Það hefur margt átt sér stað síðan í byrjun janúar þegar við skoðuðum síðast hvað væri í gangi í yngri liðum félagsins. Rennum yfir það helsta í leikmannamálum fyrst.
- Miðjumaðurinn Sean Goss var seldur til Q.P.R. á 500 þúsund pund.
- Bakvörðurinn Joe Riley gekk til liðs við Sheffield United á láni en liðið situr í fyrsta sæti í þriðju efstu deild á Englandi. Riley sem var hugsaður sem byrjunarliðsmaður lenti hins vegar í því að fara úr axlarlið á æfingu og hefur því aðeins leikið tvö leiki með liðinu. Hvort hann nái fleiri leikjum með liðinu verður að koma í ljós.
- Sam Johnstone fékk að fara á lán eftir að Joel Pereira kom til baka úr láni. Hefur Johnstone staðið vaktina hjá Aston Villa síðan og staðið sig með prýði. Eftir erfiða byrjun á árinu hefur liðið rétt úr kútnum og hefur Johnstone haldið hreinu í 5 af síðustu 6 leikjum.
- Cameron Borthwick-Jackson virðist loksins kominn úr misheppnuðu láni hjá Wolves. Hann hefur ekki spilað mínútu með Wolves og var engan veginn í myndinni. Lambert hafði svo litla trú á honum að samkvæmt mjög undarlegu ákvæði í lánssamningnum mátti hann spila með U23 ára liði United gegn Porto í einhverskonar B-liða Evrópukeppni. United neitaði víst að borga Wolves það sem þeir höfðu borgað fyrir lánið í upphafi og því neitaði Wolves að rifta samningnum. Afleiðingar þess voru til að mynda þær að Wolves fékk Sam Johnstone ekki á láni og má reikna með að United muni ekki selja né lána leikmenn til Wolves á næstunni.
- Adnan Januzaj er inn og út úr liðinu hjá Sunderland. Hann hefur því ekki heillað mikið en hann átti ágætis spretti í þeim fáu sigurleikjum sem Sunderland hefur landað undanfarið. Því miður virðist Sunderland dauðadæmt til að falla og lítið um það að segja. Framtíð hans hjá United er líklega ráðin en undirritaður er þó viss um að strákurinn gæti átt góðan feril í úrvalsdeildinni.
- Andreas Pereira er þriðji lánsmaður United með íslenskan samherja en Sverrir Ingi var keyptur til Granada í janúar. Því miður virðist það ekki ætla að bjarga liðinu frá falli. Það jákvæða við þetta lán er að Pereira byrjar alla leiki Granada og svo virðist sem José Mourinho hafi mikla trú á honum og er í stöðugu sambandi við hann og umboðsmann hans. Spurning hvað strákurinn gerir á næstu leiktíð. Að lokum verðum við að taka fram að Pereira lagði upp fyrsta mark Sverris í La Liga nú á dögunum.
https://twitter.com/BeingRedDevil/status/843639483333402625
U23 ára liðið
Áður en Sean Goss gekk til liðs við Q.P.R þá skoraði hann meðal annars eina mark U23 ára liðsins í 3-1 tapi gegn Manchester City þar sem Regan Poole lét reka sig útaf snemma leiks. Sömuleiðis lét hann verja frá sér vítaspyrnu í 1-0 sigri gegn Liverpool í næstu umferð. Var sigurinn kærkominn enda liðinu gengið illa og kom sigurmarkið í lok uppbótartíma. Leikurinn svipaði mjög til beggja leikja aðalliðanna í vetur en það var lítið um færi og bæði lið mjög varfærin.
Eftir sigurinn gegn Liverpool kom tap gegn Everton, lokatölur 3-1 þar sem hvorki meira né minna en fjórar vítaspyrnur voru dæmdar en bæði lið skoruðu úr einni vítaspyrnu og klúðruðu hinni. Ekki skánaði það í næsta leik en þá tapaði liðið 5-3 fyrir Derby County.
Þrátt fyrir slakt gengi í vetur er liðið taplaust í tveimur leikjum í röð og búið að skora 9 mörk í síðustu þremur. Liðið vann Sunderland 3-1 og gerði síðan 3-3 jafntefli við Southampton á sama tíma og aðalliðið tapaði 1-0 fyrir Chelsea í FA bikarnum nú á dögunum. Vægast sagt undarlegt að aðallið félags og U23 ára lið séu að spila á sama tíma.
Þrátt fyrir slakan árangur og að liðið leki mörkum þá er Alex Tuenzebe ennþá langbesti leikmaður U23 ára liðsins, önnur nöfn sem vekja athygli eru annars vegar markvörðurinn Joel Pereira og svo hinn ungi Callum Gribbin.
U18 ára liðið
Eins og áður kemur fram þá hefur U18 ára liðinu gengið mjög vel í vetur og liðið hreinlega getur ekki hætt að skora, hins vegar er varnarleikurinn annað mál. Í janúar gerði liðið 1-1 jafntefli við Everton ásamt því að vinna Sunderland 5-2.
Í febrúar vann liðið tvo leiki en tapaði einum. Sigrarnir komu gegn Wolves (3-0) og Newcastle (4-0), tapið var svo gegn Blackburn þar sem lokatölur voru 3-2. Loka leikurinn í fyrri hluta deildarinnar var svo 2-0 sigur gegn Stoke. Endaði liðið í 2.sæti í sínum riðli á eftir Manchester City.
Deildarkeppninni er sem sagt skipt upp í Norður og Suður, eftir að henni lýkur þá tekur við úrslitakeppni. Þar er liðið hluti af Merit Group A ásamt Liverpool, Manchester City, Chelsea, West Ham, Reading, Arsenal og Blackburn. Mætast öll liðin einu sinni og það lið sem endar efst af þessum liðum verður krýnt U18 meistari.
Liðið hefur leikið tvo leiki til þessa og hafa þeir báðir endað 2-2. Fyrsti leikurinn var gegn Liverpool en eftir að hafa jafnað seint í leiknum og komist svo yfir á 85 mínútu þá missti United liðið unnin leik í jafntefli í uppbótartíma. Skoraði Aidan Barlow bæði mörk United í leiknum. Síðari leikurinn var svo gegn Manchester City og þrátt fyrir að spila vel þá tókst liðinu ekki heldur að landa sigri.
Vert er að minnast á að í 5-2 sigrinum á Sunderland í lok janúar meiddist Tabith Chong því miður illa á hné og hefur því miður verið meiddur síðan.
Angel Gomes, sem er að öllum líkindum efnilegasti leikmaður U18 liðsins, var fyrsti leikmaður þess yfir 10 mörkin í vetur
https://twitter.com/ManUtd/status/824606954446213120