Eftir tíðindalítinn glugga brast á með innstreymi í gær. Fjórir nýir leikmenn voru kynntir til sögunnar og í landsleikjahléinu munum við kynna þá til leiks einn af öðrum.
Að Alex Telles ólöstuðum er stærsta nafnið af þessum fjórum auðvitað Edinson Cavani. Það þarf lítt að kynna nafnið fyrir ykkur, Cavani er búinn að vera einn af helstu framherjum í Evrópu síðustu tíu árin og ósjaldan verið orðaður við United. Það er samt ekki fyrr en nú þegar hann er á þrítugasta og fjórða aldursári að hann gengur loks til liðs við okkur.