Eins og í fyrra þá kom hikstinn í fjórða leik og við urðum að sættast á 2:2 jafntefli gegn Stoke City á Bet 365 vellinum í dag. Jafnteflið sem slíkt eru engin hörmungar úrslit en frammistaðan var ákveðið áhyggjuefni og auðvitað situr það enn þá í mönnum hvernig tímabilið riðlaðist á þessum sama tíma í fyrra.
José Mourinho ákvað að breyta sigurformúlu fyrstu leikjanna og bauð upp á 4-3-3 í dag. Martial, Blind og Mata settust á varamannabekkinn en inn komu Rashford, Darmian og Herrera. Miðju þríeykið var því Herrera-Matic-Pogba, eitthvað sem margir stuðningsmenn hafa beðið spenntir eftir að sjá. Darmian tók ser auðvitað stöðu í vinstri bakverði á meðan Rashford spilaði frá vinstri vængnum, Mkhitaryan frá þeim hægri og Lukaku þeirra á milli.
Varamenn: Romero, Mata, Martial, Smalling, Lingard, Carrick, Blind, Romero
Heimamenn hófu leik með þetta lið:
Varamenn: Grant, Berahino, Tymon, Martins Indi, Adam, Crouch, Sobhi, Grant
Leikurinn
Leikurinn bauð upp á fátt lengst af í fyrri hálfleik. Arsenal-baninn, Jesé, fékk ágætt færi í upphafi leiks sem hann setti framhjá og hinum megin fékk Marcus Rashford kjörið tækifæri til að skora eftir frábæra langsendingu frá engum öðrum en Eric Bailly, en Jack Butland varði frábærlega.
Fleira markvert gerðist ekki fyrstu 40 mínútur leiksins en Eric Bailly átti þó eftir að breytast úr hetju í skúrk áður en hálfleikurinn var úti. Darren Fletcher átti þá snotra skiptingu á Mame Biram Diouf á hægri kantinum sem hefði verið í rangstöðu ef Eric Bailly hefði ekki sofnað á verðinum. Það var þó ekki nóg fyrir Bailly sem síðan leyfði Eric Maxim Choupo-Moting að komast fram fyrir sig og stýra fínni fyrirgjöf Diouf framhjá David de Gea í markinu, staðan orðin 1:0 á markamínútunni sjálfri, 43.
Þarna var hugurinn strax kominn í þá pælingar að gleyma þessu 4-3-3 kerfi og hrista upp í þessu í hálfleik en okkar menn höfðu aðrar hugmyndir. Aðeins tveimur mínútum eftir mark Stoke vann United hornspyrnu. Mkhitaryan sveiflaði henni á nærstöngina, Matic flikkaði honum aftur fyrir sig þar sem Pogba skallaði boltann í hnakkann á Marcus Rashford og þaðan í netið! Skrautlegt en það telur, 1:1 í hálfleik.
Bruno Martins Indi er okkur Íslendingum góðkunnur eftir að hann lét reka sig af velli í frægum landsleik Hollands og Íslands í undankeppni EM. Í dag kom hann inn á í hálfleik er Geoff Cameron fór útaf hjá heimamönnum sem hófu síðari hálfleikinn af krafti og virtust líklegri þangað til á 57. mínútu þegar eitruð skyndisókn United skilaði marki. Joe Allen var þá hangsandi á boltanum á miðjum vellinum þangað til að Darmian rændi honum og fann Mkhitaryan sem þræddi stungusendingu í gegnum Stoke vörnina á Lukaku hann skoraði í annarri tilraun eftir að Jack Butland varði fyrra skotið án þess að halda því.
Við vorum þó ekki lengi í paradís. David de Gea átti hreinlega markvörslu tímabilsins til þessa þegar hann varði fast skot Jesé af stuttu færi með því að bregðast fljótt við og slá boltann yfir og aftur fyrir. Auðvitað skoraði Stoke úr hornspyrnunni en að þessu sinni var það Phil Jones sem var í ruglinu. Fyrrnefndur Choupo-Moting losaði sig við Jones á fjærstönginni og skallaði einn og óvaldaður framhjá de Gea. Við getum núna hætt að tala um Phil Jones og Eric Bailly sem hið heilaga hafsentapar.
Það er ákveðin kaldhæðni í því að eftir þrjá sigurleiki í röð og markatöluna 10-0 breytti Mourinho um kerfi í dag til þess að styrkja varnarleikinn sem þó hefur aldrei verið jafn óstöðugur eins og akkurat í þessum leik. Tónninn í okkur hefði þó getað verið allt annar ef Lukaku hefði nýtt gullið tækifæri til að koma okkur yfir á nýjan leik á 81. mínútu. Valencia átti frábæra fyrirgjöf frá hægri beint á milli markmanns og varnar og Lukaku losaði sig við dekkninguna og náði til boltans en skaut yfir. Erfitt færi en maður gerir þó kröfu til Belgans um að klára svona.
Í uppbótartíma kom svo lokasénsinn og hann fór einnig forgörðum. Mata sendi þá boltann inn í teig úr horspyrnu þar sem Kevin Wimmer misheppnaðist að hreinsa og hann flikkaði boltanum í samherja sinn, Kurt Zouma, og þaðan fór boltinn næstum í netið en Jack Butland var snöggur niður og varði vel. Lokatölur 2:2.
Umræðupunktar eftir leik
Gífurleg vonbrigði, bæði frammistaðan og úrslitin. Miðvarðarparið okkar átti hörmulegan dag og ljóst að Victor Lindelöf þarf ekki að dúsa mikið lengur í frystiklefanum ef þetta er það sem koma skal. Ander Herrera, í sínum fyrsta byrjunarliðsleik, náði engu flugi áður en hann var tekinn af velli eftir rúman klukkutíma og ólíklegt að hann hafi verið að spila sig aftur inn í liðið í dag. Eini maðurinn sem var yfir pari í dag var David de Gea í markinu. Hann gat lítið gert við mörkunum tveimur sem hann fékk á sig en hann minnti á ótrúleg viðbrögð sín með geggjaðri vörslu frá Jesé í síðari hálfleiknum.
Munum þó að við erum að koma undan landsleikjahléi þar sem 11 af þeim leikmönnum sem spiluðu í dag voru í fullum verkefnum. Það er oft þynnka í mönnum eftir svona tarnir en mikilvægt er að svara þessu strax í næsta leik.
Mörgum United mönnum er enn í fersku minni hvernig liðið hrundi niður í fyrra við samskonar kringumstæður. Þó þessi úrslit séu engin heimsendir þá er rosalega mikilvægt að koma strax til baka í næstu leikjum, þetta má ekki enda með jafn slitróttu og döpru gengi eins og í fyrra.
Það þarf ekkert að segja neinum það að Henrikh Mkhitaryan er klassa fótboltamaður en hann þarf stundum að stíga betur upp. Hann gerði ótrúlega vel þegar hann lagði upp á Lukaku og hefur auðvitað lagt mikið upp hingað til en hann virðist vera svona stemningsleikmaður; frábær í liði sem vinnur 4:0 en of fljótur að skríða ofan í skelina sína þegar á móti blæs.
Vert er að minna lesendur á að gæta hvers þeir óska sér. Jose Mourinho talaði um það á dögunum að hann vildi sjá liðið sitt „vera að tapa“ til að sjá hvernig það myndi bregðast við andlega. Svar: ekkert alltof vel, ekki í dag allavega.
Fátt er þó svo með öllu illt að eigi boði nokkuð gott. Við erum áfram á toppnum, ósigraðir og förum ekki aftur til Stoke á þessu tímabili. Svona leikir geta farið svona, þannig hefur það alltaf verið og við höldum áfram að vera vægðarlausir gagnvart hinum svokölluðu minni liðum á Old Trafford þá er allt mögulegt.