Fyrir leikinn talaði ég um að ég myndi glaður þiggja steindautt, markalaust jafntefli ef það þýddi að allir leikmenn kæmust meiðslalausir frá þessum leik. Aðstæðurnar voru vægast sagt ömurlegar og varla boðlegar fyrir leik í svona keppni. Enda fór það svo að leikurinn var ekki skemmtilegur áhorfs. En Manchester United náði útivallarmarki og komst meiðslalaust frá leiknum eftir því sem við best vitum. Það verður að teljast gott í ljósi aðstæðna.
Mourinho ákvað að breyta um taktík fyrir þennan leik og spila með 3 miðverði. Byrjunarlið Manchester United í leiknum var:
Varamenn: De Gea, Valencia (91′), Carrick (91′), Lingard, Mata, Martial (67′), Rashford
Byrjunarlið heimamanna í Rostov var svona:
Varamenn: Goshev, Terentjev (18′), Kireev, Bayramyan, Azmoun (74′), Prepelita
Leikurinn
Það varð snemma ljóst í hvað stemmdi. Raunar var það ljóst vel fyrir leik, sérstaklega þegar liðsuppstillingar liðanna voru staðfestar. Rostov lá þétt til baka, greinilega þaulvant að sitja í vörn. Manchester United spilaði óhefðbundið kerfi og með það upplag að reyna ekki mikið að spila boltanum heldur spila löngum sendingum fram völlinn, ýmist á Fellaini og Zlatan framarlega eða upp kantana á vængbakverðina Young og Blind.
Strax á fyrstu mínútum leiksins komst Pogba óvænt í ágætis færi inni í teig heimamanna en hann hitti engan veginn á boltann. Í þetta skiptið hafði hann þó fína afsökun, það var nánast ómögulegt að reikna út hvernig boltinn myndi skoppa á þessu „grasi“. Það átti eftir að verða vandamál fyrir leikmenn allan leikinn.
Það var annars ekki mikið að frétta framan af. Mourinho þurfti að benda nokkrum leikmönnum Manchester United á að þeir ættu ekki að reyna að spila boltanum mikið heldur senda hann frekar fram. Hugmyndin var greinilega að vera þéttir til baka og fyrir miðju, reyna að halda leiknum hægum, nýta styrkleika Fellaini og svo mögulega ná að nýta plássið efst í hornunum fyrir vængbakverðina, á þeim hluta vallarins þar sem það var eitthvað gras að finna að ráði.
Þetta bar árangur á 35. mínútu. Þá átti Phil Jones fína, langa sendingu úr vörninni upp á vinstri kantinn, þar sem Fellaini lúrði. Þrátt fyrir að vera með varnarmann Rostov límdan á sig þá náði Belginn vanmetni að taka eina af sínum frábæru brjóstkassamóttökum og losaði sig við varnarmanninn í leiðinni. Hann tók svo á rás inn í teiginn og átti frábæra stungu innfyrir vörnina á Zlatan. Zlatan hljóp með boltann að endamörkum og renndi honum svo út í teiginn, beint á Mkhitaryan. Armeninn knái átti ekki í vandræðum með að klára færið og kom United yfir.
Mkhitaryan er þar með búinn að skora í þremur Evrópuleikjum í röð. Síðasti leikmaður Manchester United til að gera það var Wayne Rooney. Árið 2010. Rooney skoraði sín mörk að vísu í tveimur leikjum gegn AC Milan og einum gegn Bayern Munchen á meðan Mkhitaryan skoraði gegn Zorya, Saint-Etienne og FC Rostov. En samt flott hjá Mkhitaryan. Hann er að standa sig vel þessa dagana, hefur komið beint að 6 mörkum í síðustu 7 leikjum (4 mörk, 2 stoðsendingar).
Það var því ekki skrýtið að maður hafði nokkrar áhyggjur af því að sjá hann í byrjunarliðinu í kvöld. Helst hefði ég viljað láta hann sleppa því að hita upp á vellinum, hvað þá meira. En allar áhyggjur af honum reyndust óþarfar, ef eitthvað var voru það frekar andstæðingar hans sem þurftu að hafa áhyggjur. Hann lét finna vel fyrir sér, eftir rúmar 20 mínútur var einn leikmaður Rostov farinn meiddur af velli eftir viðskipti við Mkhitaryan auk þess sem Mkhitaryan var kominn með gult fyrir brot á öðrum leikmanni.
Á 53. mínútu jafnað Rostov. Timofe Kalachev, hægri vængbakvörður Rostov, var allt í einu kominn á miðjuna. Þar fékk hann fullt af plássi og allan tímann í heiminum með boltann. Hann sá hlaup frá sóknarmanninum Aleksandr Bukharov og sendi háa sendingu innfyrir vörnina hjá Manchester United. Phil Jones hafði verið að passa Bukharov en þegar sendingin kom var eins og Phil Jones vissi ekki almennilega hvort hann ætti að nota rangstöðutaktík, fylgja leikmanninum eða kalla á Smalling að detta niður og taka manninn. Svo hann gerði ekkert af því og Bukharov slapp auðveldlega inn fyrir. Bukharov gerði þó mjög vel í því að taka boltann á brjóstkassann á ferð og ná að skjóta honum áður en hann lenti. Það væri ósanngjarnt að ætlast af Sergio Romero að hann myndi verja boltann úr þessu færi, hins vegar hefði ég viljað sjá hann gera betri tilraun til þess að gera sig allavega stærri. Hann virkaði hræddur við boltann frekar en að hann væri að reyna að verja hann. Markið skrifast þó á Phil Jones.
Fyrir utan þessi tvö mörk og ömurlegan völl þá var ekki mikið að frétta í þessum leik. Helst það að fyrirliði Rostov, miðjustálið Alexandru Gatcan, og vængbakvörðurinn öflugi Timofe Kalachev fengu báðir spjöld í leiknum sem senda þá í bann fyrir seinni leik liðanna.
Heilt yfir var þetta bara fín niðurstaða. Jafntefli og útivallarmark er gott veganesti fyrir heimaleikinn að viku liðinni. Manchester United ætti að vera töluvert betra lið en það rússneska, sérstaklega þar sem þeir verða án lykilmanna í seinni leiknum.
Í vetur hefur Manchester United verið að meðaltali með 85% heppnaðar sendingar í leik. Í þessum leik var það 61%, sem þó var skárra en 60% heppnaðra sendinga hjá heimamönnum. Í flestum leikjum hafa miðverðirnir verið með þetta 85-95% heppnaðra sendinga í leikjum. Svona var sendingahlutfallið hjá þeim í kvöld:
- Rojo: 55%
- Jones: 50%
- Smalling: 48%
Þetta er þó ekki sett fram til að gagnrýna miðverðina, þetta var einfaldlega bara afskaplega lýsandi fyrir þá knattspyrnu sem liðið neyddist til að spila á þessum velli. Það var eðlilegt að leikmenn sem vilja spila boltanum lentu í ákveðnum vandræðum við að komast inn í leikinn. Pogba var ekki góður, Herrera hefur oft verið betri og fleira slíkt. En ef leikmenn hafa einhvern tímann löglega afsökun þá var það þessi völlur.
Very blustery inside Olimp-2. Very busy outside for a huge night for @FCRostovENG – gonna be lively in here! @ManUtd pic.twitter.com/bgN5uhHgnO
— Stewart Gardner (@stewartgardner) March 9, 2017
Það má þó gagnrýna Phil Jones fyrir mistökin sem hann gerði. Þetta er annar leikurinn í röð sem hann gerir kjánaleg mistök í grunnvarnarvinnu sem leiðir til jöfnunarmarks í leik sem Manchester United hefur tök á. Með réttu hefðu báðir þeir leikir átt að vinnast miðað við stöðuna sem Manchester United var komið í. Í að minnsta hefðu Bournemouth og Rostov átt að þurfa að hafa mun meira fyrir mörkunum.
Það er ákveðið áhyggjuefni að sjá þessi mistök hjá Phil Jones. Hann var búinn að koma flottur inn í liðið eftir meiðsli núna í haust og hann er heilt yfir góður varnarmaður. Vonandi nær hann að loka á svona mistök í framtíðinni.
Þeir sem komust hvað best út úr þessum leik voru Fellaini, Rojo og Mkhitaryan. Og það má setja plús á Mourinho fyrir það hvernig hann lagði leikinn upp. Taktíkin var fín miðað við aðstæður, mark Manchester United var afleiðing af því hvernig Mourinho lagði leikskipulagið upp en markið sem Rostov skoraði var eitthvað sem Mourinho gat ekki komið í veg fyrir.
Næsti leikur er gegn Chelsea í bikarnum. Einhvers staðar á Twitter sá ég þeirri kenningu kastað fram að mögulega hefði Mourinho ákveðið að prufukeyra þriggja manna vörn með það í huga að spila þannig gegn Chelsea í tilraun til að finna lausn á spilamennsku Chelsea í 3-4-3 uppstillingu þeirra. Ég veit ekki hversu líklegt það er en hins vegar er afskaplega lítið af þessum leik að læra varðandi það hversu vel Manchester United gæti notað 3-5-2/3-4-3 gegn Chelsea. Ég held samt að Mourinho hafi valið þessa uppstillingu fyrst og fremst út af vallaraðstæðum. En það kemur betur í ljós á mánudaginn.
Twitterið
An example of #Respect tonight. Rostov fans giving out blankets to the visiting supporters at the entrance of ManUtd stand 👏👏👏#UEL pic.twitter.com/hmhVzHWayo
— Eugene Ravdin (@UEFAcomEugeneR) March 9, 2017
MUFC playing with back 3 tonight. Meaning they can go longer on the horrendous pitch and have more players in midfield to support long ball
— Danny Higginbotham (@Higginbotham05) March 9, 2017
This game was made for Marouane Fellaini. He is so good at creating chances from scrappy play. Doing really well balancing the midfield.
— Liam Canning (@LiamPaulCanning) March 9, 2017
That is some bounce… 😵 pic.twitter.com/S0jJ6ffPkJ
— Tom McDermott (@footballmcd) March 9, 2017
Sergio Romero has conceded for the first time in 413 minutes of Europa League football.
Game back on. pic.twitter.com/tU8B8qhRPh
— Squawka Football (@Squawka) March 9, 2017
The #MUFC manager explains his tactical tweak to #MUTV following tonight’s game… pic.twitter.com/PgA5QPJz36
— Manchester United (@ManUtd) March 9, 2017