Botnlið West Bromwich Albion heimsækir Old Trafford á morgun í 34. umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Um er að ræða algjöran skyldusigur en okkar menn ættu að mæta galvaskir til leiks eftir frábæran sigur á nágrönnunum um síðustu helgi.
Tímabil West Brom hefur, vægast sagt, verið hörmung. Liðið er langneðst í deildinni með 21 stig, 10 stigum frá öruggu sæti, og hefur ekki unnið í síðustu 15 deildarleikjum sínum (11 töp). Tony Pulis var rekinn í nóvember og arftaki hans, Alan Pardew, var svo rekinn á dögunum. Darren Moore stýrir liðinu tímabundið um þessar mundir.