Í þriðja sinn á fjórum árum leikur Manchester United sinn fyrsta deildarleik undir nýrri stjórn.
Fyrir þremur árum buðum við David Moyes velkominn með gleði en þó örlítinn ugg í hjarta og fyrir tveimur árum kom Louis van Gaal ferskur frá frábæru HM og gaf okkur vonir sem brugðust.
Nú er það hins vegar Jose Mourinho sem mætir á svæðið og ef það er einhver sem man eftir því hvernig hann lauk síðasta stjórastarfi sínu þá er viðkomandi líklega alveg slétt sama.
Við fórum rækilega yfir væntingar okkar fyrir tímabilið í hlaðvarpi og ítarlegri grein í gær og niðurstaðan var einföld: United á að vinna deildina, eða í versta falli lenda í öðru sæti eftir hörkubaráttu við grannana í City.
Kaupin í sumar hafa verið mögnuð og er ekki síst ástæðan fyrir þessari bjartsýni. Paul Pogba kom auðvitað of seint til leiks til að vera meira en í besta falli varamaður á morgun, en í vikunni kom í ljós að tvö spjöld í undanúrslitum og úrslitum Ítalíubikarsins í vor færast yfir og hann er í banni.
Fyrir vikið má spá liðinu svo:
Mkhitaryan ætti að koma inn í liðið sem byrjaði í Samfélagsskildinum en engar breytingar aðrar eru væntanlegar. Chris Smalling er í banni en að öðru leyti eru menn heilir
AFC Bournemouth
Mótherjar okkar voru síðustu mótherjar okkar í vor þegar sprengjuhótunin tafði leik um tvo daga sem United vann svo auðveldlega. En fyrri leikur liðanna í Bournemouth fór illa, 3-1 tap í arfaslökum leik. Þá var still upp mjög ungri vörn sem stóð sig ekki sem skyldi og á morgun er enn talað um að United vörnin sé ekki eins sterk og gæti verið.
Calum Wilson sem var meiddur nær allt síðasta tímabil er skæður framherji fyrir Bournmouth og er kominn´a fullt skrið. Að auki verður Joshua King þarna líka og metkaup Bournemouth í sumar, Jordon Ibe. Bournemouth keypti líka í sumar gríðarlegt efni frá Leeds, Lewis Cook sem verður á miðjunni, og þarf að fylgjast vel með. Arthur Boruc er í markinu og er ekki sá lélegasti.
Undirbúningstímabilið hjá Bournemouth hefur verið rólegt, þeir hafa aðallega verið að spila heima, skruppu fyrst samt til Bandaríkjanna og spiluðu við Minnesota og síðasti leikur þeirra var 1-0 sigur á Angers sem er miðlungslið í Frakklandi. Það er ekki eins og þessi úrslit eigi að hræða United
Því þó að enn vanti upp á leikæfingu, sterkasti miðvörðurinn sé frá og dýrasti leikmaður í heimi mæti ekki til leiks þá er þetta leikur þar sem United getur stimplað sig rækilega inn fyrir átökin í vetur. Það er ekkert sem segir að liðið geti ekki lent í basli, við höfum séð það margoft síðustu ár, en ef allir spila sem best þeir geta og José Mourinho hefur náð að koma sigurstemmingunni í gang, þá má vonast til þess að United byrji tímabilið af krafti og sigri auðveldlega.
Mín spá? 3-1 og Zlatan með a.m.k. tvö mörk.