Risaslagur á mánudagskvöldi, klukkan 19:00. Erkifjendurnir í nágrannaborgunum Manchester og Liverpool. Rauðustu liðin í norðurhluta Englands. Rauðustu liðin á Englandi! Manchester United gegn Liverpool. José Mourinho gegn Jürgen Klopp. Paul Pogba gegn Jordan Henderson.
Liverpool hafa verið í fluggírnum í flestum leikjum haustsins á meðan okkar menn hafa sjaldan sýnt okkur sparihliðarnar. Síðan kom landsleikjahlé og það verður forvitnilegt að sjá hvað smá pása gerir fyrir þessi lið. Stjórarnir eru báðir miklir stemningskallar og það er ekki ólíklegt að þessi viðureign ráðist á því hvor stjórinn nær að mótivera sinn hóp betur.
Ég minni á 28. þátt Djöflavarpsins, podkasts Rauðu djöflanna. Við fórum vel yfir þennan leik og fengum Kristján Atla frá Kop.is í heimsókn til að ræða Liverpool.
Mótherjinn
Það var fyrir akkúrat ári síðan, 17. október 2015, sem Liverpool spilaði fyrsta leikinn undir stjórn Jürgen Klopp. Sá leikur var 0-0 jafntefli gegn Tottenham. Stuttu síðar kom kafli þar sem Liverpool fór á Stamford Bridge og vann þar 1-3, tapaði síðan heimaleik gegn Crystal Palace, 1-2, áður en liðið vann Manchester City á útivelli með 4 mörkum gegn 1. Þetta er nokkuð lýsandi fyrir óstöðugleikann hjá Liverpool síðustu misserin.
En í Jürgen Klopp hefur Liverpool fengið frábæran knattspyrnustjóra. Hann virðist smellpassa inn í þetta félag og það er eiginlega frekar óþolandi að Liverpool skuli hafa fengið svona skemmtilegan stjóra. Runólfur skrifaði góða grein þar sem hann stúderaði Klopp og það sem hann er að gera hjá Liverpool. Fyrir þá lesendur sem vilja kynna sér málin betur er óhætt að mæla með þeirri grein.
Staðreyndin er sú að Liverpool er núna með 3 stigum meira en Manchester United og geta með nógu stórum sigri á okkar mönnum farið í efsta sæti deildarinnar á markamun. Og þeir geta vissulega skorað mörkin. Fyrir þessa umferð var Liverpool markahæsta lið deildarinnar með Manchester City. Bæði lið höfðu skorað 18 mörk í 7 leikjum (2,57 mörk pr. leik), 5 mörkum meira en Manchester United.
En Liverpool hefur verið duglegt við að fá á sig mörk, 10 mörk í 7 leikjum. Áður en þessi umferð hófst þurfti að fara niður í 11. sæti deildarinnar til að finna annað lið sem var komið með tveggja stafa tölu af mörkum á sig (Watford með 13). Liverpool hefur ekki enn tekist að halda hreinu í deildinni, United hefur náð því tvisvar sinnum. Liverpool hefur einu sinni ekki náð að skora, í tapinu gegn Burnley. United hefur skorað í öllum sínum leikjum.
Það er því allt útlit fyrir það að við fáum mörk í þennan leik. Sem þýðir væntanlega markalaust jafntefli…
Okkar menn
Mourinho hatar ekkert að fara á Anfield og sækja 3 stig. Skiptir hann yfirleitt litlu máli þótt það þýði að leggja rútunni og nappa þessu svo, eða nýta sér þegar andstæðingurinn rennur…
Sumar byrjunarliðsstöðurnar eru alveg negldar niður fyrir þennan leik. Við vitum t.d. að De Gea mun alltaf byrja þennan leik og að Zlatan verður aðalmaðurinn á toppnum. En það eru nokkrar spurningar sem þarf að pæla í fyrir þennan leik.
Wayne Rooney
Síðast þegar Manchester United fór í heimsókn á Anfield í deildinni þá skoraði Wayne Rooney sigurmarkið í þeim leik. Wayne Rooney hefur skorað 6 mörk fyrir Manchester United gegn Liverpool, jafn mörg og Denis Law, Bryan Robson og Mark Hughes. Hann hefur spilað 21 leik gegn þeim í United-treyju, af núverandi leikmönnum United er aðeins Carrick með fleiri leiki (22). Næstur á eftir Wayne Rooney er De Gea með 13 leiki. Hann er því reynslumikill og hefur oftar en ekki spilað lykilhlutverk í þessum viðureignum.
En! Wayne Rooney síðustu mánaða hefur verið skugginn af þeim leikmanni sem hann var með Manchester United hér áður. Sífellt hefur fjölgað í þeim hópi stuðningsmanna sem hafa viljað sjá hann missa áskriftina sem hann hafði á byrjunarliðssæti. Og núna hefur það gerst, ekki bara hjá Manchester United heldur líka hjá enska landsliðinu.
Þótt það hafi kannski ekki haft merkileg áhrif hjá landsliðinu þá virðist það hafa haft áhrif á Manchester United. Það hefur losnað um Pogba og Mata blómstrar í holunni. En það þýðir samt ekki að Wayne Rooney geti ekki komið inn í þennan leik. Hann gæti það alveg. Hann er samt örugglega ekkert að fara að byrja þennan leik. Eða hvað? Nah… og þó.
Vörnin (hvað á að gera við Daley Blind?)
Valencia er að fara að starta þennan leik sem hægri bakvörður. Það þarf ekkert að pæla í því. Darmian hefur bara einfaldlega ekki verið að spila neitt að ráði og Fosu-Mensah er of ungur í stórleik eins og þennan. Valencia hefur líka verið nokkuð solid í byrjun tímabils og jafnvel átt mjög góða spretti.
Aðalpælingin varðandi varnarlínuna er hins vegar: á Daley Blind að byrja leikinn í miðverði, bakverði eða á bekknum?
Daley Blind var oft á tíðum frábær með Smalling í fyrra og náði einnig að mynda öflugt miðvarðapar með Bailly í byrjun þessa tímabils. Hann hefur einn besta fótboltaheilann í deildinni, hvað þá í liði Manchester United, og hefur sendingagetu sem er sjaldséð í öftustu línu liða.
En hann hefur sannarlega sína galla líka. Hann er hæææægur leikmaður. Og á það til að slökkva á sér, þegar hann gerir mistök þá líta þau oftar en ekki hræðilega illa út fyrir hann, samanber í leiknum gegn Manchester City.
Þegar hann er með kveikt á heilanum er hann þó alltaf mun fljótari að hugsa en hlaupa. Það hvernig hann les leikinn varð t.d. þýska landsliðinu innblástur í leið þeirra að heimsmeistaratitilinum. Það er mjög mikilvægur eiginleiki.
Síðustu leiki hefur hann verið að spila sem bakvörður. Luke Shaw er kominn aftur eftir meiðsli og veikindi. Það sem Shaw hefur umfram Blind er hraði. Og hraði er eitthvað sem sannarlega getur skipt máli þegar andstæðingurinn er Liverpool, lið sem gerir út á hraða, hlaup og læti. Hvort berstu við það með hraða eða yfirvegun, Shaw eða Blind?
Miðjan (er pláss fyrir Fellaini?)
Það er eitt sem er öruggt í öllum miðjupælingum: Paul Pogba byrjar leikinn. Annað er nokkurn veginn í lausu lofti. Vissulega hafa Herrera og Mata verið að spila vel með Pogba en er það nóg fyrir svona viðureign? Er það heppilegt gegn þessu liði sem hefur þennan spilastíl?
Marouane Fellaini. Nafn sem merkilega margir stuðningsmenn Manchester United þola ekki. Nafn sem nánast hver einasta stuðningsmanneskja Liverpool hatar af ástríðu. Fellaini kom til Manchester United 2. september 2013, daginn eftir að Manchester United tapaði leik á Anfield með marki frá Daniel Sturridge á 4. mínútu. Eftir að Fellaini kom til United hefur liðið spilað 9 leiki gegn Liverpool, Fellaini hefur spilað 7 þeirra. Fyrsti leikurinn var deildarbikarleikur í september 2013, þá spilaði Fellaini ekki. Hann hafði spilað deildarleik gegn Manchester City 3 dögum áður. Fyrir utan tilgangslausan (en mjög skemmtilegan) æfingaleik í Miami í ágúst 2014 þá hefur Fellaini spilað alla leiki gegn Liverpool síðan. Og hverja einustu mínútu í síðstu sex leikjum í röð, þar sem Manchester United hefur unnið 3, tapað 2 og gert 1 jafntefli.
Það er ástæða fyrir því að hann hefur spilað þessa leiki. Það er ástæða fyrir því að stuðningsmenn Liverpool hata Fellaini.
Það er gott að hafa Fellaini í slagsmálin, það er gott að hafa hann til að hafa alltaf einhvern til að senda á til að losa um hápressu, það er gott að hafa hann þarna til að láta litlu og fínlegu leikmenn Liverpool finna fyrir því, það getur bara verið ansi gott að hafa hann inni á vellinum. Jafnvel þótt hann sé ekki þessi flashy leikmaður.
En Mata og Herrera hafa líka alveg sýnt það að þeir geta komið á Anfield og látið Liverpool finna fyrir því. Og þeir hafa spilað nógu vel að undanförnu til að eiga skilið að byrja þennan leik.
Svo hvað verður það? Heldur Mourinho sig við 4-2-3-1 með 2 djúpa og einn í holu eða færir hann sig kannski í 4-3-3? Þurfum við Fellaini til að losa um hápressuna eða geta Pogba, Herrera, Mata og félagar einfaldlega spilað sig út úr henni?
Kantarnir
Ef það er eitthvað sem er nálægt því að vera öruggt varðandi kantana hjá United þá er það að Rashford fær væntanlega sæti í byrjunarliðinu. Hann er bara það góður, í það góðu formi, með það mikið sjálfstraust og hefur sýnt að hann getur deliverað á stórum mómentum í stórum leikjum. Hann er líka uppalinn local lad sem veit nákvæmlega hvað þessi viðureign þýðir. Hann er snöggur og áræðinn leikmaður með flottar staðsetningar þegar hann tekur hlaup inn í teiginn án bolta, hann mun geta refsað vörn Liverpool og þess vegna þarf hann að byrja þennan leik.
Martial hefur verið í lægð að undanförnu, þótt hann hafi reyndar skorað glæsilegt mark í síðasta leik. Því myndi liggja beinast við að Rashford taki hans stöðu vinstra megin. En þá er spurning um hægri kantinn.
Lingard hefur verið að spila þar. Hann er góður í því hlutverki, jafnvel þótt hann hafi átt off dag gegn Manchester City. Hann er taktískt þenkjandi og frábær í varnarvinnu, bæði hátt á vellinum og þegar hann þarf að liggja aftar. Hann er góður í því að víxla á hlutverkum, eins og hefur sést t.d. á samvinnu hans og Mata. Hann er líka mikill stemningskall.
Talandi um Mata, það væri auðvitað séns að hafa Mata þarna hægra megin. Þá stöðu þekkir hann ágætlega hjá Manchester United, hann þekkir hana m.a.s. vel á þessum tiltekna velli. Það að hafa Mata úti hægra megin í þeirri stöðu að geta leyst inn á holusvæðið myndi skapa pláss á miðjunni til að bæta Fellaini við, sleppa jafnvel holunni alveg og þétta United-miðjuna þar fyrir aftan með 3 manna línu. Það mætti jafnvel setja Pogba í eins konar holuhlutverk, með meira frjálsræði fyrir aftan tvo dýpri leikmenn sem myndu sjá um að kovera vörnina og hjálpa svo til í sókninni.
Mkhitaryan er kominn aftur til æfinga eftir meiðsli. En eftir City leikinn þá efast ég um að hann sé raunhæfur möguleiki svona stuttu eftir meiðsli. Hef þó ekki misst trú á Mikka, hlakka til að sjá hvað hann getur.
Viðureignin
Í þessum leik mætast liðið sem hleypur mest á vellinum og liðið sem hleypur minnst. Eftir 7 leiki hefur Liverpool hlaupið samtals 814,8 km en Manchester United hefur hlaupið 735,6 km.
Í hverjum leik er Liverpool því að hlaupa að meðaltali 116,4 km. Manchester United er með 105,1 km pr. leik.
Það þýðir að hver leikmaður Liverpool hefur verið að hlaupa að meðaltali 10,6 km á móti 9,6 km að meðaltali frá leikmanni Manchester United. Inni í þeirri tölfræði eru markmenn liðanna. Markmenn liða í ensku deildinni hlaupa að meðaltali 5,6 km í leik. Sé það dregið frá fer meðaltal annarra leikmanna Liverpool yfir 11 km á meðan meðaltal annarra leikmanna Manchester United nær enn ekki 10 km pr. leik.
Munurinn á milli liðanna per leik eru 11,3 km. Það er eins og einn (Liverpool)leikmaður.
Þegar kemur að sprettum (e. sprints) þá er Liverpool einnig í efsta sæti, með 4.165 spretti eftir 7 leiki eða 595 spretti pr. leik. Manchester United er reyndar ekki í neðsta sæti þar heldur 8. sæti með 3.524 spretti, 503,4 spretti pr. leik.
Munurinn á liðunum hvað það varðar er rúmlega 90 sprettir per leik. Sem þýðir að á hverri einustu mínútu í venjulegum leiktíma er Liverpool að taka aukasprett á við Manchester United.
Öll þessi hlaup skipta auðvitað ekki eins miklu máli og það að skora mörk og vinna leiki. En þarna sést vel knattspyrnuheimspeki Jürgen Klopp. Hann vill láta liðin sín hlaupa það mikið að það virkar eins og það sé með aukamann inni á vellinum. Mourinho þarf því að finna svör við því. Annað hvort með því að láta Manchester United hlaupa meira eða með því að láta öll þessi aukahlaup Liverpool tapa tilgangi sínum.
Líklegt byrjunarlið
Ætla að spá því að Blind haldi sæti sínu. Til þess er leikskilningurinn bara of mikilvægur. Og sendingargetan er mikilvæg bæði upp á að losa um hápressu og þegar kemur að föstu leikatriðunum, sem ættu að geta reynst okkar mönnum hættulegt vopn í þessum leik.
Ég er engan veginn viss með miðjuna. Mér finnst ágætlega líklegt að Fellaini byrji en þar sem þessi miðja hér að ofan hefur verið að standa sig vel þá tel ég hana líklegasta. Vel agaður Herrera á að geta gert góða hluti og Mata gæti verið lykill í að refsa Liverpool í skyndisóknum.