Ég var ekkert sérlega æstur í að skrifa þessa upphitun eftir að liðið hrapaði úr Evrópudeildinni í gær. Það má því ímynda sér hvernig stemmarinn er á æfingasvæðinu fyrir næsta leik.
Já, það er skammt stórra högga á milli. Á sunnudaginn skreppur United í hinn enda borgarinnar til þess að mæta City í Manchester-borgarslagnum.
Þessi lið eru í harðri baráttu um fjórða og síðasta Meistaradeildarsætið í deildinni og leikurinn á sunnudag gæti veitt öðru hvoru liðinu gott spark í áttina að Wenger-bikarnum fræga. Spurning hvort að það mætti ekki fara að kalla þetta LvG-bikarinn enda virðist fjórða sætið vera hans helsta markmið.
Það er reyndar alveg stórfurðulegt að United eigi einhvern möguleika á því að haltra yfir línuna og komast í Meistaradeildina á næsta tímabili eftir gengið á þessu. Eftir sambærilegan fjölda leikja var David Moyes með stigi meira en United er með á þessum tímapunkti í deildinni en þó var möguleikinn á Meistaradeildarsæti fyrir Moyes nánast alveg úr sögunni.
Louis van Gaal er því í raun alveg stálheppinn að lið eins og City og Chelsea hafi ekki verið jafn sterk og við mátti búast og að Arsenal hafi dalað að undanförnu. Það er eina ástæðan fyrir því að United, með sín 47 stig eftir 29 leiki eigi séns á því að ná fjórða sætinu fyrir rest.
Leikurinn á sunnudaginn yrði stórt skref í átt að fjórða sætinu og það sem gefur manni helst von er sú staðreynd að City hefur staðið sig herfilega gegn liðunum í efsta þriðjung deildarinnar. Liðið hefur ekkið unnið einn leik gegn þessum liðum sem er jafn slæmur árangur og hjá langlélegasta liði deildarinnar Aston Villa. United, með sinn fína árangur gegn sömu liðum, ætti því að eiga ágæta möguleika á sunnudaginn.
Nóg um leikinn á sunnudag – Tölum aðeins um Louis van Gaal
Það er svolítið magnað að hugsa til þess að þann 28. september sl. sat United á toppi deildarinnar. Liðið var vissulega ekki að spila áferðafallegustu knattspyrnu í heimi en úrslitin rúlluðu inn og manni fannst hlutirnir vera að stefna í rétt átt undir Louis van Gaal. Maður var jafnvel bara nokkuð bjartsýnn fyrir útileikinn gegn Arsenal 4. október.
Hversu lítil innistæða var eiginlega fyrir þeirri bjartsýni? Frá því að liðið mætti á Emirates og lét rasskella sig hafa hjólin hægt og rólega dottið undan vagninum. Það hefur allt farið til fjandans.
Frá því að liðið var á toppi deildarinnar þann 28. september hefur liðið spilað 33 leiki í öllum keppnum [footnote]Deild, FA-bikar, Deildarbikar, Meistaradeild og Evrópudeild[/footnote].
Af þeim hefur liðið aðeins unnið 12 leiki!
12 sigurleikir af 33![footnote]Og 8 tapleikir og 13 jafntefli[/footnote] Þetta er kannski fínt fyrir lið eins og WBA eða Sunderland en stjóri sem skilar þessum árangri hjá Manchester United á einfaldlega eitt skilið.
Liverpool er að flestu eða öllu leyti félag sem United á ekki að módela sig eftir. Það verður hinsvegar ekki tekið af þeim að þeir tóku hárrétta ákvörðun þegar Rodgers var rekinn og Klopp var ráðinn. Stjórnendur félagsins komu auga á það að núverandi stjóri væri kominn á endastöð og einn hæfasti þjálfari sem völ er á að fá var á lausu. Búmm: Út með Rodgers, inn með Klopp.
Þar með fékk Klopp ókeypis tímabil til þess að vinna liðið á sitt band og undirbúa næsta tímabil. Hárrétt ákvörðun og eftir sex mánuði í starfi hjá félaginu sér maður skýr merki þess að þetta Liverpool-lið er á uppleið undir stjórn Jurgen Klopp. Liðið er langt frá því að vera fullkomið og ég held að United hefði vel getað slegið það út í Evrópudeildinni með öðrum áherslum. Það er hinsvegar aukaatriði. Félagið er á uppleið og undir stjórn Klopp er greinilegt að liðið hefur tekið skýra stefnu í rétta átt.
Það sama er ekki hægt að segja um United undir stjórn Louis van Gaal
Hannl hefur verið í starfi hjá United í tæp tvö ár og hreinskilningslega spurt, getur einhver séð hvert hann er að fara með þetta United-lið? Sér einhver merki þess að liðið sé á einhverskonar uppleið undir stjórn hans? Nei, United er algjörlega stefnulaust undir stjórn Louis van Gaal.
Louis van Gaal var ráðinn í þetta starf með þeim formerkjum að hann ætti að rétta við skútuna eftir Moyes, á þremur árum átti hann að byggja liðið upp á nýju, styrkja hópinn og koma United aftur í fremstu röð.
Honum hefur mistekist í öllu þessu. Liðið er alveg jafn, ef ekki máttlausara, og það var undir stjórn Moyes. Honum tókst að minnsta kosti að detta út úr 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Louis van Gaal hefur heldur ekki styrkt hópinn að neinu ráði, þvert á móti. Hann hefur selt menn í gríð og erg án þess að fá menn í þær stöður sem losnuðu.
Þau kaup sem hann hefur gert hafa að mörgu leyti verið misheppnuð, sérstaklega þau sem voru gerð í sumar [footnote] Að kaupunum á Martial undanskildum, að sjálfsögðu [/footnote]. Gegn Liverpool í mikilvægasta leik tímabilsins var aðeins 1 leikmaður af þeim 5 útileikmönnum sem voru keyptir í sumar í byrjunarliðinu. Allir voru þeir þó heilir.
Og United er langt frá því að vera í fremstu röð, svo langt, og ekki hefur það færst nær því undir stjórn Louis van Gaal. Það að liðið datt út úr riðli í Meistaradeildinni gegn PSV, CSKA og Wolfsburg segir allt sem segja þarf.
Við þetta má bæta að það virðist vera búið að berja allan vind og baráttukraft úr Louis van Gaal. Þessi stjóri sem í gegnum tíðina hefur verið svo litríkur og kraftmikill virðist vera orðinn fullkomnlega saddur og hugmyndalaus eftir langan stjóraferil. Það gagnast engum að knattspyrnustjóri sem er kominn á þann stað haldi áfram.
Nei, þetta United-lið er algjörlega stefnulaust undir stjórn Louis van Gaal og því fyrr sem hann hættir því betra. Nú þegar Pep fer til City, Klopp er hjá Liverpool og Conte fer til Chelsea er ekkert annað í boði fyrir United en að ráða þann besta sem völ er á. United klikkaði á því þegar Ferguson hætti, United klikkaði á því þegar Moyes var rekinn og United hefur ekki efni á að klikka á því í þriðja sinn.