Manchester United sigraði Saint-Étienne með þremur mörkum gegn engu í leik sem United liðið spilaði ekki sinn besta leik á tímabilinu. Strax í byrjun leiks virkaði vörnin mjög óstýrk og Eric Bailly hefur litið betur út en hann gerði í þessum leik. United liðið sótti mikið en var mjög viðkvæmt fyrir skyndisóknum franska liðsins. Sprækastur þeirra var án efa Henri Saivet sem er á láni frá 1.deildarliði Newcastle United. Enn einu sinni var færanýtingin ekki alveg nógu góð og leit Ruffier markvörður Saint-Étienne út fyrir að vera í hærra gæðaflokki en hann raunveruleg er.
Á 15. mínútu fékk United aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig gestanna. Spyrnuna tók enginn annar en Zlatan Ibrahimovic en boltinn átti viðkomu í varnarmann og lak löturhægt í markið. Í fyrri hálfleiknum vildu leikmenn Saint-Étienne fá vítaspyrnu en ég undirritaður einfaldlega missti af atvikinu og get því ekki sagt til um hvort innistæða hafi verið fyrir tilkallinu. Annars hefur United ekki fengið dæmdar vítaspyrnur á tímabilinu þannig að ég býst ekki við að missa svefn yfir þessu. Staðan þegar flautað var til hálfleiks var 1:0 fyrir heimamönnum.
José Mourinho var augljóslega ekki ánægður með spilamennskuna í fyrri hálfleiknum og strunsaði inní klefa á 44.mínútu. Í leikhléi gerði hann eina breytingu þegar hann tók Marouane Fellaini af velli og í hans stað kom Jesse Lingard. Þessi breyting var jákvæð enda Lingard töluvert hreyfanlegri en belgíska pálmatréið. Þrátt fyrir þetta virtist sem að United ætlaði ekki skora fleiri mörk og það gerði fólk taugaóstyrkt enda vont að fara bara með 1:0 forystu eða mögulega 1:1 jafntefli á útivöll. Svo hjálpaði ekki að dómarinn fór að spjalda United menn eins og hann fengi borgað fyrir það en alls fengu fjórir leikmenn gul spjöld í seinni hálfleiknum fyrir mismiklar sakir. Paul Pogba, Anthony Martial, Jesse Lingard og Ander Herra sem verður í leikbanni í seinni umferðinni.
Loksins á 75.mínútu jók liðið forystuna í 2:0 þegar að Zlatan skoraði líklega sitt auðveldasta mark eftir góðan undirbúning frá Marcus Rashford sem hafði komið inná skömmu áður fyrir Juan Mata. Eftir þetta mark var aðeins hægt að anda rólegar. Áfram hélt United að sækja enda væri nauðsynleg að fara með góða forystu í seinni leikinn og 3:0 myndi vera töluvert mýkri koddi. Það var svo á 88.mínútu þegar stórtíðindi ársins bárust. United fékk dæmda vítaspyrnu eftir klaufalegt brot varnarmanns Saint-Étienne á Zlatan Ibrahimovic. Auðvitað steig Svíinn sjálfur á punktinn og skoraði örugglega eftir að hafa sent markvörðinn í rangt horn. Manchester United vann leikinn 3:0 og er í frábærri stöðu fyrir seinni leikinn þar sem vonandi verður hægt að hvíla einhverja leikmenn.
Leikmenn
Sergio Romero – Heldur áfram hreinu en hann þurfti reyndar ekki að verja skot í leiknum – 7
Antonio Valencia – Ágætur þó að flestir sóknir Saint-Étienne hafi farið í gegnum hann og fyrirgjafirnar voru slakar í kvöld. – 6
Eric Bailly og Daily Blind – Voru frekar ryðgaðir í kvöld. – 5
Chris Smalling – Voru flottur í kvöld og hreinsaði oft vel. – 8
Juan Mata – Spænski sjentilmaðurinn var flottur í kvöld og óheppinn að hafa ekki náð að skora í fyrri hálfleik. – 7
Maroune Fellaini – Gerði ekki mikið í fyrri hálfleiknum annað en að skora rangstöðumark. – 5
Ander Herrera – Var fínn í kvöld að venju og óheppinn að fá spjald og bann. Það þýðir að hann mun sennilega spila báða bikarleikina. – 8
Paul Pogba – Var flottur í kvöld og virkar alltaf eins og hann þurfi svo lítið að hafa fyrir hlutunum. – 8
Anthony Martial – Átti stórleik í kvöld og átti skilið að skora amk eitt mark í leiknum. – 9
Zlatan Ibrahimovic – Skorar þrennu í leiknum. Er núna búinn að skora 17 mörk í 14 leikjum gegn Saint-Étienne. – 9
Liðið sem byrjaði leikinn:
Bekkur: De Gea, Darmian, Rojo, Schweinsteiger, Lingard, Young, Rashford.