Það tók ekki langan tíma fyrir Chelsea að slá tóninn fyrir þessi harmkvæli sem við þurftum að þola í dag, þeir skoruðu eftir aðeins þrjátíu sekúndur. Marcos Alonso gaf langa sendingu utan af kanti, framhjá Smalling og Pedro hristi Blind af sér og stakk hann af, renndi sér framhjá úthlaupi De Gea og skoraði auðveldlega. Hrikalega slæmur varnarleikur þarna bæði hjá Smalling sem hefði átt að geta komist inn í sendinguna og hjá Blind sem var alltof hægur.
Þetta gerði það auðvitað að verkum að ef það einhvern tímann verið planið að spila varnarleik var sú áætlun farin út í veður og vind, og United setti í sóknina og pressaði Chelsea stíft næstu mínútur. Úr því fékk Ibrahimovic færi sem hann hefði einhvern tímann klárað, Valencia fór framhjá Alonso og upp að endamörkum, gaf fyrir en Zlatan skallaði yfir.
Þessi sóknarhrina varði ekki lengi og Chelsea komst aftur inn í leikinn. Þegar Chelsea sóti var United oft komið aftur í sömu sex manna varnarlínuna og við sáum móti Liverpool, það er greinilega lagt upp með að bakka vel þegar andstæðingurinn sækir, sérstaklega þegar kantverðirnir Alonso og Moses koma hátt upp. En þó þetta hefði verið æft, var varnarvinnan ekki nógu góð. Costa fékk sendingu inn en Bailly bjargaði í horn. Úr horninu var Hazard óvaldaður, en skaut framhjá.
Horn Chelsea á 20. mínútu bar síðan árangur. Boltinn var framlengdur á nær, og Herrera reyndi að fara í hann en gekk ekki betur en að hann setti brjóstkassann í boltann og Cahill þakkað pent fyrir og hamraði í netið. Bailly sem átti að dekka Cahill hafði búist við boltanum í stefnunni sem hann var í áður en Herrea tók sig til, og Smalling va ekki nógu fljótur að bregaðst við þegar boltinn fór framhjá honum, þannig að þetta var allt hrikalegt.
Vandamál United í vörninni héldu áfram og Chelsea fór hvað eftir annað illa með Blind. De Gea stóð samt fyrir sínu og varði það sem á markið kom.
Það hægðist aðeins á síðasta hluta hálfleiksins, David Luiz fékk gult fyrir að setja sólann í hnéð á Fellaini og var stálheppinn að það var ekki rautt, hefði ekkert verið að þeim dómi.
Síðasta atvik seinni hálfleiks var góð tækling Bailly á Costa. Mourinho var þá þegar farinn inn í klefa að undirbúa hálfleiksræðuna sem hlýtur að hafa verið grimm. Eina skiptingin var Mata fyrir Fellaini sem hafði átt sinn týpíska slaka Fellainileik, en leikskipulagið breyttist í 4-4-2 með Mata og Lingard á köntunum.
Það jókst svo á vandræðin þegar Bailly meiddist og Marcos Rojo þurfti að koma inná, sóun á skiptingu þar.
United setti samt í sóknargírinn og reyndi sitt besta til að breyta einhverju. Mata kom með betra spil inn í leikinn og Pogba var klárlega aðeins aktívari þegar hann færðist aftar.
En þetta var allt til einskis. Hazard fékk sendingu inn á teiginn, beið eftir Smalling og tók hann út úr leiknum með einföldu hliðarskrefi og smellti boltanum inn út við stöng. 3-0 og allt búið.
Síðsta skiptingin kom strax, Martial inn fyrir Lingard.
Það bætti auðvitað vörnina ekkert, Kanté skoraði fjórða markið á 70. mínútu, stakk sér á milli Pogba og Smalling og skoraði auðveldlega. Hrikalegt kæruleysi hjá þeim félögum, vel gert hjá Kanté.
Leikurinn var orðinn algerlega áhugalaus þegar hér var komið sögu, United var eitthvað að sækja, Zlatan átti skot sem Courtois varði nokkuð vel en annars var þetta algerlega gagnslaust allt. Marcos Rojo af öllum mönnum átti svo langskot á síðustu mínútunni sem Courtois varði í horn og þá loksins lauk þessari hörmung.
Sigurlið Chelsea var svona
en liðið sem okkur leist þolanlega á fyrir leikinn var
Það er auðveldara að telja upp þá leikmenn þarna sem voru ekki arfaslakir en þá sem voru það. De Gea og Bailly eru þeir einu sem geta farið úr þessum leik án þess að skammast sín og það er áhyggjuefni ef Bailly er meiddur.
Smalling var víst tæpur fyrir leikinn en stóðst skoðun. Það hljóta að hafa verið mistök, hann átti þátt í öllum fjórum mörkum Chelsea. Paul Pogba þarf að setjast niður og íhuga sinn gang. Hann er alltaf á gönguhraða í leikjum, vinnur lítið og það eina sem hann gerði i dag var að fá gula spjaldið fyrir að koma svona kortéri of seint í tæklingu. Zlatan hlýtur að fara að missa sæti sitt í liðinu, framherji sem skorar ekki getur ekki spilað.
En stærsta vandamálið er hraðinn og hreyfingin á liðinu. Eins og leikirnir hafa spilast í haust eru öll lið að hlaupa United í kaf. Það væri hægt að afsaka það ef United væri að spila sín á milli eins og sá sem valdið hefur en það er auðvitað ekki. Við erum búin að sjá síðustu tímabil að liðið hefur verið fullt af hægum leikmönnum, United keypti fjóra leikmenn í sumar, Mkhitaryan spilar ekki, Zlatan er ekki hraður, Pogba er á skokkinu og Bailly er fínn. Enginn þeirra er að auka á hraðann. Þannig að kannske þarf að kaupa svona 6 leikmenn í viðbót.
Vandamálin eru svo víða í þessu liði. Nokkrir leikmenn eru ekki nógu góðir, nokkrir leikmenn eru að spila langt undir meintri getu og leikskipulagið er svo slæmt að leikmenn sem ættu að vera nógu góðir virka eins og úti á túni.
Á miðvikudaginn spilum við gegn City í deildarbikarnum. Ég hreinlega veit ekki hvað við eigum að gera í þeim leik. Spila aðalliðinu og vinna og koma betra skikki á spilið? Gefa mönnum eins og Schneiderlin séns? Ég efast a.m.k. um að José setji einhverja unglinga inn, eins og þetta lið er að spila væri það bjarnargreiði, þeir gætu ekki vænst þess að geta komið inn í lið sem er sigurvisst og öruggt um sig.