við stigið þegar tíu mínútur voru eftir en Ugarte skipaði mönnum að lyfta liðinu ofar og þjarma að heimamönnum síðustu mínúturnar.
Heimamönnum tókst reyndar að komast í hættulegt færi í uppbótartíma þegar Ismaila Sarr fékk boltann frá Schlupp sem var nýkominn inn á. Onana tókst hins vegar að bjarga í horn þegar innan við tvær mínútur voru eftir af uppgefnum uppbótartíma. En hvorugu liðinu tókst að skora í þessum leik og er það einna helst markvörðum beggja liða að þakka.
United situr þá í 11. sæti með 7 stig eftir fyrstu fimm umferðirnar. Spilamennskan góð á köflum, varnarleikurinn svo gott sem skotheldur en ennþá vantar að reka smiðshöggið. Stigin töpuðust í fyrri hálfleik þegar United mistókst að nýta sér yfirburðina og því fór sem fór. Heimamenn hefðu líka með smá heppni eða minni athygli Onana í markinu geta gengið af velli með öll þrjú stigin.
Næst er heimaleikur gegn Twente í Evrópudeildinni.
Helgi P says
Þetta virðist ætla vera svipað season og í fyrra
Ómar says
Bjartsýnismaður