Það hefur verið þema undanfarið að þegar United liðið tekur eitt skref framávið með góðri frammistöðu í leik að sá árangur gengur til baka í næsta leik á eftir. Eftir góðan sigur gegn Tottenham í síðasta leik er því prófraunin meiri þegar haldið skal á Etihad á morgun.
Meistarar Manchester City hafa ekki verið mjög meistaralegir í haust og sitja í þriðja sæti, ellefu stigum á eftir meistarakandídötum Liverpool. Það hefur helst verið vörnin sem hefur veirð Akkilesarhæll City í vetur. Aymeric Laporte meiddist snemma í haust og verður frá fram yfir nýárið og skarð hans hefur ekki verið fyllt almennilega. Oleksandr Zinchenko hefur líka verið meiddur en verður hugsanlega með á morgun eftir sex vikna fjarveru. Hann kemur inn í vinstri bakvörð og það breytir því ekki að bæði Otaemendi og Stones hafa verið slakir í miðverðinum og því hefur Guardiola þurft að nota Fernandinho þar í stað annars hvors og miðjan þannig veikst.