Manchester United vinnur A-riðil Meistaradeildar Evrópu og er þar með öruggt um sæti í 16-liða úrslitunum en dregið verður næstkomandi mánudag, 11. desember. Þó sæti í 16-liða úrslitunum hafi harla verið í hættu fyrir þennan leik þá er ánægjulegt að enda riðlakeppnina á sigri og mikilvægt að hafa þann meðbyr fyrir risaleik næstu helgar gegn Manchester City. Fimm sigrar og eitt tap er uppskeran í riðlakeppninni í ár, sú besta síðan tímabilið 07/08 þegar við fórum alla leið.
CSKA kemur til Manchester
Þá er komið að leiknum sem enginn er að hugsa um. Eftir einn skemmtilegasta og mikilvægasta sigur United í nokkur ár um síðastliðna helgi gegn góðvinum okkar í Arsenal fóru allir strax að huga að risaleik næstu helgar þegar ekki svo góðir vinir okkar í Manchester City koma í heimsókn. Þar verður allt undir, á morgun þurfum við bara að hvíla alla og ekki tapa 7:0.
United þarf eitt stig á morgun gegn CSKA Moskvu til að tryggja fyrsta sæti riðilsins en í raun þurfum við einfaldlega að forðast sjö marka tap til að vera öruggir áfram og við munum vinna riðilinn svo lengi sem við fáum ekki á okkur fimm mörk á heimavelli. Gestirnir frá Rússlandi eru sjálfir í bullandi baráttu um að komast áfram og þurfa að sækja fleiri stig en Basel (sem heimsækir Benfica á sama tíma) til að vera öruggir um sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.
Basel 1:0 Manchester United
Við leyfðum okkur margir að dreyma að góðu tímarniru væru senn að fara rúlla aftur eftir fjögurra marka veisluna gegn Newcastle á laugardaginn var. Sá leikur reyndist vera einhverskonar yfirhylming því spilamennskan í kvöld var jafn stirð og svo oft áður á undanförnum vikum. Manchester United þurfti stig hið minnsta til að tryggja sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar en allt kom fyrir ekki. Það er þó ekkert að örvænta, United þarf að tapa 0:6 á Old Trafford í lokaleiknum gegn CSKA Moskvu til að eiga möguleika á að detta út.
Meistaradeildin á bökkum Rínar
Aldrei þessu vant fór Manchester United vel af stað eftir landsleikjahlé með 4-1 sigri gegn Newcastle á laugardaginn var og á morgun halda góðu tímarnir vonandi áfram þegar við mætum Basel í Sviss. Sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar verður tryggt á St. Jakob-Park vellinum í Basel annað kvöld svo lengi sem við töpum ekki, eða ef CSKA Moskva vinnur ekki sinn leik þá förum við áfram hvernig sem fer.
Manchester United 4:0 Crystal Palace
„Ekki hrokafullir, bara betri.“ Svo hljóðar borði nokkur sem hressir United stuðningsmenn létu prenta á sínum tíma sem svar við þeim háværu röddum að stuðningsmenn Manchester United væru upp til hópa hrokafullir leiðindapúkar. Þó við tökum ekki undir slíkar alhæfingar þá minnist undirritaður engu að síður annarra tíma þegar gamli maðurinn Ferguson sá til þess að sigrar og árangur voru nánast sjálfsagður hlutur. Það var kannski ekki ætlunin að vera hrokafullur en ég minnist þeirra tíma þegar leikir gegn Wigan/Watford/West Ham/klúbbur í neðri hlutanum að eigin vali á Old Trafford vöktu upp tilhlökkun. Þrjú stig og fjögur mörk í plús á laugardaginn, hljómar vel!