Annar leikur United í Evrópudeildinni verður á morgun þegar úkraínska liðið Zorya Luhansk kemur í heimsókn. Zorya, eða Dögun, er frá Luhansk austast í Úkraínu þar sem uppreisnarmenn ráða ríkjum og eru því útlagar í dag, þurfa að spila heimaleiki sína fjarri Luhansk.
Liðið er ekki það sigursælasta í Úkraínu enda bæði Dinamo Kyiv og Shakhtar Donetsk frægari og betri. Þetta er þó þriðja árið í röð sem þeir eru í Evrópudeildinni, en í fyrsta skiptið sem liðið kemst í riðlakeppnina. Liðið er að standa sig ágætlega núna, eru í öðru sæti í deildinni eftir níu leiki, á eftir Shakhtar en undan Dinamo. Í fyrsta leiknum í Evrópudeildinni gerðu þeir 1-1 jafntefli á „heimavelli“ í Odessa. Simon Kjær jafnaði leikinn fyrir Fenerbahçe á 95. mínútu. Leikmenn Zorya eru flestir lítt þekktir og enginn umfram annan sem þarf að taka eftir. Eftir streð United í Evrópukeppnum undanfarin ár er þó fjarri því að það þýði að leikurinn á morgun verði auðunninn fyrir United.