Fyrir leikinn í dag var ljóst að sigur í dag myndi saxa á a.m.k. tvö toppliðanna fyrir ofan okkur þar sem þau áttu öll innbyrðisleiki.
Það kom því fáum á óvart að leikurinn tapaðist.
Það er varla hægt að segja að leikurinn hafi verið byrjaður þegar Wahbi Khazri skoraði eftir tvær og hálfa mínútu. Aukaspyrna dæmd á Darmian fyrir klaufalegt brot úti á kanti, Khazri sveiflaði boltanum inn á teiginn, boltinn fór fram hjá öllum leikmönnum og laumaðist inn alveg úti við stöng. Skelfilegt mark að fá á sig!
United fór í venjulega gírinn og hélt boltanum vel en voru þó að ná nokkrum þokkalegum sóknum, Darmian var í fyrirgjöfunum en Sunderland varðist vel. Reyndar fékk Defoe færi á að bæta við eftir klaufagang í vörn United en Smalling bjargaði á endanum.
Annars gerðist fátt fréttnæmt fyrr en tíu mínútur voru eftir af hálfleik, Matteo Darmian lenti í slæmu samstuði og lenti síðan illa á öxlinni og þurfti að fara útaf. Donald Love kom inná í sínum fyrsta leik fyrir United enda eini varnarmaðurinn á bekknum. Flokkum það undir einu heppnina í leiknum að Love er ekta hægri bakvörður, þannig að hann fór í sína réttu stöðu.
Jöfnunarmark United kom rétt á eftir. Mata átti ágætt skot sem Mannone varði glæsilega en Martial var fyrstu í boltann og vippaði rétt yfir Mannone sem var í grasinu. Frábær afgreiðsla hjá eina heimsklassaútispilara United. Annars sótti United frekar en hitt það sem eftir var hálfleiksins, en náðu ekki að gera sér mat úr því.
Sunderland byrjaði seinni hálfleikinn nokkuð frísklega, Daley Blind bjargaði vel þegar Defoe var í góðu skotfæri, en annars hélt leikurinn áfram í sama farinu. United með boltann, sótti oft, en alltof mikið var um mistök leikmanna, mistækar sendingar og Sunderland var oftast á undan í boltann. Á 61. mínútu fékk N’Doye sendingu inn fyrir en í þúsundasta skipti í vetur bjargaði David de Gea okkur og varði í horn.
Jesse Lingard hafði verið ósýnilegur í leiknum og kom ekki á óvart að hann var annar leikmaður United til að fara af velli fyrir Memphis. Það bætti lítið og eftir kortér í viðbót af þrautleiðinlegum leikkom sigurmark Sunderland. Þeir fengu horn, Lamine Kone stökk hæst og þrátt fyrir að boltinn færi næstum beint á De Gea, náði De Gea ekki að stoppa hann og ekki heldur Martial á línunni, heldur fór hreinsunartilraun Martials í olnboga De Gea og inn. Annað skelfilega markið til.
WIll Keane fékk nokkrar mínútur til að reyna að bjarga sökkvandi skipi en mark á lokamínútum heyrir United sögunni til og því fór sem fór.
Þau sem horft hafa á leiki United í vetur þurfa varla frekari lýsingu á leiknum. 65% með boltann, sjaldan hætta, Sunderland miklu grimmari og alveg hálft liðið ósýnilegt. Fengu reyndar allmörg horn en sköpuðu aldrei hættu. Á hinn bóginn komu bæði mörk Sunderland úr slíkum.
Sem sé: Sanngjarn sigur Sunderland í leik sem sýndi allar verstu hliðar United liðsins í vetur.
Uppgjörið
Þetta er orðið gott. Þannig er það nú bara. Það er oft sagt að það sé auðveldara að reka einn stjóra en ellefu leikmenn og nú þarf að fara eftir því. Ekki það, þegar José Mourinho tekur við liðinu þá verða ýmsir leikmenn að fara að læra grunnatriðin í kínversku.
https://twitter.com/manutdstuff/status/698546482887028737
Í leiknum í dag voru fáir góðir en Rooney, Schneiderlin, Carrick, já og Smalling alveg á hælunum. Það verður sárt fyrir Van Gaal að sjá þessa leikmenn taka sig saman í andlitinu þegar nýr stjóri mætir á svæðið en þannig er bara fótboltinn. Þegar leikmenn geta ekki séð til þess að lélegustu liðinum sé refsað þá er einfaldasta lausnin að reka manninn sem á að stýra refsingunni.
Fljótt á litið þegar litið er yfir síðustu þrjú, já jafnvel fjögur ár, hjá United þá virðist fljótt á litið aðeins tvær ákvarðanir utan auglýsingadeildarinnar hafi verið réttar: Kaupin á Martial og faxvélafokkið gagnvart Real. Ekkert annað hefur gengið upp. Ekkert.
Nú þarf að taka rækilega til í klúbbnum. Brottvikning Louis van Gaal er aðeins einn hluti af því. Edward Woodward lofaði hluthöfum því fyrr í vikunni að grundvallarendurskoðun á starfsemi unglingadeildarinnar væri lokið og vænta mætti frétta. Í gær komu fréttir um að Paul McGuinness (sonur Wilf, stjóra United 1969-70 og United maður inn að merg) hefði sagt upp sem stjóri U-18 ára liðsins sem tapað hafði 12 leikjum í röð og í hans stað kemur stjóri U-21 liðsins, Warren Joyce. Fregnir herma síðan að Nicky Butt taki við sem yfirmaður unglingastarfsins. Við vonumst síðan eftir topp ráðningu í varaliðið.
Næsta skref er að fá inn yfirmann knattspyrnumála. Það er ekki boðlegt að hafa enn strúktúr frá 1986, þar sem stjórinn er einn og næsti yfirmaður hefur ekkert vit á fótbolta. Slúðrið vill meina að inn komi Andrea Berta frá Atlético Madrid, sem er jafn mikill Jorge Mendes maður og Mou, en miðað við talentinn sem hefur endað hjá Atléti undanfarin ár þá gæti mér ekki verið meira sama. Síðan þarf að hugsa fram í tímann og hvaða stjóri er næstur í röðinni, og miðað við hvar stjórar eru að raða sér í toppliðin, er það nokkuð fjarstæðukennt að Diego Simeone verði á lausu þegar kemur að þvi að ráða arftaka Mourinho?
Eftir að þetta allt er komið þá verður verslað. Í fyrrnefndu hluthafaviðtali var Woody spurður hvers vegna Leicester væri svona miklu betra á hundódýrum mönnum. Aldrei þessu vant svaraði Woody rétt: United verður að kaupa menn sem eru heimsklassamenn eða um það bil að taka skrefið þangað. United hefur ekki svigrúm til að kaupa Riyad Mahrez 23 ára úr annarri deildinni í Frakklandi og gefa honum séns í ár til að taka skrefið. Við sjáum jafnvel þegar við erum að taka landsliðsmenn eða menn úr öðrum toppliðum svo sem Blind og Herrera og jafnvel Schneiderlin að dýrir vonarpeningar geta svikið. Þá er bara að vona að einhverjir af þessum toppleikmönnum sem Woodward hefur verið að elta með núll árangri láti sjá sig þegar Mourinho mætir á svæðið, og að Mendes láti okkur frekar fá Ronaldoa en Bébea.