Manchester United byrjaði 2017 eins og það endaði 2016, með sigri. Það má eflaust tala um þægilegan 2-0 sigur enda var liðið manni fleiri í 75 mínútur. Samt sem áður þurfti David De Gea að taka nokkrum sinnum á honum stóra sínum. Juan Mata og Zlatan Ibrahimovic skoruðu mörkin í dag þar sem Mike Dean ákvað samt að stela fyrirsögnunum.
Byrjunarliðið kom mögulega á óvart en Anthony Martial var bekkjaður eftir frábæra frammistöðu í síðasta leik. Hins vegar er hann í litlu sem engu leikformi og því hefur José Mourinho ákveðið að setja hann á bekkinn. Í hans stað kom Jesse Lingard í byrjunarliðið en hann heillaði því miður lítið í dag. Byrjunarliðið var eftirfarandi:
Bekkur: Romero, Smalling (64), Fellaini, Young, Mata (45), Martial og Rashford(57).
Byrjunarlið West Ham er: Randolph, Nordtveit, Reid, Ogbonna, Cresswell, Kouyate, Obiang, Feghouli, Lanzini, Payet og Antonio.
Leikurinn
Fyrstu 10 mínútur leiksins voru mjög rólegar og nokkuð ljóst að bæði lið voru að spila fyrir ekki svo löngu síðan.
Á 15. mínútu leiksins gerðist svo það atvik sem mun stela fyrirsögnunum. Þá lenda Sofiane Feghouli og Phil Jones saman eftir að reyna báðir að tækla boltann. Feghouli er hins vegar of seinn og lendir af fullum krafti inn í Jones sem hafði náð boltanum. Groddaraleg tækling en ég, eins og flestir, bjóst við því að sjá gult spjald. Mike Dean ákvað hins vegar að splæsa í rautt.
Hafandi séð leikmenn á borð við Claudio Bravo og David Luiz sleppa eftir töluvert verri tæklingar þá bjóst maður alls ekki við rauða spjaldinu þarna en Mike Dean er og verður alltaf Mike Dean og ákvað því að henda Feghouli í bað. West Ham höfðu verið varnarsinnaðir fyrsta korterið og var það að fara versna til muna.
Eina almennilega færi United kom þegar það voru 10 mínútur eftir af fyrri hálfleik. Þá átti Darren Randolph hreint ótrúlega markvörslu þegar hann blakaði skoti Antonio Valencia af markteig út úr markinu. Það sem var í raun ennþá ótrúlegra var það að Jesse Lingard tókst að skófla frákastinu í stöngina þrátt fyrir að vera nánast inn í markinu þegar boltinn barst til hans.
Lingard til varnar þá barst boltinn mjög óvænt til hans og í raun náði hann ekki að gera neitt nema rétt snúa vinstri fætinum áður en boltinn skaust í hann. Að því sögðu þá var þetta samt sem áður ótrúlegt klúður. Undir lok hálfleiksins átti Manuel Lanzini mjög gott skot sem De Gea varði vel. Var varslan mjög svipuð og hjá De Gea gegn Liverpool fyrr í vetur.
Staðan var því markalaus þegar gengið var til búningsherbergja.
Mourinho ákvað að auka sóknarþunga sinna manna strax í leikhléi en Matteo Darmian, sem hafði átt allt í lagi leik í vinstri bakverðinum, kom útaf fyrir Juan Mata. Það þýddi að Marcos Rojo færðist yfir í vinstri bakvörðinn og Michael Carrick droppaði niður í hafsent. Mjög rökrétt skipting en United var meira og minna með boltann allan fyrri hálfleik.
Þrátt fyrir skiptinguna þá gerðist lítið sem ekkert fyrsta korterið í seinni hálfleik. Það var ekki fyrr en Marcus Rashford kom inná fyrir áðurnefndan Lingard sem hlutirnir fóru að gerast. Fyrst fékk Michael Antonio algjört dauðafæri fyrir West Ham þegar hann slapp einn í gegn en sem betur fer er hann betri að klára færi með höfðinu en fótunum og varði De Gea vel frá honum.
Strax í næstu sókn komst Manchester United yfir. Rashford óð upp vinstri vænginn áður en hann tékkaði til baka og lagði boltann út í teiginn á Mata sem kom aðsvífandi og flengdi boltanum í netið. Staðan orðin 0-1 og um leið var Chris Smalling tilbúinn að koma inná fyrir Henrikh Mkhitaryan.
Stuttu síðar átti Rashford svipaðan sprett en í þetta skiptið skaut Paul Pogba framhjá. Rashford hélt svo áfram að láta til sín taka en hann átti skot sem Randolph missti undir sig en því miður fór boltinn í stöngina en ekki yfir línuna.
Zlatan Ibrahimovic gerði svo endanlega út um leikinn þegar það voru rúmar 10 mínútur eftir en varnarmaður West Ham hreinsaði boltann í Ander Herrera sem barst þaðan til Zlatan sem flengdi boltanum í netið. Mögulega var Zlatan aðeins fyrir innan þegar boltinn barst til hans en eftir að það var tekið mark af honum á laugardaginn þá var honum, og eflaust öllum stuðningsmönnum Manchester United, alveg sama.
Eftir annað markið var leiknum í raun lokið og ógnaði hvorugt lið af neinu viti síðustu mínúturnar.
Punktar
- Liðið var mjög lengi að finna lausnina á þéttum varnarmúr West Ham. Ákveðin líkindi voru með leiknum í dag og mörgum leikjum liðsins í fyrra.
- Það var ljóst að bæði lið spiluðu fyrir stuttu síðan en leikur beggja var þungur og stirður. Skiptingar United breyttu þó miklu enda ferskir fætur sem komu þar inná. Sérstaklega breytti Rashford miklu með hraða sínum.
- United hefur núna unnið sjö leiki í röð og er hægt og bítandi að vinna á liðin fyrir ofan sig sem eru þó lítið í því að tapa stigum.
- Zlatan Ibrahimovic heldur áfram þar sem frá var horfið. Maðurinn skorar og skorar ásamt því að koma sér í fjöldan allan af færum og leggur meira að segja upp inná milli. Stórkostlegur leikmaður.
- United hélt hreinu í fyrsta skipti í langan tíma og má þakka David De Gea fyrir það en hann varði vel frá Lanzini og Antonio í dag.
- Liðið fær nú góða hvíld og verður áhugavert að sjá byrjunarliðið í FA bikarnum á laugardaginn.
Næsti leikur er í hádeginu á laugardaginn en þá mætir Jaap Stam með lærisveina sína í Reading á Old Trafford í þriðju umferð FA bikarsins. Næsti deildarleikur er svo 15. janúar gegn Liverpool á Old Trafford!