Miðað við viðbrögð margra stuðningsmanna hefði mátt halda að United hefði í vikunni tapað 4-0 á heimavelli fyrir Sevilla. En svo var nú ekki. 0-0 var raunin og þó að útvallarmark sé gríðarlega mikilvægt þá mætum við Sevilla aftur á Old Trafford eftir tvær og hálfa viku, vissir um að sigur nægir til að halda áfram í Meistaradeildinni.
Það er auðvitað enginn að mæla því í mót að leikurinn var ekki sá skemmtilegasti sem liðið hefur leikið og það hefur vissulega verið aðalsmerki United í gegnum áratugina að spila skemmtilegan fótbolta. En það er ekki hægt að horfa á einn leik án þess að líta á heildarmyndina. Manchester United hefur líklega ekki leikið skemmtilegan fótbolta trekk í trekk í hátt í áratug. Síðustu ár Sir Alex voru byggð á sterkri vörn og síðan vannst titill 2013 út á kaupin á Robin van Persie.