Þið afsakið dramatíkina í fyrirsögninni, en að vissu leyti er leikurinn gegn Stoke á morgun svokallaður dómsdagur. Allavega fyrir þjálfara voran, Louis Van Gaal.
Eftir hreint út sagt hörmulegt gengi liðsins undanfarið þá er komið að hinni víðsfrægu jólatörn. Og ekki eru andstæðingarnir lakari en þeir sem hafa valtað yfir United undanfarið. Á morgun fer liðið til Stoke On Trent og keppir við Stoke City. Þann 28. desember kemur svo Chelsea í heimsókn á Old Trafford með nýjan þjálfara og eflaust mun meira sjálfstraust en undanfarnar vikur. Slúðurblöðin á Bretlandseyjum segja að ef liðið vinni ekki báða leikina þá fái Van Gaal að taka pokann sinn.
Blaðamannafundurinn
Það þarf ef til vill að segja sem minnst um hann, hann var mjög stuttur og endaði á því að Van Gaal strunsaði út. Að vissu leyti skiljanlegt, en að sumu leyti virtist sem Van Gaal væri byrjaður í hinum víðsfræga sálfræðihernaði. Draga athygli að sér en ekki liðinu. Var fjallað um fundinn hér.
Van Gaal ræddi samt sem áður um meiðsli og annað við MUTV. Matteo Darmian missir af leiknum gegn Stoke sem og Jesse Lingard ásamt langtíma meiðslapésunum Antonio Valencia, Marcos Rojo og Luke Shaw. Bastian Schweinsteiger tekur svo út þriðja leikinn í þriggja leikja banninu sínu.
Byrjunariðið gæti því verið eftirfarandi;
Það kæmi þó ekki á óvart ef Juan Mata færi á bekkinn, Wayne Rooney upp á topp, Anthony Martial á hægri vænginn og Marouane Fellaini í svæðið á bakvið framherjann.
Mótherjinn
Stoke City eru hægt og rólega að umbreytast sem knattspyrnulið. Allavega hvað varðar leikstíl. Það er lítið sem ekkert eftir af háloftabarningnum sem Tony Pulis spilaði, þó svo að Jonathan Walters sé ennþá að spila með liðinu. Mark Hughes hefur leitað mikið til síns fyrrum félags Barcelona og sótt menn á borð við Bojan, Ibrahim Afellay og Marc Muniesa ásamt öðrum létt leikandum mönnum héðan og þaðan.
Stoke er fullt af hæfileikaríkum leikmönnum á borð við Bojan, Xerdan Shaqiri, Marko Arnautovic og fleirum en naglar á borð við umræddan Walters og Glenn Whelan eru ennþá til staðar. Þrátt fyrir gífurlega spennandi og sóknarþenkjandi lið þá tekst þeim hreinlega ekki að skora nægilega mikið af mörkum. Eru þeir aðeins búnir að skora 14 mörk í 17 leikjum, það er 8 mörkum minna en okkar steingelda Manchester United lið er búið að skora. Varnarleikur Stoke með Jack Butland í fantaformi í rammanum og fyrrum United manninn Ryan Shawcross í fararbroddi er þó til fyrirmyndar og liðið aðeins búið að fá á sig 16 mörk.
Á meiðslalistanum hjá Stoke er varamarkvörðurinn Shay Given (hvenar fór hann eiginlega til Stoke?), varnarmennirnir Geoff Cameron og Marc Muniesa, miðjumaðurinn Stephen Ireland og uppistandarinn, sláninn og framherjinn Peter Crouch.
https://www.youtube.com/watch?v=o8BiF4x2q-Q
Fyrir leikinn eru Stoke í 11. sæti. Síðustu þrír leikir þeirra telja 2-1 tap á heimavelli gegn Alan Pardew, 0-0 jafntefli við West Ham United og 2-0 heimasigur gegn Manchester City. Vægast sagt upp og niður en samt sem áður talsvert betra gengi en hjá okkar mönnum. Stoke hugsa sér eflaust gott til glóðarinnar og ætla sér að reka næst síðasta naglann í kistuna hjá Van Gaal.
Síðustu þrír leikir milli liðanna eru mjög svipaðir og síðustu þrír leikir Stoke, í rauninni bara alveg eins. Einn sigur á hvort lið og eitt jafntefi.
Leikurinn byrjar 12:45 að íslenskum tíma.