Þegar liðið var birt voru flest frekar ringluð, einhvers konar uppstilling með þremur miðvörðum og Rooney og Carrick á miðjunni. En í staðinn var þetta um það bil svona
Varamenn voru: S.Romero, Darmian, Mitchell, Ander Herrera(61′), McTominay, Mkhitaryan(61′), Rashford (73′), Demetri Mitchell að fá sitt fyrsta tækifæri á bekknum.
Lið Tottenham var svona
Leikurinn byrjaði frekar rólega þó að stuðningsmenn Tottenham væru í svakalegu stuði frá því löngu fyrir leik og það tók ekki langan tíma að gleðja þá. Davies fékk boltann eftir horn, sendi inn á teiginn og þar var Victor Wanyama alveg óvaldaður, aðallega vegna slakrar staðsetningar Rooney, og skallaði auðveldlega í netið af markteig.
Leikurinn var tíðindalítill eftir þetta, bæði lið með boltann án þess að gera eitthvað mikð við hann. Anthony Martial var frekar einangraður frammi , átti þó ágætis skot þegar hann fékk boltann úti á kanti og skaut síðan utan teigs, en boltinn fór rétt framhjá.
Á 19. mínútu átti samt Tottenham að skora, Son Heung-min óð óáreittur í gegnum vörnina og inn í teig, en De Gea varði gott skot hans. Christian Eriksen fékk frákastið en skaut framhjá. Skömmu síðar var Kane á undan De Gea í fyrirgjöf en skallaði rétt yfir. Færin komu hvert á eftir öðru, De Gea lenti í vandræðum með skot Eriksen sem breytti um stefnu af sköflungi Tuanzebe. De Gea náði bara að ýta boltanum frá og Dele Alli náði ekki valdi á boltanum þannig Bailly gat komið til bjargar.
If United defend any deeper, they'll be in Spurs' new ground.
— Cal Gildart (@calgildart) May 14, 2017
Eins og þetta tíst bendir á vörðust United aftarlega og það verður að segjast eins og er að þetta fyllir mig ekki trausti fyrir leikinn gegn Ajax, Bailly kom oftast úr bakverðinum til að bjarga hlutunum
Dele Alli var næstur Tottenham manna til að reyna sig, De Gea varði í horn.
Þessi hasar leið þó hjá og síðasta kortérið í fyrri hálfleik var United liðið búið að koma sér fyrir á eigin vallarhelmingi og varðist. Martial greyið var afskaplega einmana frammi og gat lítið gert. Tottenham fékk samt eitt færi undir lokin en De Gea varði sem fyrr frá .
Það var ótrúlegt en það var samt United sem fékk færi undir lokin og það besta færi sitt í fyrri hálfleiknum. Bailly var í alveg ágætri aðstöðu til að skjóta en ákvað að reyna að gefa boltann í staðinn. Þarna hefði hann mátt vera eigingjarnari!
En fyrri hálfleiknum er best lýst með því að United var heppið að vera ekki þremur eða fjórum mörkum undir eða fleiri þegar leikmenn fóru í klefann. Það tók Tottenham ekki langan tíma að leiðrétta það. Þrjár mínútur voru liðnar af þeim seinni þegar Dele Alli fékk aukaspyrnu vinstra megin, Eriksen tók hana, gaf fyrir og Kane skoraði með fallegu utanfótarskoti af 2 metra færi. Vörnin léleg þó afgreiðslan væri flott. Bæði Son og Kane reyndu langskot á næstu mínútum, De Gea varði frá Son en skot Kane fór framhjá, Tottenham menn komnir í verulegt stuð og vildu bæta við.
Það gerðist samt ekki strax, United fékk meira að segja færi þegar Lingard skaut utan teigs en nokkuð fram hjá. Á 61. mínútu gerði José síðan tvær breytingar, Mkhitaryan kom inn fyrir Lingard og Herrera kom í stað Tuanzebe. Herrera tók þó ekki við hlutverki Tuanzebe sem yfirfrakki á Eriksen, nokkuð sem unglingnum hafði ekki gengið alltof vel með.
Af öllum mönnum var það síðan Wayne Rooney sem minnkaði muninn á 71. mínútu. Martial átti heiðurinn, fór upp vinstra megin, auðveldlega framhjá Trippier og næstum upp að markteig, nett fyrirgjöf, Rooney stakk fætinum fram fyrir Vertonghen til að ná skotinu og boltinn fór af ristinni á Vertonghen og inn, líklega á leiðinni inn hvort heldur er þannig að markið er Rooneys.
Síðasta skiptingin var síðan Rashford fyrir Mata. United var á þessum tímapunkti orðið mun frískari en áður, en það var samt Phil Jones sem þurfti að skalla skot Dele Alli frá þegar boltinn var farinn framhjá De Gea.
Fátt gerðist síðan fyrr en í viðbótartíma að Rashford fékk langa og háa sendingu innfyrir en með varnarmenn í sér gat hann ekki nýtt færið. Þetta var síðasta færið í leiknum og stemmingin síðustu mínúturnar var vissulega frábær þegar stuðningsmenn Tottenham Hotspur sungu kveðjusöng til vallarins.
Sanngjarn sigur Tottenham í þessum síðasta leik á White Hart Lane og United var afspyrnuslakt í 70 mínútur, en örlítið skárri síðustu 20. Besti maður United var Anthony Martial en það eru fáir aðrir sem þarf að minnast á, utan að David De Gea varði nokkrum sinnum mjög vel, svona eins og við erum orðin vön og farin að krefjast af honum. Af hinum eru 2-5 sem fæst okkar verða hissa ef þeir verða ekki á leikmannalista United þegar skiptiglugginn lokar í haust. Þannig er það bara.