Það er risaslagur á morgun. Eitt af þremur bestu liðum Evrópu síðustu tíu árin kemur í heimsókn. Besti leikmaður í heimi leikur á móti besta miðverði í heimi, af þeim miðvörðum sem heita Chris Smalling.
Já það er örlítið öðruvísi stemming en oft áður þegar United og Barcelona mætast. Síðustu tvö skipti var það í úrslitaleik Meistaradeildarinnar, 2009 þegar brugðið hefði getað til beggja vona, en Barcelona vann og svo 2011 þegar Barcelona sýndi mátt sinn og megin og vann auðveldlega. Þar á undan var það auðvitað Paul Scholes sem smellti United í úrslitaleikinn 2008, sællar minningar. Það er ekki hægt annað en að mæla með grein Rob Smyth um fyrri viðureignir liðanna, þar er margt konfektið!