Þegar lið United var kynnt skiptist fólk í tvö horn með það hvort um var að ræða 3-4-2-1 eða 4-3-2-1 uppstillingu að ræða, en þegar leikurinn hófst kom í ljós að 3-4-3 var besta leiðin til að lýsa liðinu
Varamenn: De Gea, Jones, Lingard, Carrick, Young, Rashford, Fellaini
Eins og kom fram í upphituninni vantað þrjá lykilmenn Rostov vegna meiðsla og banna og þeir voru einungis með fjóra leikmenn á bekknum þannig það var þunnskipað hjá þeim.
United byrjaði af nokkrum krafti, Medvedev varði skalla Rojo og Zlatan setti svo boltann úr stöng af þröngu færi strax á fyrstu mínútum leiksins. Áfram hélt United að pressa og fékk til að mynda aukaspyrnu utan teigs sem Ibrahimovic hamraði í vegginn. Pressan var stöðug og fljótlega kom í ljós að það virtist vera taktík hjá Rostov að leikmenn létu sig falla í gras af minnsta tilefni.
Skemmtilegt færi kom á 16. mínútu þegar Mata gaf fram á Zlatan, sem fór fram hjá markverðinum sem kom í skógarferð. Zlatan var hins vegar kominn upp að endamörkum þegar hann náði aftur valdi á boltanum og þá gat Medvedev bjargað andlitinu og komist fyrir skotið.
Pressan þýddi auðvitað að Rostov vörnin bakkaði mikið og á tíðum var um 10 manna langferðabifreið að ræða í vítateig þeirra. En ef Rostov fór framar teygðist á og þá komu færi. Mata átti frábæra sendingu fram á Mkhitaryan sem reyndi að lyfta boltanum yfir markmanninn en skotið fór framhjá. Gott færi sem Mkhitaryan hefði kannski átt að nýta betur.
Skömmu áður hafði hann ofleikið aðeins þegar markvörðurinn ýtti á bakið á honum og varð það eflaust til þess að dómarinn dæmdi ekki vítið sem líklega hefði átt að dæma.
Næsta færi á eftir kom þegar Ibrahimovic átti bylmingsskot úr teignum sem small í stönginni fjær. Fleiri færu komu síðan ekki þrátt fyrir nær stöðugar sóknir fyrr en Pogba átti síðasta skot hálfleiksins. Medvedev varði það með tilþrifum í horn en ekki vannst tími til að taka hornið.
Enn á ný náði United ekki að nýta sér yfirburði í heilum hálfleik til að skora mark og það er ekki hægt að segja að afgerandi færi hafi verið einhver, en þó nokkur þeirra voru af því taginu að mark úr þeim hefði þótt nokkuð eðlileg nðurstaða. Flestir leikmenn stóðu sig vel í hálfleiknum, en Valencia var einna frískastur, spilaði í raun sem kantmaður eins og í gamladaga og var mikið i boltanum
Fyrir leikinn var mikið minnst á að Paul Pogba mætti alveg hvíla í þessum leik og það var ekki liðin mínúta af seinni hálfleik þegar þær raddir fengu réttlætingu þegar Pogba meiddist og Fellaini kom inn á.
Rostov átti síðan fyrsta færi sitt á 54. mínútu og það ekki af verra taginu, Sardar Azmoun átti fínt skot utan teigs sem Romero þurfti að skutla sér á eftir og kýla frá. Þeir áttu síðan langskot sem fór beint á Romero.
United náði fljótt aftur upp fyrra spili án þess að skapa færi sem orð er á gerandi. Meiðslavandræði voru hins vegar þema kvöldsins, Blind fékk höfuðhögg og fór útaf. Inná kom Phil Jones, þannig að þá voru fjórir miðverðir í United liðinu. Jones fór í kantvarðarstöðu Blind frekar en Rojo sem kom frekar á óvart. Upp úr þessu fóru Rostov menn að gera sig meira gildandi, vitandi að þeir þyrftu að skora að minnsta kosti eitt mark.
En loksins gerðu United það sem þurfti. Mata komst inn í slæma sendingu á miðjunni, rauk upp, sendi á Zlatan sem gaf áfram út á kantinn á Mkhitaryan. Mkhitaryan gaf svo fyrir aftur, Zlatan setti hælinn í boltann sem var nóg til að stinga honum framhjá varnarmanni og á Mata sem afgreiddi þetta. 1-0 á 71. mínútu.
Það þarf lítið að ræða hvað þessar skiptingar sem voru komnar, sama hversu tilneyddar þær voru, fóru illa í stuðningsmenn. Rétt áður en Mata skoraði var Mourinho við að að beita síðustu skiptingunni. Það var þó nokkuð ruglingslegt þar sem virtist sem bæði Rashford og Young voru tilbúnir að koma inná, fyrir Mata. Eftir markið sá hann hins vegar ekki ástæðu til að halda þessari ákvörðun til streitu og Rashford og Young fengu að sitja á bekknum til enda.
Bukharov var næstum búinn að skora á 78. mínútu, náði að nikka í boltann á undan Phil Jones, en aðeins frábær viðbrögð Romero björguðu, hann náði að slæma hendinni í boltann og beina honum í horn.
United sótti það sem eftir lifði leiks en það sem helst skemmti var ágæt rispa Phil Jones upp kantinn sem endaði á því að hann setti boltann aftur fyrir endamörk.
En eins og í fyrri hálfleik var marktækifæri úr síðustu spyrnu leiksins. Rostov fékk aukaspyrnu fyrir litlar sakir frá Phil Jones, Noboa tók hana og boltinn var á leiðinni í markhornið efst og þar kom Sergio Romero svífandi sem örn og varði í horn og tryggði sér um leið nafnbótina Maður leiksins.
Þetta var leikur eins og við höfum margoft séð í vetur. Miklir yfirburðir United sem skiluð sér ekki í mörkum. En Romero sá líka til þess að Rostov skoraði ekki markið sem þeir nauðsynlega þurftu og United tryggði sér sæti í 8 liða úrslitum. Annars voru flestir leikmenn United góðir í kvöld, og má þá helst nefna Mkhitaryan en hraði hans og hlaup í svæði sáu um flest færin, Valencia sem fyrr segir og síðan var Fellaini einn besti maður United í seinni hálfleiknum.
Á morgun á hádegi að íslenskum tíma verður dregið í þau og þar verða í pottinum, auk United: Celta Vigo, Besiktas, Genk, Ajax, Schalke 04, Lyon, og Anderlecht.