Lið United var eins og ég spáði í gær, bæði Zlatan og Marcos Rojo leikfærir. Lið Liverpool var ekki eins heppið. Matip var ekki með þar sem leikheimild frá FIFA vegna fjarveru hans frá Afríkukeppninni lá ekki fyrir, Coutinho var ekki orðinn nógu góður nema til að vera á bekknum og Clyne meiddist á æfingu í gær. Trent Alexander-Arnold er 18 ára leikmaður sem Wikipedia segir miðjumann en spilaði í hægri bakverðinum móti Plymouth um síðustu helgi með hinum unglingunum og var í sama hlutverki í dag.
Varamenn United voru Sergio Romero, Blind, Smalling, Fellaini, Mata, Rooney, Rashford
Fyrstu mínútur leiksins voru varfærnar, United aðeins meira með boltann en lítið sem varð úr því enda pressaði Liverpool vel á. Fyrsta virkilega færið féll í hlut Paul Pogba, hann fékk sendingu frá Mkhitaryan og skaut frá teig undir pressu varnarmann og boltinn fór rétt framhjá.
United var að vinna aðeins á og höfðu sínn eigin vinnuhest í Herrera sem var í pressuvinnunni og vann meðal annars boltann sem leiddi til fyrrnefnds færis Pogba.
Liverpool átti að gera mun betur þegar Firmino hreinlega hirti boltann af Phil Jones en Marcos Rojo var vel á verði og nikkaði boltanum í horn. En það var ekki björgun því úr horninu var Paul Pogba alveg úti að aka og fékk boltann í útréttar hendurnar. Víti staðreynd og James Milner skoraði örugglega á 27. mínútur.
United setti í sókn, vann aukaspyrnu, síðan horn og úr því varð aukaspyrna fyrir brot á Herrera í vítateigshálfhringnum. Zlatan tók aukaspyrnuna en Mignolet varði hana mjög vel í horn sem ekkert varð úr.
Besta færi United í fyrri hálfleiknum kom svo á 40. mínútu þegar Mkhitaryan fékk stungusendingu en Mignolet varði mjög vel. Klavan hafði misst af Mkhitaryan en náði honum og tókst að trufla hann í skotinu.
Þetta var verulega slakur hálfleikur hjá United. Hápressa Liverpool setti þá alveg útaf laginu og var oft nálægt því að koma United í vanda ekki ólíkt því þegar Jones missti boltann sem gaf á endanum markið.
Paul Pogba var alveg á hælunum í fyrri hálfleik. Það var eins og hann hefði aldrei dekkað mann í hornum, var alveg týndur í fyrstu tveimur og gaf svo vítið þegar hann átti að vera að skalla boltann.
Miðja Liverpool vann miðjubaráttuna algerlega. Herrera vann nokkuð vel en Carrick sást ekki og Pogba var áhrifalaus.
Wayne Rooney kom inná Michael Carrick í hálfleik. Rooney fór í tíustöðuna og Herrera og Pogba fyrir aftan.
Þetta leiddi til sókndjarfara liðs og þeir áttu að skora á 54. mínútu. Martial tók boltann af Alexander-Arnold, gaf fram á Zlatan sem sendi yfir á Mkhitaryan á auðum sjó, hann fór inn í teig en gaf fyrir og Martial gat ekki náð því. Ekki nógu vel unnið úr góðri sókn.
Þetta var eitt af fáum skiptum sem Martial hafði haft betur á kantinum, en það var aðallega af því að Liverpool lét Alexander-Arnold aldrei einan um varnarvinnuna gegn honum.
Á 60. mínútu kom Coutinho inn fyrir Origi og lét strax að sér kveða, gaf inn á Firmino en De Gea varði firnavel. Besta færi Liverpool í langan tíma.
Mata hafði verið að búa sig undir að koma inná í nokkrar mínútur og kom loksins inn fyrir Martial. Liverpool var þarna nokkuð ákveðnara og De Gea þurfti aftur að verja frá Lallana.
Rooney stimplaði sig síðan rækilega inn, á ökklann á Milner reyndar. Heppinn að sleppa við spjald og jafnvel rautt.
Síðansat skiptingin var síðan ekki eitthvað sem við vildum sjá. Fellaini kom inná fyrir Darmian þegar við hefðum líklega frekar sjá Rashford koma inn.
Loksins kom skot á mark frá United á 83. mínútu, það var Rooney en Mignolet varði alveg þokkalega. Stuttu seynna kom stíf sókn United, sending kom þvert fyrir teiginn og endaði hjá Rooney, hann lék upp og gaf fyrir, Fellaini skallaði aftur fyrir sig og í stöng, Valencia hirti boltann, gaf fyrir og þar var Zlatan og skallaði inn. Loksins loksins. Rio Ferdinand sýnir hér hvernig venjulegur United stuðningsmaður brást við
https://twitter.com/DuncanCastles/status/820695769380507649
Liverpool sótti ákaft síðustu mínúturnar og Wijnaldum átti ágætis færi sem hann gerði ekkert annað en að skjóta beint á De Gea úr. Síðasta sókn leiksins var United en ekkert varð úr henni og jafntefli varð raunin. Það var sanngjarnt þegar litið er á leikinn allan en Liverpool hlýtur að líta á þetta sem töpuð stig.
Þetta var afskaplega erfiður leikur að horfa á. Pressa Liverpool allan leikinn gaf þeim yfirhöndina og eftir að Coutinho kom inná áttu þeir færi sem hefðu átt að nægja þeim til að klára leikinn. En með miklum erfiðismunum náði United markinu sem til þurfti til að hanga á stigi og komast aðeins nær liðunum fyrir ofan sem unnu í gær og nú aðeins tveim stigum frá City eftir tap þeirra fyrir Everton.
Skiptingarnar verða líklega það sem stuðningsmenn verða mest ósáttir við. Það var alltaf ljóst að Mata þyrfti að koma inná til að styrja miðjuna og spilið en að setja Rooney inná var skrýtin ákvörðun og skilaði alls ekki því sem hefði átt að gera, þó hann hefði átt mikinn þátt i markinu.
Að setja Fellaini inná var ekki vinsæl ákvörðun en vissulega vann hann inn fyrir kaupinu sínu. Mourinho verður samt að finna einhverja beittari leið að sigri en að nota Fellaini.
Vörnin var ekki sterk. Í fyrri hálfleik voru Jones og Rojo viðkvæmir fyrir pressunni og í þeim seinni var Coutinho beittur og Liverpool spiluðu sig gegnum þá, enda var þá minni hlífð í miðjunni.
Bestur í leiknum var líklega Ander Herrera sem var sívinnandi á miðjunni en slakastur var jafnframt Paul Pogba sem átti líklega sinn slakasta leik fyrir United. Hann hefði sannarlega átt skilið að vera skipt útaf.
https://twitter.com/statmandave/status/820693939963461632
En á endanum var það stórstjarnan sem bjargaði, Zlatan Ibrahimovic.
Framundan eru leikir í deild gegn Stoke, Hull, Leicester og Watford áður en við förum á Etihad til að mæta City. Að taka 12 stig úr þeim leikjum er nauðsynlegt til að halda okkur í baráttunni.
https://twitter.com/OptaJoe/status/820690895171440640