Heilir og sælir lesendur góðir. Þar sem Mánudagspælingarnar voru í fríi þessa vikuna sökum endurkomu liðsins í Meistaradeild Evrópu þá bjóðum við upp á Miðvikudagspælingar í staðinn. Pælingar vikunnar snúast að spilamennsku liðsins í byrjun tímabils og markmannsmálum liðsins, þá aðallega Sergio Romero.
Frammistaða liðsins
Frammistaða Manchester United hefur verið á milli tannana á fólki í fyrstu tveimur umferðum ensku úrvalsdeildarinnar. Spilamennskan þykir minna full mikið á leiki liðsins í fyrra sem voru ekki beint sú skemmtun sem United stuðningsmenn hafa átt að venjast undanfarin ár. Það á sér þó allt sínar skýringar, ný andlit ásamt því að menn eru ekki komnir í alveg nægilega gott leikform spilar hvað stærstan hluta. Í umræddum leikjum hafa allir nýliðarnir verið inn á einhverjum tímapunkti en það eru fimm ný andlit, það segir því sjálft að það mun taka tíma fyrir þá að slípa sig saman. Ef til vill sáum við byrjunina á því í gær en þar átti Memphis frábæran leik og hefði í raun átt að skora þrennu en hann klúðraði algjöru dauðafæri eftir frábæran undirbúning Luke Shaw og Wayne Rooney. Það verður þó að taka fram að liðið var að spila við vægast sagt vængbrotið Club Brugge lið en það á að hafa vantað 4-5 leikmenn í byrjunarlið þeirra. Nú bíður maður bara spenntur eftir næsta leik, sem er í hádeginu á laugardag gegn Newcastle.