Eftir leikinn í gær fannst mér tilvalið að hlaupa aðeins yfir leikinn, mína skoðun á leikmannahópnum og það sem af er tímabili.
Eins og þau ykkar sem lásu upphitunina fyrir leikinn í gær tókuð eflasut eftir þá var ég sammála Mourinho með flest allar breytingarnar sem hann gerði á liðinu. Hann veit það sjálfur að það þarf að halda leikmönnum góðum og ferskum, því voru flestar breytingarnar jákvæðar, allavega fyrir leik. Þeir leikmenn sem hafa ekki fengið mínútur fengu þær núna, hvernig þeir nýttu þær er svo allt annað mál.
Ég viðurkenni að ég sá ekki leikinn en hef horft á aðalatriðin á netinu, fyrir mér er nokkuð augljóst að leikmenn vissu ekki hvernig átti að bregðast við því að vera hreinlega sparkaðir niður ítrekað allan leikinn. Skiljanlega, þar sem þeir máttu varla sýna tilfinningar inn á vellinum þegar ákveðinn Hollendingur þjálfaði liðið. Það er í svona leikjum sem þú vilt hafa tiltekinn hrokkinhærðan Belga inn á vellinum, fight fire with fire eins og segir á enskunni. Að því sögðu var spilamennskan auðvitað ekki brösug en það er varla við öðru að búast þegar sex leikmenn eru að byrja sinn fyrsta leik í vetur og fimm af þeim hafa ekki spilað staka mínútu.
Að sama skapi má tala um að 4-3-3 leikkerfi United í gær hafi misheppnast harkalega og Wayne Rooney verði að spila í 4-2-3-1 leikkerfinu sem liðið hefur spilað hingað til. Það er allt gott og blessað en fyrir mér er 4-3-3 leikkerfi það kerfi sem liðið ætti að spila og fúnkerar hvað best í þegar sterkustu ellefu leikmenn liðsins eru inn á vellinum.
Eins og ég sagði hér að ofan, með öllum þessum breytingum var nokkuð ljóst að liðið yrði mjög ryðgað. Ég er þó nokkuð viss um að Mourinho hafi ekki órað fyrir því að það yrði í raun jafn ryðgað og raun bar vitni. Aftur komum við að aggressífum leikstíl Feyenoord, ég held hreinlega að menn hafi ekki vitað hvernig átti að bregðast við.
Þrátt fyrir arfaslaka frammistöðu leikmanna þá var samt markið sem Feyenoord skoraði öskrandi rangstaða. Það er leiðinlegt að falla í þessa gryfju en núna annan leikinn í röð er United mögulega að tapa á dómaraákvörðun en mér fannst að liðið hefði átt að fá allavega eina vítaspyrnu gegn Manchester City um síðustu helgi.
Ef þessar ákvarðanir hefðu fallið með liðinu þá værum við allir að tala um að „liðið hefði nú ekki spilað vel en samt náð í úrslit og það væru alltaf einkenni meistaraliða“. Í stað þess eru menn farnir að væla um að Mourinho hafi ekki náð að breyta nægilega miklu eða bæta nægilega mikið, sem er mjög skiljanlegt enda er erfitt að umturna heilu knattspyrnufélagi á einu bretti. Nema þú sért Leicester City.
Þar af leiðandi til að svara spurningunni sem ég spurði í byrjun; Nei það er ekki allt í rugli. Gefum Mourinho tíma, hann skilar ALLTAF titli á öðru tímabili þori ég að fullyrða og venjulega skora liðin hans fullt af mörkum í leiðinni.
Að lokum þá eru hér nokkrur punktar um þá leikmenn sem höfðu ekkert spilað fyrir leikinn í gær:
Matteo Darmian: Komst ágætlega frá sínu, er ekki að fara byrja leiki virðist vera en fyrir mér ætti hann að vera varaskeifa í báða bakverðina. Ég vill halda honum en grunar að hann fari aftur til Ítalíu ef hann sér sig eingöngu sem varaskeifu hjá félaginu.
Marcos Rojo: Virðist ekki vera í United klassa. Hvað hann er að gera í liðinu er ofar mínum skilningi. Í rauninni held ég að liðið hafi ekki náð að selja hann og ákveðið að lána Cameron Borthwick-Jackson í þeirri von um að hann spili 30+ leiki og taki svo við sem varaskeifa fyrir Luke Shaw þegar Rojo loksins fer.
Chris Smalling: Besti varnarmaður félagsins í fyrra og einn besti varnarmaður deildarinnar einnig var ágætur. Augljóslega mjög ryðgaður en frammistaða Eric Bailly og Daley Blind hefur haldið honum út úr liðinu. Mér persónulega finnst þó að hann hefði átt að spila gegn City. Er mikill aðdáandi og vona að hann komi inn í liðið sem fyrst.
Morgan Schneiderlin: Mjög skiptar skoðanir á honum í þessum leik, annað hvort skelfilegur eða arfaslakur. Ég er mikill aðdáandi og ef liðið ætlar að spila 4-3-3 leikkerfi með djúpan miðjumann þá ætti hann að vera fyrsti kostur í þá stöðu. Þó svo að Michael Carrick geti auðvitað vel spilað þá stöðu einnig.
Anthony Martial: Byrjaði vissulega fyrstu leikina en var settur á bekkinn gegn City. Ég sagði á síðasta tímabili að ég hefði enga trú á að hann yrði jafn góður í ár og í fyrra. Ungir leikmenn sem koma inn með svona látum eiga alltaf eftir að ströggla aðeins á næsta tímabili. Raheem Sterling er eflaust besta dæmið. Martial bar liðið nánast uppi, átti svo vonbrigða sumar með Franska landsliðinu á Evrópumótinu og svo var hann auðvitað að standa í erfiðum skilnaði við æskuástina og barnsmóður sína. Ég hef þó 100% trú á að drengurinn rífi sig upp og verði á endanum einn rosalegur leikmaður.
Marcus Rashford: Hefur verið nokkurskonar Super-Sub hingað til og tel ég að það sé ágætt sem stendur. Persónulega finnst mér að hann ætti að spila einn og einn U23 ára leik inn á milli. Viðhalda sjálfstraustinu og þessu markanefi sem hann er með. Hann mun fá fullt af sénsum þó hann hafi ekki skorað í gær. Það gleymist að hann er bara 18 ára gamall. Ronaldo né Messi voru orðnir fastamenn í sínum liðum á þessum aldri.
Ashley Young & Memphis: Úff. Hvað getur maður sagt? Young fær að fljóta með því hann er reynslumikill, enskur og virðist geta leyst báða kantana sem og bakvörðinn. Ef hann sættir sig við að vera varaskeifa í vetur þá er hann ekki að fara fet. Hvað varðar Memphis þá veit ég ekki hvað skal segja. Drengurinn hefur hæfileika, það er ljóst, en það virðist sem sjálfstraustið hjá honum sé algerlega í molum. Og getan eftir því, það er hreinlega vont að horfa á hann spila. Það sem ég skil hvað minnst er hversu mikið hann hefur blásið út síðan hann kom til United, er enginn þjálfari þarna búinn að benda honum á að hann þurfi ekki að lyfta svona mikið eða setja hann á sérstakt æfingaprógram. Hann þarf að finna einhvern milliveg og það fljótt, ásamt því að hann þarf að skora eða leggja upp. Spurning hvort einn eða tveir leikir með U23 þar sem hann valtar yfir mótherjann gæti verið gott fyrir sjálfstraustið.