Það verður seint sagt að endurkomu David Moyes á Old Trafford hafi verið beðið eftir með mikilli eftirvæntingu. Flestir vilja sjálfsagt gleyma því að hann hafi nokkurn tímann stýrt Manchester United. En hann hefur það víst á ferilskránni og var mættur á sinn gamla heimavöll í dag með John O’Shea og félaga í Sunderland. Gamli squadplayerkóngurinn O’Shea var þó á bekknum í dag. Byrjunarlið Manchester United í leiknum var á þessa leið:
Varamenn: Romero, Darmian, Smalling, Fellaini, Mkhitaryan, Martial, Rashford
Lið Sunderland var þannig skipað:
Varamenn: Mannone, Love, Asoro, O’Shea, Khazri, Embleton, Honeyman
Leikurinn
Það kom lítið á óvart hvernig leikurinn spilaðist til að byrja með. Manchester United var mun meira með boltann en Sunderland lá til baka og freistaði þess að ná snöggum sóknum.
Eftir fyrstu 20 mínúturnar voru liðin með álíka margar marktilraunir en Sunderland þó með fleiri á rammann. Sunderland fékk hættuleg færi um miðjan hálfleikinn en United endaði hálfleikinn betur, sótti töluvert og lét vaða á markið. Sérstaklega var Paul Pogba duglegur í sókninni, hann virtist staðráðinn í að skora í leiknum.
Reyndar hefði Manchester United getað fengið vítaspyrnu eftir u.þ.b. 20 mínútna leik er Juan Mata var straujaður niður þegar hann var við það að komast einn í gegn. En Manchester United hefur aðeins fengið eitt víti í deildinni í vetur og þau virðast ekki ætla að verða mikið fleiri, þrátt fyrir að þau hefðu nú þegar átt að verða mun fleiri.
Á 39. mínútu náði United þó að brjóta ísinn. Marcos Rojo bar boltann þá vel upp völlinn, gaf hann á Zlatan vinstra megin í teignum og hélt hlaupinu áfram inn í teiginn. Daley Blind fylgdi í humátt á eftir Rojo og tók hlaupið innan á Zlatan. Zlatan sá það betur en varnarmenn Sunderland og gaf hárfína sendingu inn í hlaupaleið Blind. Hollendingurinn tók eina snertingu með hægri þar sem hann lagði boltann fyrir skotfótinn og átti svo þéttingsfast skot meðfram jörðinni, í gegnum þvöguna í teignum og alveg út við stöng. Flott mark og vel gert hjá Rojo, Zlatan og Blind.
Manchester United fór því inn í leikhléð með verðskuldaða forystu.
Seinni hálfleikurinn hófst með látum þegar Zlatan vann boltann af harðfylgi af varnarmanni Sunderland og fann Pogba á hættulegum stað en sendingin á Frakkann var ekki nægilega góð svo hættulegt tækifæri rann út í sandinn. En þetta gaf tóninn fyrir seinni hálfleikinn.
Áfram héldu leikmenn United að skapa sér færi, sérstaklega þeir Zlatan og Pogba. En ýmist náðu þeir ekki alveg að setja boltann á rammann eða Pickford í marki Sunderland varði. Þegar tæpur hálftími var eftir af leiknum kom Henrikh Mkhitaryan inn á fyrir Jesse Lingard. Armeninn var ekki lengi að minna á sig og átti strax skot sem fór rétt framhjá marki Sunderland. Stuttu eftir það átti hann góða stungusendingu inn á Zlatan en Pickford varði mjög vel.
Juan Mata entist í 74 mínútur í þessum leik áður en hin hefðbundna Mataskipting kom. Martial kom inn á fyrir Mata og Mkhitaryan fór við það yfir á hægri kantinn. Pressa United þyngdist jafnt og þétt og ljóst að eitthvað varð undan að láta.
Það gerðist loks á 82. mínútu. Þá skilaði pressa United sér í því að Pogba vann boltann og brunaði fram völlinn. Zlatan gerði vel í að halda sér réttstæðum og fékk svo flotta stungusendingu frá Pogba og afgreiddi boltann snyrtilega í netið. Ekkert sem Pickford gat gert í þessu. Zlatan var greinilega búinn að lesa Pickford í markinu eftir markvörsluna stuttu áður. Pickford settist aftur og teygði út lappirnar en í þetta skiptið setti Zlatan boltann yfir löppina á markmanninum.
Eftir þetta velkomna annað mark tók Mourinho Herrera út af vellinum og setti Fellaini inn á. Því miður mátti enn heyra eitthvað um baul frá barnalega og óþroskaða hluta stuðningsmanna United en einhverjir brugðust við með því að syngja nafn Belgans. Flott hjá þeim.
Mkhitaryan hafði verið mjög sprækur eftir að hann kom inn á. Stuttu eftir að Fellaini kom inn á kórónaði Mkhitaryan góðan leik sinn með stórkostlegu marki. Zlatan átti þá sendingu utan af hægri kantinum inn á Mkhitaryan sem var kominn einn í gegn. Sendingin kom fyrir aftan Mkhitaryan sem tók þá bara hælspyrnu á lofti og stýrði boltanum þannig í markhornið fjær. Með flottari mörkum ársins. Hann var að vísu rangstæður í markinu en aðstoðardómarinn tímdi ekki að flagga svona flott mark af svo það stóð.
Leikurinn var löngu búinn en Sunderland náði aðeins að klóra í bakkann í uppbótartíma þegar Borini slummaði tuðrunni upp í skeytin. Algjör óþarfi að fá á sig þetta mark, það hefði verið sterkur leikur að halda hreinu og bæta markatöluna. En það var í sjálfu sér lítið hægt að gera við þessu, einfaldlega þrusuvel gert hjá Borini.
Sigur staðreynd, 3-1 fyrir Manchester United. 11 leikir án taps og 5 sigurleikir í röð. Þetta gleður.
Umræðupunktar
Minn maður leiksins í þessum leik er Paul Pogba. Hann var allt í öllu, alls staðar á vellinum. Það sást langar leiðir að hann ætlaði sér að skora í þessum leik, hann ætlaði sér að leiða liðið til sigurs. Honum tókst ekki að skora sjálfum en hann lagði upp mark og leiddi liðið svo sannarlega til sigurs.
Það sem þessi maður er góður í fótbolta. Og samt á hann ennþá fullt inni. Það er líka enginn efi í mínum huga um að við munum sjá Pogba bera fyrirliðabandið hjá United í ekki svo fjarlægri framtíð.
Zlatan var líka góður í þessum leik. Það er oft talað um að hann sé að klúðra mikið af færum. Hann átti 4 marktilraunir í þessum leik. Fyrsta tilraunin fór ekki á rammann. Tilraun númer 2 var mjög vel varin af Pickford. Tilraun númer 3 var mark. Fjórða tilraunin var svo alveg í lok leiksins, hana varði Pickford. Svo þetta er nú engin hræðileg tölfræði hjá Zlatan. Auk þessara marktækifæra þá bjó hann til 5 færi fyrir samherja og átti 2 stoðsendingar.
Með þessu marki er Zlatan kominn með 50 deildarmörk á árinu. Búinn á því? Ekki aldeilis!
Sem mikill stuðningsmaður Daley Blind þá fannst mér gaman að sjá hann fá tækifærið í liðinu. Hann átti fínan leik og skoraði mjög gott mark. Kollegi hans hægra megin átti þó betri dag, var mikið í boltanum, þaut upp og niður eftir hægri vængnum og varðist vel.
Henrikh Mkhitaryan! Hvað er hægt að segja eftir svona mark? Og bara þessa innkomu. Að vera að fá hann inn, í þessu stuði, á þessum tímapunkti leiktíðarinnar, er frábært. Lofar virkilega góðu.
Twitterhornið
Mourinho, Moyes, Giggs, Ferguson and Atkinson all at Old Trafford today. Five of last six United managers. Just need LVG to turn up.
— Rob Dawson (@RobDawsonMEN) December 26, 2016
Ryan Giggs also just arrived in the directors’ box and shook hands with an awestruck Bailly. #mufc
— Samuel Luckhurst (@samuelluckhurst) December 26, 2016
— Wicky (@Wicknes007) December 26, 2016
Credit to Rojo for the goal. Was the man who brought the ball forward and played it into Ibrahimovic inside the area, creating space. #mufc
— Samuel Luckhurst (@samuelluckhurst) December 26, 2016
Pogba er sturlaður leikmaður. Ekki reyna að segja mér annað. Á samt sem áður ennþá fullt inni. Hlakka til.
— Haukur Eyþórsson (@Haukur29) December 26, 2016
This is how I feel when I manage to put both contact lenses in without one falling or going inside out on my finger pic.twitter.com/BcSu6bmQDZ
— Nooruddean (@BeardedGenius) December 26, 2016
Manchester United’s top scorer last season was Martial with 17.
Top scorer this season is Ibra with 17. And it’s Christmas.
— Alex Shaw (@AlexShawESPN) December 26, 2016
Moyes elskar að tapa á Old Trafford.
— Birkir (@BirkirGudmundar) December 26, 2016
United have won 19 Premier League games on Boxing Day – no other team has more than 12 victories. pic.twitter.com/7Z9e5PNYHr
— SemperFiUnited (@SemperFiUnited) December 26, 2016
A rare victory at Old Trafford for Manchester United with David Moyes in the dugout.
— Gary Lineker (@GaryLineker) December 26, 2016