Lið Manchester United var óbreytt, enda engin meiðsli að hrjá hópinn og eins og Ole sagði fyrir leik, þokkaleg hvíld frá síðasta leik, þó það muni nú breytast
Varamenn: Romero, Bailly, Williams, Andreas, Fred, James, Mata, McTominay, Ighalo
Leikurinn fór alls ekki fjörlega af stað, Southampton meira með boltann þó án þess að ógna mjög og það var United sem fékk fyrsta færið, Martial hirti boltann af Ward-Prowse og kom upp í teig, einn á móti markverði en lét McCarthy verja frá sér. Góð varsla en hrikalega slappt hjá Martial. Það liðu síðan varla tvær mínútur þangað til refsingin fyrir þetta kom. De Gea spilaði boltanum út á Pogba rétt utan teigs, Ings pressaði á hann og komst í boltann sem barst til Redmond sem lék inni í teiginn, gaf yfir á fjærstöng þar sem Stuart Armstrong var einn og óvaldaður, hafði nægan tíma, lagði fyrir sig boltann og hamraði í netið. Eitt-núll fyrir Southampton á 12. mínútu. Skelfilega illa að verki staðið þarna hjá United.