Desember er rétt handan við hornið, með sínu gífurlega leikjaálagi fyrir ensk knattspyrnulið. Sérstaklega þau sem enn eru í deildarbikarnum og taka auk þess þátt í Evrópukeppni. Manchester United er auðvitað eitt þeirra, liðið hefur verið að spila 2 leiki í viku flestar vikur að undanförnu, nema rétt þegar landsleikjahlé hafa truflað það. Það er engin breyting á því þessa vikuna nema í þetta skiptið er það hvorki Meistaradeild Evrópu né deildarbikarinn sem á þennan þriðjudagsleik heldur úrvalsdeildin, fyrsti deildarleikur tímabilsins í miðri viku (en þó stutt í þann næsta).
Manchester United ferðast langleiðina til London og mætir á Vicarage Road völlinn í Watford. Leikurinn hefst klukkan 20:00 og dómarinn í leiknum verður Jonathan Moss frá Sunderland.
Heimamenn
Þótt Watford hafi endað í 17. sæti deildarinnar í fyrra, aðeins einu sæti frá fallsæti, þá segir það ekki mikið. Með sigri á Swansea þann 15. apríl náði liðið hinu eftirsóknarverða 40 stiga takmarki og var á þeim tímapunkti í 10. sæti deildarinnar. Þótt síðustu 6 deildarleikirnir hafi allir tapast þá var liðið aldrei nálægt því að svitna yfir fallstressi.
Í sumar skiptu þeir um stjóra og gerðu auk þess skemmtileg kaup í sumarglugganum þar sem þeir fengu m.a. inn Tom Cleverley, bakvörðinn Kiko Femenía, miðjumennina Will Hughes og Nathaniel Chalobah, sóknarmanninn Andre Gray og síðast en ekki síst hinn bráðflinka og brasilíska Richarlison. Eftir mjög góðan 2-1 heimasigur á Arsenal í 8. umferðinni var Watford komið í 4. sæti deildarinnar. Þrír tapleikir í röð fylgdu þar á eftir og liðið datt aðeins niður en hefur þó unnið síðustu 2 leiki og er núna í 8. sæti deildarinnar með 21 stig. Aðeins fimm lið í deildinni hafa skorað fleiri mörk en Watford, hins vegar hafa aðeins 4 lið í deildinni fengið fleiri mörk á sig. Sérstaka athygli vekur að Watford hefur fengið fleiri stig á útivelli en heimavelli, raunar hafa 4 af 6 sigrum liðsins komið á útivelli.
Nýi stjóri Watford, Portúgalinn Marco Silva, er einn þeirra stjóra í ensku úrvalsdeildinni sem hefur hvað mest af jákvæðu umtali í kringum sig þessa dagana. Hann er ekki nema 40 ára gamall og listinn af félagsliðunum sem hann hefur stýrt er ekki alveg sá merkilegasti (Estoril, Sporting, Olympiacos, Hull City, Watford). Engu að síður hefur hann vakið athygli fyrir sinn árangur hjá öllum þessum liðum og þykir vera efnilegur stjóri á mikilli uppleið. Everton þykir líklegur næsti áfangastaður hjá Silva og það verður fróðlegt að fylgjast með hvað hann gerir á næstu árum. Hver veit, kannski verður hann að nokkrum tímabilum liðnum búinn að sanna sig nóg til að taka við Tottenham þegar Pochettino hættir hjá liðinu til að taka við stærra félagi eins og Manchester United eða Real Madrid.
Besti leikmaður Watford á tímabilinu til þessa er hinn tvítugi Richarlison. Hann kom frá Fluminense síðasta sumar á rétt rúmlega 11 milljón pund. Miðað við það sem hann hefur verið að sýna verða það að teljast afskaplega góð kaup hjá Watford og líklegt að félagið muni græða duglega á honum þegar það selur hann áfram. Það kæmi lítið á óvart þótt félög muni hafa samband í janúar en Watford hlýtur nú að vilja halda honum allavega fram á næsta sumar.
Richarlison hefur skorað 5 mörk í deildinni og lagt upp 3 fyrir félaga sína. Hann er vel spilandi og snöggur leikmaður, getur spilað á hvorum vængnum sem er eða fyrir aftan framherja. Hann kemur úr brasilíska boltanum og er því vanur alls konar baráttu og harkalegheitum, lætur engan vaða yfir sig. Hann er líka glettilega öflugur skallamaður og er að meðaltali að vinna flest skallaeinvígi fyrir Watford. Hann getur komið með eitruð hlaup og öflugar fyrirgjafir og er sá leikmaður Watford sem þarf að hafa hvað bestar gætur á.
Fyrirliðinn Troy Deeney getur líka verið ansi erfiður og hann er kominn til baka úr þriggja leikja banni sem hann fékk fyrir að taka Joe Allen hálstaki. Chalobah, Cathcart og Kaboul eru þó enn á meiðslalistanum hjá Watford. Britos spilaði síðasta leik en er tæpur fyrir þennan. Watford vann góðan sigur á Newcastle í síðasta leik en á heimaleik gegn Tottenham um næstu helgi svo Silva gæti viljað hvíla einhverja menn í þessum leik.
Silva hefur verið duglegur að fikta til í uppstillingu liðsins, stundum spilað með 4-2-3-1, stundum 4-3-3 og svo með mismunandi útgáfur af þriggja miðvarða uppstillingum. Það verður áhugavert að sjá hvernig hann stillir liðinu upp gegn okkar mönnum. Í síðasta leik gafst það vel að nota 3-5-1-1 uppstillingu svo við gætum séð eitthvað svipað annað kvöld:
Okkar menn
Stigalega séð er Manchester United búið að eiga sína bestu fyrstu 13 leiki síðan Ferguson stýrði liðinu. Eftir jafnmarga leiki í fyrra var liðið með 20 stig en er núna með 29. Á þeim 25 tímabilum sem liðin eru af ensku úrvalsdeildinni hefur liðið 7 sinnum verið með fleiri stig á þessum tímapunkti deildar. Í fjögur af þessum 7 skiptum var United með einu stigi meira en nú.
Markaskorunarlega séð er Manchester United líka að eiga sína bestu byrjun frá því Ferguson stýrði liðinu. Eftir jafnmarga leiki í fyrra var liðið búið að skora 18 mörk, núna hefur það skorað 28 mörk. Ef þessi 25 tímabil í sögu ensku úrvalsdeildarinnar eru skoðuð þá eru aftur 7 tímabil (ekki þó sömu 7 tímabil) þar sem Manchester United skoraði fleiri mörk. Meðalfjöldi marka sem United var komið með eftir 13 leiki á síðustu 25 tímabilum er 24,7.
Varnarlega séð er Manchester United að eiga sína bestu byrjun eftir 13 leiki í það minnsta frá því enska úrvalsdeildin var stofnuð. Eftir jafnmarga leiki í fyrra var United búið að fá á sig 15 mörk, núna eru þau 6. Liðið hefur tvisvar á síðustu 25 tímabilum fengið jafnfá mörk á sig eftir 13 leiki (tímabilið 2006-07 og 2007-08). Þetta er aðeins í sjötta skiptið frá 1992 sem United er búið að fá á sig undir 10 mörk í fyrstu 13 leikjum deildarinnar.
Svo það eru sannarlega jákvæðir punktar við liðið og spilamennskuna þessa fyrstu þrjá mánuði tímabilsins. Mourinho er augljóslega á réttri leið með liðið og allar hliðar liðsins hafa tekið framförum frá síðustu tímabilum. Mourinho hefur þar að auki náð að gera Old Trafford að vígi aftur, liðið er núna búið að jafna lengstu taplausu heimaleikjahrinu liðsins, met sem Sir Matt Busby náði á árunum 1964-66.
En það má vissulega finna sitthvað til að gagnrýna líka. Til dæmis að Manchester United er ekki að spila eins vel og Manchester City. Og að liðið er of háð Pogba, það er vesen því það þarf að vera hægt að hvíla Pogba stundum og dreifa álaginu. Svo er spil liðsins og sóknaruppbygging ekki eins leiftrandi og skemmtileg og hún gæti verið.
Pælingar um liðsval í þessum leik eru nett snúnar. Þetta Watford lið getur verið ansi öflugt og ber að taka alvarlega. Samt er stutt frá síðasta leik og stutt í næsta leik. Næsti leikur er einmitt stórleikur gegn Arsenal um næstu helgi, annar mikilvægur leikur. Svo það væri fínt að geta róterað eitthvað í leiknum annað kvöld en það má samt ekki veikja liðið of mikið.
Phil Jones, Eric Bailly og Michael Carrick eru ennþá frá vegna meiðsla/veikinda. Þá voru bæði Pogba og Fellaini haltrandi á vellinum um síðustu helgi eftir pústra, ættu þó að vera tilbúnir í þennan leik.
Eftir strembna og stressaða byrjun hefur Victor Lindelöf verið að vaxa mikið í síðustu leikjum. Síðustu fjórir leikir hjá honum hafa allir verið góðir, fyrst tveir leikir gegn Ítalíu með Svíþjóð, svo flottur leikur gegn Newcastle og enn betri gegn Brighton. Vonandi heldur hann áfram á þessari braut. Held hann gæti orðið ansi öflugur í þriggja miðvarða kerfi, þar sem hann gæti komið með boltann upp völlinn og nýtt sendingargetu sína, ekki ósvipað því sem við sjáum Azpilicueta gera hjá Chelsea.
Ef Watford spilar með 3 miðverði þá getur verið sniðugt að spegla það, hins vegar eru tveir af öflugustu miðvörðum United á meiðslalistanum svo það gæti verið of mikil áhætta að spila hinum 3 öllum inná í einu. Ég vona þó að Rojo byrji, hann mætti alveg byrja við hlið Lindelöf. Kannski eitthvað í þessa áttina:
Einhver af þeim allra mikilvægustu í þessari uppstillingu mætti alveg hvíla mín vegna. Valencia, Matic, Martial og jafnvel Lukaku. Ólíklegra að Pogba fái hvíld. En það eru leikmenn til að kovera þessi pláss. Fellaini, Zlatan, Darmian og/eða Herrera gætu þá dottið inn.
Annað strembið próf
Manchester United hefur unnið 12 af síðustu 13 leikjum sínum gegn Watford. Þessi eini sem stendur eftir er einmitt sama viðureign liðanna á síðasta tímabili. Þegar Manchester United heimsótti Vicarage Road síðast, í september á síðasta ári, þá vann Watford þann leik með 3 mörkum gegn 1. Það var annar tapleikur United í deildinni í röð og eftir þann leik var liðið í 7. sæti.
Burnley, Watford og Brighton & Hove Albion eru þau lið sem hafa komið hvað mest á óvart á tímabilinu til þessa. Þau hafa sýnt mikla baráttu og þrautseigju í sínum leikjum, náð í mörg sterk stig nú þegar og oftar en ekki valdið toppliðunum vandræðum. Manchester United vann seiglusigur í síðasta leik á Brightonliði sem var taplaust í fimm leikjum þar á undan. Þessi leikur verður líka baráttuleikur og United þarf að mæta tilbúið til leiks til að ná stigunum þremur og halda sér í þeirri stöðu að ná kannski að setja pressu á Manchester City.
Útivallarform United hefur ekkert verið alltof gott á síðustu vikum. Liðið hefur tapað 3 af síðustu 4 útileikjum í öllum keppnum og aðeins unnið 1 af síðustu 5 útileikjum í deildinni. Það er tilvalið að fara að bæta úr því núna. Framundan í deildinni eru tveir erfiðir útileikir áður en stærsta próf vetrarins mætir á Old Trafford.