Eftir ansi strembna törn í október byrjaði nóvember á heimsókn út fyrir England þar sem Manchester United var afskaplega ósannfærandi og tapaði sanngjarnt. Bæði fjölmiðlar og notendur samfélagsmiðla kepptust við að deila því að Manchester United kann ekki vel við að yfirgefa England þessa dagana. Útileikir í öðrum löndum eru oftast ströggl. Í Evrópukeppnum hefur United ekki unnið útileik í alvöru Evrópukeppni síðan í nóvember 2013. Við erum að tala um 9 leiki í Evrópudeildinni og Meistaradeild Evrópu síðan þá, á útivelli, án sigurs. Fyrir utan reyndar 4-0 sigurinn á Club Brugge í Belgíu í ágúst 2015. En það var auðvitað bara umspilsleikur.
Og nú þarf United aftur að yfirgefa England til að spila knattspyrnuleik. Reyndar er það ekki langt í þetta skiptið, það er bara yfir til Wales til að spila deildarleik við lánlaust lið Gylfa og félaga í Swansea City. En samt!
Lítið stuð í Swansea
Manchester United hefur tvisvar sinnum náð að vinna Swansea í Wales á síðustu 5 árum. En það eru hins vegar einu 2 sigar United á Swansea í Wales í sögunni. Liðin hafa mæst 13 sinnum á heimavelli Swansea, United hefur unnið 2 leiki en Swansea unnið 8, 3 hafa endað með jafntefli. Swansea hefur unnið síðustu 2 heimaleiki og United aðeins 1 af síðustu 4. Það eru alveg útivellir í deildinni sem United finnst mun skemmtilegra að heimsækja.
Swansea er þó vægast sagt í ruglinu þessa dagana. Liðið er í næst neðsta sæti deildarinnar með 5 stig eftir 10 leiki. Eftir góðan sigur í fyrstu umferð hefur liðið aðeins náð 2 jafnteflum í síðustu 9 leikjum en tapað 7 leikjum. Sigurinn kom að vísu á útivelli, gegn Burnley, en báðir jafnteflisleikirnir hafa komið á heimavelli, gegn Chelsea og Watford.
Markahæsti leikmaður Swansea í deildinni er Hollendingurinn Leroy Fer. Hann hefur skorað 4 mörk í 10 leikjum. Hann hefur m.a. skorað gegn bæði Leicester, Chelsea og Liverpool auk þess að skora eina markið í eina sigurleik liðsins í deildinni í vetur. Á eftir honum kemur Gylfi Sigurðsson með 2 mörk. Gylfi hefur skorað gegn Chelsea og Arsenal í deildinni auk þess að hafa skorað gegn Manchester City í vetur. Þá er Gylfi stoðsendingahæsti leikmaður liðsins, reyndar ásamt Modou Barrow, með 2 stoðsendingar.
Swansea var fyrsta liðið í úrvalsdeildinni þetta tímabilið til að reka knattspyrnustjórann sinn. Það gerðu þeir 3. október þegar þeir létu ítalska stjórann Francesco Guidolin fara. Guidolin átti einmitt afmæli 3. október, Swansea var ekkert að raða inn karmastigunum með þeim gjörningi. Félagið réð í staðinn bandaríska knattspyrnustjórann Bob Bradley. Liðið hefur spilað 3 deildarleiki frá þessum stjóraskiptum, tapaði gegn Arsenal (2-3) og Stoke City (1-3) en gerði markalaust jafntefli við Watford.
Lítið fjör hjá Manchester United
Töluvert andleysi virðist hrjá lið Manchester United þessa dagana. Úrslitin hafa verið nokkuð í takt við það, einstaka góð úrslit en fleiri úrslit sem hafa verið léleg og leiðinleg. United hefur spilað 7 leiki frá byrjun október, af þeim hefur liðið unnið 2, tapað 2 og gert 3 jafntefli.
United og útivellirnir
Manchester United byrjaði tímabilið í ágúst á að vinna tvo útileiki, gegn Bournemouth og Hull. Bournemouth sigurinn var þægilegur og góður en sigurinn á Hull var afar torsóttur og vannst með marki á lokamínútunum.
Síðan þá hefur United spilað 6 útileiki og aðeins unnið einn þeirra. Eini sigurleikurinn kom gegn Northampton Town í deildarbikarnum. Northampton Town spilar í League One, það er þriðja deildin á Englandi. Þeir eru m.a.s. nýliðar í þeirri deild. Samt náðu þeir að jafna leikinn gegn United.
United tapaði illa gegn Chelsea á Stamford Bridge en hefur auk þess tapað útileikjum gegn Feyenoord, Watford og Fenerbahce upp á síðkastið. Fjórir tapleikir af síðustu 6 útileikjum. Það er ekki nógu gott!
Staðan á hópnum
Jose Mourinho mun ekki stýra þessum leik af hliðarlínunni þar sem hann tekur út leikbann eftir að hafa verið rekinn upp í stúku í hálfleik í síðasta leik.
Ander Herrera hefur verið einn af björtustu punktum liðsins síðustu vikur, hann mun missa af þessum leik vegna þess að hann var ranglega rekinn af velli í markalausa jafnteflinu gegn Burnley um síðustu helgi.
Eric Bailly og Antionio Valencia eru meiddir. Munar mikið um þá, þeir hafa verið öflugir í vörn Manchester United það sem af er tímabili. Paul Pogba haltraði af velli í Tyrklandi og er óvíst hvort hann nái þessum leik. Phil Jones er byrjaður að æfa aftur en er tæpur að ná þessum leik vegna leikforms. Chris Smalling er talinn tæpur líka en hann hefur ekkert spilað síðan hann leit hrikalega illa út í leiknum gegn Chelsea. Það er spurning hvort það sé vegna meiðsla eða hvort sú frammistaða hafi kostað hann sæti í liðinu.
Miðað við allt þá tel ég að byrjunarliðið gæti litið einhvern veginn svona út:
Kannski verður þetta deildarleikurinn þar sem Zlatan missir sætið sitt. Sífellt fleiri stuðningsmenn United hafa verið að kalla eftir því síðustu daga og vikur þar sem hann virðist hafa misst mojo-ið sitt fyrir framan markið. Hann er vissulega að koma sér í færin og skapa helling en virðist ekki geta keypt sér mark þessa dagana. Ef hann missir sæti sitt þá nær vonandi Rashford eða Martial að nýta tækifærið í fremstu víglínunni vel. En ef Zlatan heldur hins vegar sætinu þá er Fabianski allavega enginn Tom Heaton.
Leikurinn hefst klukkan 15:00 á morgun.