Frank Barson
Laugardaginn 10. desember 1921 komu leikmenn Bradford City í heimsókn á Old Trafford. Viku áður hafði United farið til Bradford og spilað þar við liðið á Valley Parade vellinum. Þá skoraði Joe Spence mark United en David Pratt og Peter Logan skoruðu mörk Bradford sem vann leikinn. Leikmenn United vildu því ólmir hefna fyrir tapið þegar Bradford kom í heimsókn. Leiktímabilið hafði heldur ekki gengið sem best hjá United-piltum, þegar þarna var komið við sögu hafði liðið spilað 17 leiki, tapað 8 þeirra og var í næst neðsta sæti. Neðsta liðið, Arsenal, átti auk þess leik til góða. Bradford hafði gengið aðeins betur og var í 17. sæti af 22 liðum. En United náði ekki fram hefndum í þessum leik, hann endaði 1-1. Mark United skoraði William Henderson og mark Bradford skoraði Bill Howson. Þetta reyndist ekki gott tímabil fyrir þessi lið, Manchester United endaði að lokum í neðsta sætinu eftir 22 tapleiki af 42. Liðið skoraði aðeins 41 mark en fékk á sig 73. Bradford tapaði síðustu 5 leikjum sínum og endaði í næst neðsta sætinu. Þessi lið féllu því niður í 2. deildina.