Undanfarin ár hefur borið nokkuð á því að yngri flokka starf Manchester United sé ekki jafn gott og það var áður. Sögurnar segja að ljósblái nágranni félagsins standi mun betur að vígi heldur en Djöflarnir okkar. Var hlaupið yfir þetta í grein eftir undirritaðan sem birtist í september síðastliðnum, má lesa hana hér.
Nú eru komnir 10 mánuðir síðan Brian McClair hætti sem yfirmaður yngri liða Manchester United. Umrædd staða svipar eflaust til yfirmanns yngri flokka hér heima en þar sem þetta er Manchester United en ekki Knattspyrnufélag Reykjavíkur þá er staðan eflaust veigameiri en við áttum okkur á. Á þessum 10 mánuðum hefur enginn verið ráðinn í starfið. Mér skilst að Nicky Butt hafi hlaupið í skarðið og verið að sinna hluta af starfinu en betur má ef duga skal. Þrátt fyrir árangur U21 liðið undanfarið þá hefur árangur U18 liðsins verið hreint út sagt hörmulegur þrátt fyrir marga efnilega drengi. Málið er hreinlega að það virðast alltof margir drengjanna vera að spila upp fyrir sinn aldursflokk og það skilur hvern árganginn á fætur öðrum eftir með fáa, og ef til vill ekki nægilega góða, leikmenn. Sem dæmi má nefna að í U19 ára Meistaradeildar kepninni byrjaði United einn leik með tvo 16 ára gutta inn á.
Samkvæmt The Guardian þá stefnir í að það verði tveir menn ráðnir og starfinu skipt í tvennt, annar væri í hinu klassíska yfirþjálfarastarfi og myndi hafa yfirumsjón með allri þjálfun á meðan hinn séi um greiningu gagna og almenn stjórnunarstörf yngri flokka. Þessir tveir aðilar myndu vinna saman dagsdaglega. Einnig er verið að undirbúa ráðningu fleiri þjálfara sem myndu eingöngu vinna með yngri liðunum sem og það er í vinnslu að ráða fleiri njósnara (e. scouts) í fullt starf, eða fá þá sem eru í hlutastarfi hjá félaginu nú þegar í fullt starf.
Í sömu grein kemur fram að félagið sé að velta fyrir sér að byggja völl sem er eingöngu fyrir yngri flokka liðsins en sem stendur spilar U21 liðið á Leigh Sport Village en þar spilar einnig U21 lið Blackburn sem og Leigh Centurions sem er ruðningsfélag. Manchester United er sum sé að leigja völlinn sem heimavöll U21 liðsins á meðan U18 ára liðið spilar sína leiki á æfingasvæði félagsins og einstaka leik á Leigh Sport Village.
Umræddur völlur tekur 12 þúsund manns í sæti sem er full mikið þegar kemur að venjulegum U21, eða U18, leik. Við Íslendingar ættum að þekkja það manna best hversu lítil stemmnign myndast á hálf tómum velli en þangað til á síðasta ári var Laugardalsvöllur oftast hálftómur. Svo er vert að minnast á það að U21 liðið hefur verið á eilífu flakki undanfarin ár en það hefur spilað heimaleiki sína á fimm mismunandi völlum á síðustu 5-10 árum. Það er því ljóst að heimavöllur á æfingasvæði félagsins, sem er eingöngu fyrir Manchester United ætti að hjálpa til við að mynda betri umgjörð fyrir leikmenn og stuðningsmenn félagsins heldur en núverandi fyrirkomulag.
Það virðist sem United sé loksins farið að taka City alvarlega en það að leikmenn félagsins hafi sent syni sína frekar í yngri flokka starf City var fyrsta viðvörunin. Hin viðvörunin var massíft æfingasvæði sem City byggði fyrir yngri liðin sín, fyrir litlar 200 milljónir sterlingspunda. Miðpunktur þess æfingasvæðið er svo völlur fyrir liðin sem tekur 7000 manns í sæti.
Þetta virðist hafa vakið United af værum blundi en samkvæmt heimild The Times þá vill United endurheimta sálina og einkenni (e. identity) þess yngri flokka starfs sem félagið telur að bjóði ungum leikmönnum hvað mesta möguleika á að vaxa og dafna. Það er ekki rangt en Manchester United er það enska félag sem kemur hvað flestum leikmönnum í efstu deildir hvers lands fyrir sig í Evrópu. Á lista frá árinu 2013 er United á eftir spænsku risunum Barcelona og Real Madrid, og svo frönsku liðunum Lyon og Rennes.
Að lokum væri ekki hægt að minnast á United og City án þess að nefna ágreining en United virðist hafa ásakað City um fara á bakvið heiðursmanna samkomulag sem Úrvalsdeildar liðin hafa gert sín á milli þegar kemur að „stela“ leikmönnum úr yngri liðum hvors annars. City hefur neitað ásökunum.
Að öllu þessu sögðu þá er vert að benda á nokkra jákvæða punkta og það er hversu margir leikmenn yngri liða United eru að fá smjörþefinn af aðalliðinu þessa dagana. Vissulega eru aðstæður ekki frábærar, meiðsli og árangur liðsins ekki upp beint til að hrópa húrra fyrir en það er alltaf jákvætt að sjá unga gutta fá sénsinn. Hvort þeir séu nægilega góðir verður svo að koma í ljós.