Jæja, fallegt var það ekki. Newcastle stóð uppi sem sigurvegari og í rauninni hefðu þeir gert það sama hvernig úrslitin hefðu farið miðað við spilamennsku liðanna. Heimamenn voru um 60% með boltann og áttu 22 skot þó einungis fjögur þeirra hafi ratað á rammann. Á meðan tókst United einungis að eiga 8 skot og eitt þeirra rataði á rammann.
Heimamenn réðu ferðinni langmestan partinn af leiknum og áttu ekkert skilið annað en þrjú stig. Gestirnir hins vegar geta reynt að fela sig bakvið þá staðreynd að fluginu þeirra hafi verið aflýst og þeir hafi þurft að ferðast með rútu eða þá að Newcastle hafi spilað á þriðjudegi í Meistaradeildinni en United á miðvikudegi en staðreyndin er sú að það var himin og haf á milli baráttuvilja leikmanna og þegar 11 einstaklingar etja kappi við eitt heilsteypt lið þá endar það yfirleitt á einn veg sem varð raunin í kvöld.