Það er nokkuð síðan að toppliðið spilaði reglulega á Old Trafford… sem heimaliðið. Vonandi kemur sá dagur fljótlega aftur, en fyrst þarf United að taka á móti toppliðinu á morgun. Það er ekkert nýtt heldur, en það sem er nýtt er auðvitað að toppliðið sem kemur í heimsókn á morgun er auðvitað ekkert annað en Leicester City.
Öskubuskuævintýri Leicester í vetur er farið að verða flestum að góðu kunnugt. Claudio Ranieri tók við liðinu sem hafði bjargað sér frá falli. Hann var ráðinn í óþökk flestra stuðningsmanna liðsins enda maðurinn sem tapaði tvivegis fyrir Færeyjum sem þjálfari Grikkja og þótti ekki til stórræðanna.
Leicester byrjaði hins vegar tímabilið af miklum krafti og þegar United fór í heimsókn á King Power í nóvember var það toppslagur, og með sigri hefði United komist yfir. Leikurinn endaði með jafntefli og nú fimm mánuðum síðar er Leicester sautján stigum á undan. United er fyrir löngu búið að gefa titilvonir upp á bátinn en heldur samt enn í vonina um að ná í fjórða sætið. Leiðin í það er tiltölulega einföld, United þarf að vinna sína fjóra leiki, og vona að leikur Manchester City og Arsenal um næstu helgi endi með sigri annars hvors liðsins. Það er því að hluta til ágætt að Leicester leikurinn, sem er einn sá erfiðasti af þessum fjórum, komi nú. Sigur á morgun færir liðinu meira sjálfstraust og gefur von, og tap á morgun þýðir að liðið getur einbeitt sér að bikarúrslitunum. Arsenal spilar gegn Norwich klukkan hálf fimm á eftir, en City leikur gegn Southampton á morgun kl 4:30, og væri gott að geta sett pressu á City sem auðvitað munu hafa hugann við seinni leik sinn við Real Madrid í vikunni.
Það er fullkomlega eðlilegt og sanngjarnt að þegar leikmenn völdu lið ársins fyrir þetta tímabil þá enduðu fjórir Leicester leikmenn í liðinu. Það hefur verið bent á það að tímabil Leicester hefur verið nokkuð kaflaskipt og í hverjum hluta hefur einn leikmaður skarað framúr. Jamie Vardy skoraði eins og berserkur í upphafi tímabils og skoraði í ellefu leikjum í röð. Síðan steig Riyad Mahrez í kastljósið eftir að hafa verið iðinn við að styðja við Vardy og fór sjálfur að skora, og frá áramótum hefur Leicester nær lokað markinu, unnu til að mynda fimm 1-0 sigra í sex leikjum. Wes Morgan fyrirliði hefur verið hjartað í vörninni sem er svona þétt. Að auki hefur frammistaða N’golo Kanté á miðjunni verið frábær og hann er nú orðaður við öll helstu félög. Kaspar Schmeichel hefur verið mjög traustur í markinu en það er auðvitað besti markvörður á Englandi sem er í þessu PFA liði ársins, það jafnast enginn á við David de Gea
Aðalsmerki Leicester er stöðugleiki liðsins. Af þrjátíu og fimm leikjum hafa Schmeichel, Vardy, Morgan, Marc Albrighton, Mahrez, Danny Drinkwater og Robert Huth byrjað í 29 leikjum eða fleiri. Einungis David de Gea, Chris Smalling og Juan Mata hafa náð 29 byrjunarleikjum hjá United.
Það er því tiltölulega auðvelt að spá liði Leicester. Eina undantekningin er sú að Jamie Vardy er í banni vegna aðfarar að dómaranum í leiknum gegn West Ham um daginn. Leonardo Ulloa kom inn fyrir hann og skoraði tvisvar í 4-0 sigri Leicester um síðustu helgi, en er hugsanlega meiddur
En nóg um Leicester. United menn eru flestir heilir, Shaw er enn ekki tilbúinn. Januzaj enn meiddur en Pereira gæti verið í hóp
Ég vona svo sannarlega að eftir góða leiki með einn djúpan miðjumann í stað tveggja þá haldi Van Gaal sig við það, en miðað við að miðja Leicester er mjög sterk þá er sú von næsta gagnslaus. Schneiderlin verður vonandi þarna frekar en Carrick.
Á blaðamannafundi í gær misreiknaði Louis van Gaal sig frekar illilega þegar hann vildi meina að leikmenn United hefðu ekki unnið marga titla.
The players who are now playing, they are not used to being champions
I don’t think Matteo Darmian is used to being a champion and David De Gea was never champion, so I don’t agree with the way you make the question
Memphis Depay was a champion last year [with PSV Eindhoven] so not many players…Rooney, Carrick, they have been the champions once, or maybe more than once.
De Gea var auðvitað meistari 2013, sem og Smalling, Jones, Young og Valencia, Valencia og Smalling árið 2011 að auki. Carrick og Rooney hafa ekki einn titil heldur fimm í safninu. Að vísu verða ekki nema þrír þessara í liðinu á morgun þannig að þó Van Gaal hafi rangt fyrir sér, þá er vissulega rétt að flestir byrjunarmennirnir á morgun hafa ekki orðið Englandsmeistarar. En Blind, Memphis, Romero, Schweinsteiger, Fellaini og Rojo hafa allir með sér titla frá Hollandi, Þýskalandi, Belgíu og Argentínu. Það er vonandi að viðbrögð þeirra sem hafa tekið titil við þessum ummælum verði ekki að fara í fýlu, heldur að fara út á völlinn og sýna sig og sanna og vinna Leicester sannfærandi. Það verður hins vegar erfitt.
Leikurinn hefst kl. 13:05 á morgun sunnudag, og það er víst rétt að geta þess að með sigri verða Leicester Englandsmeistarar.