Það var fallegt sumarveður í Manchesterborg í dag. Sólin skein og andrúmsloftið á Old Trafford var jákvætt. José Mourinho var búinn að gefa það út að rjóminn af yngri leikmönnum félagsins myndu fá tækifæri til að spila á þessum magnaða heimavelli. Gengið í deildinni í vetur var ekkert annað hörmung en samt var allt svo jákvætt eitthvað í dag.
Manchester United byrjaði þennan leik gríðarlega vel en þetta var yngsta byrjunarlið í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Ungu strákarnir voru staðráðnir í því að sýna hvað í þeim býr. Það tók ekki langan tíma fyrir United að brjóta ísinn en Josh Harrop skoraði sitt fyrsta mark fyrir Manchester United á 15.mínútu með nettum tilþrifum eftir geggjaða utanfótarsendingu frá Paul Pogba. Pogba skoraði svo sjálfur fjórum mínútum síðar eftir mistök hjá varnarmanni Crystal Palace. Virkilega gaman að horfa á þetta United lið í þessum leik sem var nokkurn veginn það sem gestirinir frá Lundúnum gerðu í dag. Demetri Mitchell heillaði mig mikið í dag en hann lék í vinstri bakverðinum.
Mourinho gerði tvær breytingar fyrir leikhlé en Anthony Martial og Michael Carrick leystu þá Jesse Lingard og Paul Pogba af hólmi sem munu greinilega leika gegn Ajax á miðvikudag og er vonandi Pogba verði í sama gírnum þá og hann var í dag. Þegar flautað var til hálfleiks var staðan 2:0 United í vil.
Seinni hálfleikurinn var ekki eins fjörugur og sá fyrri en United hélt fullri stjórn á leiknum og satt best að segja þá hafði Palace ekki að neinu að keppa í dag og var það frekar augljóst. Þeir fengu aukaspyrnu á hættulegum stað í seinni hálfleiknum sem Joel Pereira í markinu varði helvíti vel.
Á 87.mínútu var fyrirliðinn Wayne Rooney tekinn af velli og fékk standandi lófaklapp frá áhorfendum og er ansi líklegt að þetta hafi verið hans síðasti leikur á Old Trafford. Að minnsta kosti sem leikmaður Manchester United. Sá sem kom í hans stað var ungstirnið Angel Gomes sem varð yngsti leikmaður Manchester United frá árinu 1956 en þá lék David Gaskell sem er sá yngsti frá upphafi.
Lokatölur 2:0 fyrir Manchester United.
Bekkur: O’Hara, Blind, Carrick (Pogba), Willock, Dearnley, Gomes (Rooney), Martial (Lingard).