Það hefur ekki gengið vel hjá United á Goodison Park síðustu árin, sigur vannst 2011 og síðan ekki aftur fyrr en prýðilegur 3-0 sigur vannst síðasta vetur. Að auki vann United Everton á heimavelli og síðan á Wembley í vor í undanúrslitum bikarsins þannig að síðasta ár var ágætt.
Það er meira en hægt er að segja um gengi United í deildinni í síðustu leikjum. Í síðustu sjö leikjum hefur liðið gert fimm jafntefli, unnið einn leik og tapað einum. Af liðunum í efri helmingnum hefur aðeins einu liði gengið ver: Everton. Þeir hafa aðeins unnið einn af síðustu átta, og tapað fjórum og það er farið að fara um Ronald Koeman stjóra liðsins.
Ólíkt United hefur Everton hins vegar ekki verið að leika í öðrum keppnum og hefur því ekki sigra þar til að hugga sig við.
En það er einmitt gott gengi í deildarbikarnum og Evrópudeildinni sem United þarf að fara að taka yfir í deildarleikina. Það er alltaf hægt að benda á Michael Carrick og ótrúlegt sigurhlutfall hans í vetur, en liðið verður bara að sýna að þessi fína spilamennska framávið sem sást á fimmtudaginn sé ekki bara honum að þakka.
Það verður spennandi að sjá hvort José skiptir inn á frá því á fimmtudaginn eða hvort það verður liðið frá sunnudeginum síðasta sem verður uppistaðan í byrjunarliðinu á morgun
Luke Shaw meiddist á fimmtudaginn og óljóst er hvort hann verður klár. því ætla ég að spá þremur breytingum frá West Ham leiknum um síðustu helgi. Henrikh Mkhitaryan hlýtur að byrja og sömuleiðis Anthony Martial eftir góða frammistöðu þeirra á fimmtudaginn. Juan Mata kemur í staðinn fyrir Rooney sem er í banni. Það er freistandi að gera Mourinho þá hugsun að setja Fellaini gegn sínu gamla liði, en Mata hlýtur að vera betri kostur. Innkoma Fellaini af bekknum er hins vegar nokkuð vís.
Eitt af því sem verið hefur hvíslað síðan á leikmum á fimmtudaginn er hvort að hraður leikur United þá hafi verið því að þakka að Paul Pogba hafi ekki verið í liðinu. Þá vill fólk meina að spil hans sé of hægt og hægi of á leik United. Það er löngu ljóst að hann er ekki sá sem er hlaupandi út um allan völl að sækja boltann en ég ætla ekki að taka undir þá skoðun, í það minnsta ekki strax. En Pogba verður í byrjunarliði á morgun og þetta er þá eitthvað til að líta eftir.
Everton byrjaði tímabilið vel og er því í þeirri stöðu þrátt fyrir slakt gengi undanfarið að sigur mun lyfta liðinu yfir United í töflunni. Liðinu sem er spáð til þess er svona:
Vörnin er kunnugleg þó að Ashley Williams hafi bæst við í sumar. Á miðjunni kom Idrissa Gueye frá Villa til að spila við hliðina á Gareth Barry og framlína er sömuleiðis vel þekkt. Þrátt fyrir að vera iðinn markaskorari þá hefur Romelu Lukaku ekki enn skorað fyrir Everton á móti United og vonandi að hann fari ekki að taka upp á því á morgun. Það verður ágætis verkefni fyrir Rojo og Jones að sýna að góð frammistaða þeirra undanfarið sé ekki tilviljun. Það er laust sæti fyrir einn varnarmann við hliðinni á Bailly þegar hann kemur til baka, og eins og staðan er núna lítur út fyrir að Jones sé að vinna þá keppni. Sem þýðir væntanlega að hann tognar á morgun.
Þetta verður enn einn leikurinn þar sem við stuðningsfólkið vonumst eftir því að leikmenn fari að gera í deildinni þar sem þeir hafa verið að gera í bikarkeppnunum, yfirspila mótherjana OG skora mörkin sem hefur vantað svo sárlega í deildarleikjum.
https://twitter.com/robdawsonmen/status/804971037616181249
Það hlýtur að koma að því, það sjá öll sem horft hafa á síðustu leiki. Leikur liðsins hefur verið stórskemmtilegur oft á tíðum, og þó einhver ykkar kunni að líta á þessi ummæli José Mourinho á fréttamannafundi í gær sem tilraun til að draga úr vonbrigðum með úrslitin undanfarið þá ætla ég að horfa bjartari augum á þau og segja: Já það er allt annað að horfa á United í vetur en síðustu tvö ár og ef þetta þýðir aðlögunartímabil og hugsanlegt fimmta sæti eða ver, svo fremi sem það endar með titli með flottri spilamennsku, þá ætla ég að segja já takk!
En ég ætla heldur ekki að hafa áhyggjur af því að það taki of langan tíma að finna markið. Meðan spilamennskan helst svona fín, þá koma mörkin. Ég hef því ákveðið að vera fullur bjartsýni og spá öðrum 3-0 sigri í leiknum sem byrjar kl 16:00 á morgun