Margir horfðu á annríkan september mánuð sem ákveðið próf fyrir Manchester United sem hafði farið vel af stað og unnið alla þrjá deildarleiki sína í ágúst. Eftir óheppilegt jafntefli á útivelli gegn Stoke í fyrsta leik mánaðarins hafa lærisveinar Mourinho ekki litið til baka. Í Meistaradeildinni hafa tveir leikir unnist þægilega sem og einn í enska deildabikarnum og í úrvalsdeildinni var Wayne Rooney og félögum í Everton skellt 4:0 áður en Mourinho gerði það sem Mourinho gerir best í sterkum útivallarsigri gegn Southampton. Á morgun kemur Crystal Palace í heimsókn í lokaleik september og óhætt er að segja að með sigri þar hefur lið United svo sannarlega staðist prófið.
Stoke City 2:2 Manchester United
Eins og í fyrra þá kom hikstinn í fjórða leik og við urðum að sættast á 2:2 jafntefli gegn Stoke City á Bet 365 vellinum í dag. Jafnteflið sem slíkt eru engin hörmungar úrslit en frammistaðan var ákveðið áhyggjuefni og auðvitað situr það enn þá í mönnum hvernig tímabilið riðlaðist á þessum sama tíma í fyrra.
José Mourinho ákvað að breyta sigurformúlu fyrstu leikjanna og bauð upp á 4-3-3 í dag. Martial, Blind og Mata settust á varamannabekkinn en inn komu Rashford, Darmian og Herrera. Miðju þríeykið var því Herrera-Matic-Pogba, eitthvað sem margir stuðningsmenn hafa beðið spenntir eftir að sjá. Darmian tók ser auðvitað stöðu í vinstri bakverði á meðan Rashford spilaði frá vinstri vængnum, Mkhitaryan frá þeim hægri og Lukaku þeirra á milli.
Þrumuskúr í Stoke á morgun
Þrír leikir, þrír sigrar og níu stig, hljómar það kunnuglega? Sú var raunin eftir fyrstu þrjár umferðirnar í fyrra og bjartsýnin var töluverð. Jose Mourinho og Zlatan Ibrahimovic voru mættir á leikvang draumanna og eftir frábæra byrjun voru okkur allir vegir færir! Eða þannig, við unnum einn af næstu sjö deildarleikjum.
Eftir þrjá leiki í ár er staðan sú sama og bjartsýnin jafnvel enn meiri en sagan segir okkur að best er að fara ekki framúr sér. Við getum þó byggt enn fremur á góðri byrjun á morgun og hvergi er betri staður til þess en heimavöllur Peter Crouch og félaga í Stoke. Að sjálfsögðu er spáð mikilli úrkomu og þrumuskúr í Stoke-on-Trent í síðdeginu á morgun og því er framundan leikurinn sem allir segja að Lionel nokkur Messi ætti ekki roð í; rigningarleikur á Britannia vellinum.