Ég var einn af þeim sem hékk á Moyes vagninum allt of lengi, kallandi eftir því að hann fengi meiri tíma til að setja mark sitt á liðið. Eftir að hann var látinn fara þótti mér það auðvitað deginum ljósara að hlutirnir voru ekki, og voru aldrei að fara að ganga upp hjá honum. Það var ekki endilega leikstíllinn, þó mér hafi aldrei fundist hann ásættanlegur, heldur var það hreinlega vinnuframlag leikmanna á vellinum. Þeir virtust ekkert spenntir fyrir því að spila fyrir Manchester United og um leið og eitthvað á bjátaði gáfust menn bara upp og lögðust í kör, í stað þess að leggja gjörsamlega allt í sölurnar, sem var svo algegnt viðhorf undir stjórn Alex Ferguson.
Hljómar þetta kunnulega? Mér þykir það miður en Manchester United er aftur komið niður eitthvað öngstræti og ég get hreinlega ekki séð að þaðan verði aftur snúið undir stjórn Luis Van Gaal.
Víkjum aðeins að leiknum, ég segi „aðeins“ því ég hef svo sem ekki mikið um hann að segja. Hann var í raun alveg eins og leikurinn gegn Bournemouth í síðustu viku, gegn West Ham nokkrum vikum þar á undan, PSV um miðjan nóvember, Middlesbrough í deildarbikarnum og svo mætti lengi telja.
Svona var liðið:
Varamenn: Romero, Borthwick-Jackson, McNair, Varela, Schneiderlin, Pereira, Herrera (60′).
Norwich City mætti á Old Trafford til að verjast á 10 mönnum, eins og þeir hafa gert síðustu 25 ár. Planið hjá okkar mönnum var það sama og áður, halda boltanum, byggja upp pressu hægt og bítandi og á endanum myndi markið vonandi koma. United sótti og sótti en náði (enn og aftur) ekki að skapa sér nein almennileg færi, fullt af hálf færum, eða réttara sagt „kvartfærum“. Norwich komst í fyrsta skipti framyfir miðju á 38 mínútu þegar Redmond nær að stinga boltanum inn fyrir vörnina (sem var út um allt), Cameron Jerome nær að þvæla boltanum fyrir sig og smellir boltanum yfir De Gea og í markið. De Gea kannski svolítið ólíkur sjálfum sér og lagðist fullsnemma, en þetta var bara eitt af þessum mörkum, höfum milljón sinnum fengið svona blauta tusku í andlitið.
Það voru viðbrögðin við markinu sem valda mér svo miklum vonbrigðum. Menn urðu stressaðir og spilið bara molnaði í sundur. Sendingar voru slappar og allar aðgerðir, í sókn og vörn, voru tilviljunarkenndar. Norwich héldu sínu striki og Alexander Tettey bætti við öðru marki í upphafi seinni hálfleiks. Aftur var vörnin hripleg og aftur var De Gea ekki á tánum. 11 mínútum síðar minnkaði Anthony Martial muninn eftir ágætis tilþrif í teignum. Þar við sat, það gerðist ekkert annað sem vert er að minnast á. Í dag voru allir slakir á vellinum, hver og einn einasti leikmaður. Fyrir utan að eiga aðeins 2 skot á rammann (tveimur færri en Norwich), þá voru menn svo bitlausir að enginn United leikmaður fékk einu sinni gult spjald, sem mér þykir athyglisvert frá liði sem var undir í næstum því klukkutíma.
Áhorfendur voru mikið í mynd í þessum leik og vonbrigðin skein úr hverju andliti. Það er líka mjög sjaldgjæft að sjá fólk streyma út af Old Trafford þegar 5 mínútur eru eftir að leiknum. Baulið þegar lokaflautan gall minnti mann helst á Santiago Bernabeu, ég skil þá gremju vel. Ég er bara ekki að sjá þetta batna, ekki af því að Van Gaal er ekki með reynslu og þekkingu til að snúa þessu við heldur virðist hann vera búinn að missa klefann, menn nenna þessu ekki lengur og þá er ballið alltaf búið. Hvar er annars þessi Van Gaal? Við höfum aldrei séð hann í action!
Ég hef nú ekki trú á því að Van Gaal verði rekinn á morgun eða hinn, það kæmi mér allavega verulega á óvart. Útlitið er hinsvegar ekki bjart fyrir hann því ég er ekki að fara að sjá þetta lið vinna Stoke á útivelli og endurnært Chelsea lið. Ég legg allavega ekki mína peninga á sigra í þeim leikjum. Fari það svo , verður Van Gaal kominn í 8 leiki í röð án sigurs og þá verður kannski tekið í taumana.
Ég ætla að gefa ykkur orðið, en við skulum enda þetta á nokkrum tístum.
https://twitter.com/Squawka/status/678265062298021889
https://twitter.com/stretford_end/status/678274019884445697
https://twitter.com/UnitedPeoplesTV/status/678273568392749057
https://twitter.com/UnitedPeoplesTV/status/678273526193913856
UPPFÆRT:
Viðtal við Louis Van Gaal eftir leikinn:
https://www.youtube.com/watch?v=a6C8fr3THPA