Nú þegar fyrsti júlí rennur upp er leikmannaglugginn opinberlega opinn og United er búið að kaupa einn leikmann af þeim fjórum sem búist er við að liðið kaupi. Leikmenn mæta aftur til æfinga á laugardaginn næsta, 8. júlí og fljúga til Bandaríkjanna daginn eftir. Eitt af því sem gengið hefur verið frá sem vísu er að José Mourinho hafi lagt fyrir Ed Woodward að ganga frá kaupum fyrir þann tíma til að nýir leikmenn yrðu með frá upphafi undirbúnings.
En sem fyrr segir er það bara Victor Lindelöf sem víst er að mætir á Carrington eftir viku. Kaupin á Nemanja Matić bíða þess að Chelsea kaupi Tiemoué Bakayoko frá Monaco og flest bendir til að Álvaro Morata geri sitt til að Real selji hann til United. Við vonumst því til að þau kaup séu bara tímaspursmál og væri gaman ef þau gerðust í vikunni.
En kaupin á Ivan Perišić virðast í uppnámi. Það var alltaf talað um að Inter þyrfti þrjátíu milljónir evra til að standast fjármálakröfur og það fyrir 1. júlí. Nú er sá tími kominn og Inter mun hafa selt minni spámenn og staðist þær. Tilraunir Woodward til að fá Perišić á 30-40 milljónir evra en ekki 50-55 eins og Inter heimtaði hljóta því að hafa mistekist. Góðar fréttir fyrir stjóra Inter, Luciano Spaletti, sem vildi halda leikmanninum. Nú er sagt að Fabinho sé á leið til PSG og staðhæfingar þeirra sem sögðu að hann hefði aldrei verið á lista United eru farnar að hljóma trúlegar.
En þá kemur spurningin: Hvað gerir United? Við byrjum á því að skoða hvað Perišić hefði komið með til liðsins og til þess hendum við upp liðið eins og það gæti litið út með Matić og Morata innanborðs. Byrjum á uppstillingunni 4-3-3 sem mér og fleirum finnst bjóða upp á meiri möguleika, sér í lagi til að frelsa Pogba og færa hann framar.
Ef við lítum til baka og skoðum álit ritstjóranna á hópnum frá því í Djöflavarpi vorsins þá held ég hægt sé að segja að Morata og Matić fái báðir grænan stimpil og Lindelöf á að vera nógu góður til þess sama. Það eru því þrír traustir leikmenn sem bætast við, þó ekki sé beinlínis hægt að kalla þá stórstjörnur.
En hvað með Perišić?
Jú, hann hefði komið með aukna breidd samfara mikilli reynslu á vinstri kantinn sem og vinstri miðjuna. Það eru nefndir fimm leikmenn þarna á vinstri kanti og með mikilli virðingu fyrir og aðdáun á Tony Martial þá er enginn þeirra, eins og stendur, alveg fullkominn kantmaður. Perišić er traustari og reyndari og hefði einfaldlega sett hinum takmark: þeir hefðu þurft að stíga upp og sýna að einhver þeirra væri betri kantmaður til að vinna sér inn sætið.
Að auki hefði Perišić verið eini maðurinn sem við höfum nefnt hér sem gæti leyst stöðu Pogba vinstra megin á miðjunni þannig að vel færi, og án þess að þurfa að stokka upp liðinu.
En það að kaupa Ivan Perišić á 44 milljónir punda, ef ekki meira, í þetta hlutverk, er líklega of mikið og það væru í raun mikil mistök að gefa núna eftir og henda pendingum í Inter. Það þarf því að endurskoða innkaupalistann og vonandi að það sé eitthvað nafn á honum fyrir neðan nafn Perišić.
Hvað það nafn gæti verið er mjög erfitt að segja. En miðað við hvað hann hefði komi með í liðið þá ætti það að vera leikmaður með góða reynslu sem væri ekki endilega heimsklassaleikmaður. Það hefur ekkert verið slúðrað um aðra möguleika, hvorki áreiðanlegt né óáreiðanlegt þannig að við verðum bara að bíða.
En ef við skoðum hópinn að ofan þá er 24 nöfn þarna. Er það nóg?
Alls léku 32 leikmenn leiki í fyrra, sem byrjunarmenn eða varamenn, 27 þeirra fleiri en tvo, en aðeins 25 léku fleiri en tvo leiki í byrjunarliði og 23 fleiri en 10. Þurfum við því mikið stærri hóp en 24 kjarnaleikmenn og átta góða unglinga? José kvartaði í fyrra undan meiðslum, en var ekki vandamálið frekar að það hefðu mátt vera 1-2 betri leikmenn en sumir þeirra sem við teljum hópleikmenn frekar en byrjunarliðsmenn. Þessir menn þurfa að vera af þeirri gerð að þeir fara ekki endilega í fýlu við fyrstu bekkjarsetu, eitthvað sem innkaupaheimtingar gleyma stundum að taka með í reikninginn, en það þarf líka að gera kröfur til þeirra.
Hér er mynd sem sýnir hverjir léku leiki í fyrra, númer leikmanns og fjölda leikja hvort heldur sem er í byrjunarliði eða varaliði
Þeir leikmenn sem léku fæsta leiki eru allir annað hvort farnir (vínrauð stjarna: Schneiderlin, Memphis, Schweinsteiger, og Josh Harrop) eða ungir (bleik stjarna: Fosu-Mensah, Tuanzebe, Scott McTominay, Demetri Mitchell og Angel Gomes). Það hefur verið talað um að salan á Schneiderlin og Schweinsteiger skilji eftir göt á miðjunni, en þeir byrjuðu fjóra leiki samtals, Bastian í bikarnum, Schneiderlin í deildarbikar og tvo í Evrópudeildinni. Er þetta missir? Evrópuleikirnir verða vissulega mikilvægari fyrir jól en þeir voru í fyrra.
Það eru ekki margir ungir leikmenn sem bíða, og þeir sem voru á láni, utan Pereira munu líklega fara. Frammi, í mögulegri 10 stöðu og hægra megin er liðið þokkalega vel mannað, Vinstra megin þarf sem fyrr segir einhvern sem getur helst leyst vinstri kant og vinstri miðju, vinstri bakverðir eru fjórir möguleikar en við vitum öll að það væri ekkert að því að fá einhvern sem annað hvort væri betri en Shaw eða myndi neyða Shaw til að taka skrefið upp á við. Sala á Darmian hlyti að þýða að kaup á öðrum bakverði væri nauðsyn og í dag er slúðrað um Kieran Tierney, tvítugan vinstri bakvörð Celtic, en United og fleiri ensk lið hafa áhuga á pilti, enda lofar hann góðu og er kominn í landslið. Samkvæmt fréttum þá hefði Mourinho síðan ekkert haft á móti að bæta Michael Keane í miðvarðahópinn en hann vildi fast sæti og er á leið til Everton.
Valencia hefur alveg eignað sé hægri bakvarðarstöðuna en varamaðurinn er Timothy Fosu-Mensah, nú eða Darmian. Varnarmaður sem gæti leyst miðvarðarstöðuna og hægri bakvörð væri því ekki vitlaus hugmynd. Sérstaklega ekki ef selja á Smalling
Staðan í dag
Keyptur
Victor Lindelöf
Koma líklega
Álvaro Morata
Nemanja Matić
Hvað annað væri gaman að sjá:
Traustan vinstri miðjumann/kant.
Traustan vinstri bakvörð.
Leikinn miðjumann.
Hægri bakvörð/miðvörð.
En eins og ég er búinn að sannfæra sjálfan mig hér fyrir ofan: við erum með 24 manna kjarnahóp ef Morata og Matić verða keyptir. Ef Perišić kemur á endanum eða einhver slíkur þá sjáum við 25.
Miðað við slúðrið eru fjórir leikmenn á lista Mourinho þannig að það er ólíklegt að keypt verði í hinar stöðurnar sem væri gaman að sjá en þó helst ef einhver verður seldur. Það væri samt ekki vitlaust, sérstaklega af því að það væri líklega hægt að fá betri leikmenn í hópinn en suma þeirra sem ekki eru fastamenn. Það væri því kannske gott að svara spurningunni í fyrirsögninni með annarri spurningu:
Getum við aukið breiddina með því að auka gæði hópleikmanna frekar en að fjölga leikmönnum í hóp?
Ein til tvö slík kaup í sumar, hvort sem er að stökkva á Blaise Matuidi frá PSG eða finna annan fjölhæfan varnarmann sem gæti komið með eitthvað meira en Smalling eða Blind gætu orðið til að styrkja hópinn til muna.