Lið Manchester United var lítið eitt breytt frá því sem spáð var, Juan Mata var valinn frekar en Big Game Jesse og Chris Smalling fékk miðvarðarstöðuna frekar en Phil Jones, að sögn Mourinho vegna þess að Smalling kom fyrr úr meiðslunum.
Varamenn: De Gea, Jones, Fosu-Mensah, Lingard 74′, Carrick, Martial 84′, Rooney 90′
Lið Ajax var eins og við var búist, nema í stað Tete var Riedewald í vinstri bakverði.
United byrjaði af miklum krafti og sótti á Ajax frá fyrstu mínútu. Ekki urðu þó færi úr því að ráði, fyrsta skiptið sem United kom boltanum af alvöru inn í teig var á 10. mínútu, Mata náði að gefa fyrir og litlu munaði að Feillaini næði að stanga boltann. Ajax náði þó vopnum sínum og hélt boltanum næstu mínútur sem endaði á fyrsta markskotinu, Traoré skaut beint á Romero. Þetta skot vakti aðeins United, og þeir fóru aftur í sókn. Það endaði með marki! Mata fékk boltann inni í teig, var umkringdur en náði að koma boltanum út á Fellaini, Fellaini renndi boltanum á Pogba sem lagði hann fyrir sig og skaut. Þetta var ekki besta skotið en fór í Sánchez og inn. Onana átti ekki séns eftir að boltinn fór í Sánchez. 1-0 eftir 17 mínútur og 17 sekúndur
Ajax reyndi að sækja eftir markið en United var geysilega þétt fyrir. Blind stóð sig vel í að lesa leikinn og greip hvað eftir annað inn í. Fellaini tók Schöne fyrir og Pogba var gríðarsterkur. Þetta var greinilega hluti af áætlun Mourinho að leyfa Ajax að halda boltanum og beita skyndisóknum, sérstaklega fyrst United var komið yfir.
Traoré var sprækur fyrir Ajax og átti einn af þessum einleikjum sem hann hefur verið að beita í vetur, komst inn í teig og framhjá Blind en United náði að stöðva hann og Smalling hreinsaði.
Eins og oft áður í vetur hleypti United mótherjanum allt of mikið inn í leikinn þó að engin Ajax færi kæmu í ljós í fyrri hálfleiknum og það var ákveðinn léttir að fara inn í hálfleikinn. Völlurinn var fljótlega orðinn mjög slæmur sem líklega hafði einhver áhrif á spilamennskuna í leiknum, erfitt að láta boltann ganga á jörðinni
Seinni hálfleikurinn byrjaði með látum, Ajax átti góða sókn sem endaði með broti á Fellaini, United fór í sókn og Fellaini var næstum kominn í gegn en Sánchez bjargaði í horn. Mata tók það, góð fyrirgjöf inn á teiginn, Smalling skallaði niður og Mkhitaryan skoraði á glæsilega hátt með að teygja sig í boltann með bakið í mark og vippa in af stuttu færi, þrátt fyrir að vera með varnarmann í bakið. Frábært hjá Mkhitaryan sem hafði verið afskaplega slakur í fyrri hálfleik, ekkert gengið og fengið gult að auki.
Leikurinn fór síðan aftur í fyrra farið, United mjög sáttir við að vera 2-0 yfir og sóknir Ajax brotnuðu á sterku United liði. Kaspar Dolberg var alveg ósýnilegur í leiknum, átti sína fyrstu snertingu þegar Ajax byrjaði aftur eftir mark Pogba og var fyrstur Ajax manna útaf. Inn kom David Neres, tvítugur Brasilíumaður.
United fór loksins að koma betur inn í leikinn, Ajax aðeins kannske að missa móðinn og Fellaini átti fínan skalla á Onana. Þetta varði þó ekki lengi enn fór United í að leyfa Ajax að halda boltanum. Ajax skipti Schöne útaf fyrir tvítugan Hollending, Danny van de Beek og rétt á eftir fékk Ajax aukaspyrnu í vítahringnum fyrir hendi á Mkhitaryan. Hún fór þó beint í vegginn.
Fyrsta skipting United kom á 74. mínútu, Jesse Lingard kom inn á fyrir Henrikh Mkhitaryan, nokkuð sem kom ekki á óvart og hefði líklega komið fyrr ef staðan hefði enn verið 1-0.
Ein skemmtilegasta sókn United fylgdi, Pogba fékk boltann og einhvern tímann hefði verið dæmt á Sánchez þegar hann hljóp inn í Pogba en Skomina dómari var búinn að vera mjög linur á minni háttar brotum. Mata fékk reyndar gult fyrir að fara í ökklann á De Ligt og úr því varð smá stuð, Riedewald fékk gult fyrir að hrinda Herrera í þeim atgangi. Riedewald fór síðan útaf fyrir enn einn tvítugan dreng, Frenkie de Jong. United skipti síðan á 84. mínútu, Rashford útaf og Martial inná. Rashford hefur oft átt betri leiki.
Jesse Lingard átti frábært tækifæri til að gera út um leikinn, fékk sendingu frá Martial og var kominn inn fyrir vörnina í miðjuhringnum, skeiðaði upp allan völl en við vítateiginn hrinti Sánchez honum. Ótrúlegt að ekkert skyldi vera dæmt þar. Rétt á eftir varði Romero frá Van de Beek og þá ákvað José að þetta væri komið og Rooney gerði sig tilbúinn og kom svo inn á fyrir Mata á 90. mínútu.
Dómarinn bætti fjórum mínútum við en það gerðist ekkert og United er Evrópudeildarmeistari með sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.
Fyrsta verkefni næsta keppnistímabils verður að takast á við Real Madrid eða Juventus í Ofurbikar Evrópu 8. ágúst í Skopje í Makedóníu!
Þetta var gríðarlega traustur leikur hjá United og tístari Rauðu djöflanna, Runólfur Trausti átti kollgátuna:
https://twitter.com/raududjoflarnir/status/867480396501483521
Mourinho lagði þetta upp til sigurs, leyfði Ajax að vera með boltann, allar sóknir þeirra strönduðu á varnarvegg og þeir voru ekki með nægjanlega reynslu til að vinna á því. Allir varnarmenn þeirra voru tvítugir, og þó það sé spennandi fyrir þá þá þarf meira til.
Þeir Blind, Darmian, Smalling, Fellaini og Pogba voru allir gríðarsterkir og unnu vel saman, Romero átti þægilega dag, Valencia sást lítið og sem fyrr segir voru Mkhitaryan, Mata og Rashford frekar dræmir, að hluta vegna leikaðferðarinnar sem skilaði bikarnum sem okkur hefur vantað í safnið!
https://twitter.com/europaleague/status/867504947247624192