Vissulega er ekki allt undir í leiknum gegnum Everton á sunnudaginn kemur en leiktíðin hjá United hefur verið „allt eða ekkert“ í þeim skilning að liðið hefur annað hvort tekið öll stigin eða engin stig úr leikjum sínum, leikgleðin og baráttan hefur verið til staðar eða ekki og menn hafa mætt tilbúnir til leiks eða þá bara alls ekki.
Eftir hroðalega byrjun rétti liðið úr kútnum með fjórum sigrum sem voru snögglega kældir niður þegar liðið tapaði fyrsta Evrópuleik tímabilsins. Næsti leikur liðsins var einnig í Evrópudeildinni þegar liðið tók sannfærandi sigur gegn Sheriff en ákvað svo að sleppa því að mæta í grannaslaginn gegn Manchester City. Líklega hafa leikmenn verið svo vanir að leikir þeirra væru að frestast eftir síðustu vikur og misseri að þeir hafi gert ráð fyrir að ekkert yrði af City leiknum miðað við hversu andlega fjarverandi þeir virtust þá. En besta svar við niðurlægingu er að vinna næsta leik ekki satt?