Enn eitt 0-0 jafntefli staðreynd í dag gegn annars spræku Crystal Palace liði, þetta er þriðja 0-0 jafnteflið í röð en ansi frábrugðið því fyrsta gegn Man City á Old Trafford. Þar var ákveðinn kraftur í liðinu, menn voru skipulagðir og duglegir í að loka á andstæðinginn. Vissulega var sóknaleikurinn ekkert sérlega glæsilegur þá, en það var nú mest megnis góðri vörn Man City að þakka. Í dag aftur á móti var heldur dapurlegra að horfa á liðið. Crystal Palace eru með asskoti gott lið, sérstaklega fram á við, en þeir eru langt frá því að vera með sterka varnarlínu. Í dag hinsvegar reyndi nákvmælega ekkert á vörn Palace því sóknarleikur United steindrapst um leið og liðið kom fram yfir miðju.
Van Gaal stillti liðinu upp svona í dag:
Varamenn: Romero, Tuanzebe, Young, Carrick, Lingard, Pereira, Fellaini.
Þessi uppstilling kemur auðvitað engum á óvart enda varla hægt að stilla þessum hóp upp mikið öðruvísi. Ég er einn af þeim fjölmörgu aðdáendum United sem bíð í ofvæni eftir því að sjá Rooney byrja á bekknum. Ekki var það tilfellið í dag og átti hann auðvitað enn einn slakan leik. Reyndar var hann ekki eins áberandi slakur og eins og gegn City því flest allir sóknarmenn okkar voru frekar daprir í dag, sem og Darmian sem átti í bölvuðu basli með Wilfried Zaha, sem er alltaf mjög æstur í að spila vel á móti okkur. Flest lið átta sig á því að United er frekar viðkvæmt fyrstu 20 mínúturnar og Palace ætlaði sér að nýta það í dag. Þeir pressuðu hátt og keyrðu hratt fram á við. Það skapaði nokkur góð færi fyrir þá, þar helst skot Yannick Bolasie í þverslá eftir sirka 10 mínútur.
Eftir 20 mínútur náði United betri tökum á leiknum en ógnin fram á við var akkúrat engin. Rooney kom nokkrum sinnum svo aftarlega á völlinn til að sækja boltann (þrátt fyrir að spila sem framherji) að hann var kominn aftur fyrir Schneiderlin og Schweinsteiger. Svo var akkúrat ekkert annað í stöðunni fyrir hann en að gefa langa Hollywood sendingu inn í teig, í þeirri von að hinir gríðarlegu sterku skallamenn [footnote]Kaldhæðni[/footnote], Juan Mata og Ander Herrera, myndu gera sér mat út því. Í þau örfáu skipti sem United reyndi að sækja hratt fram á völlinn, þá var það oftar en ekki Martial sem skapaði mestu hættuna, en því miður var hann sjaldan með einhvern með sér.
United fékk eitt alvöru færi í fyrri hálfleik þegar Mata og Martial spiluðu vel saman út á kantinum, Martial sendi inn í teig, beint á einn og óvaldaðan Herrera sem rann til og skaut boltanum framhjá.
Um miðjan seinni hálfleik kom Ashley Young inn fyrir Darmian sem var búinn að næla sér í gult spjald og var enn í vandræðum með Zaha. Fellaini kom svo inn fyrir Schweinsteiger og Lindgard fyrir Mata, sem þýddi að enn of aftur spilar Rooney 90 mínútur. Eftir þessar skiptingar fór liðið að spila einhverja útgáfu af leikkerfi sem ég skildi ekki alveg, en virtist eins og Rooney væri á vinstri kantinum, Martial frammi, Herrera á miðjunni og Fellaini í holunni. Þetta skipti auðvitað engu máli því ekkert gerðist sem ógnaði marki Palace. Leikmenn Palace voru á sama tíma stórhættulegir í föstum leikatriðum og það voru einhver 2-3 skipti þar sem þeir áttu skalla/skot rétt framhjá markinu eftir horn eða aukaspyrnu. Leikurinn fjaraði svo út í hrútleiðinlegt jafntefli.
Ef ég á að horfa á ljósu punktana í þessu öllu saman þá náði United jafntefli í leik sem þeir hefðu alveg týpískt misst í tap fyrir 1-2 árum síðan. Einnig er vörn og miðja samstillt og heldur hreinu, liðið hefur fengið á sig eitt rússneskt mark í síðustu 5 leikjum. Það er auðvitað allt gott og blessað, svo má nú minnst á það að við erum bara 4 stigum frá toppsætinu. Vondu fréttirnar eru auðvitað þær að liðið er gjörsamlega bitlaust fram á við, og þannig hefur það verið í síðustu 4 leikjum (samtals 1 mark). Ég veit að það er vinsælt að kenna Rooney um allt og ekki neitt þessa dagana, en hann er hreinlega að spila of mikilvægt hlutverk þessa stundina. Boltinn fer mikið í gegnum og hann (og oftar en ekki endar þar), og þegar kantmenn liðsins keyra upp völlinn með boltann, þá er aldrei neinn United leikmaður (m.ö.o. Rooney) fyrir framan þá! Þar af leiðandi þurfa þeir að hægja á sér og annað hvort senda þvert eða aftur á bak, en United leiðir deildina í slíkum sendingum, sem er ansi vafasöm tölfræði. Þetta er voðalega einfalt, á meðan hann er upp á toppi og er ekki að spila betur en þetta, þá er ekkert að fara að gerast. Punktur.
Ég ætla að gefa ykkur orðið, en áður en ég kveð í dag, þá eru hér nokkur tíst:
https://twitter.com/samuelluckhurst/status/660512597049905152
https://twitter.com/Squawka/status/660504378000830464
https://twitter.com/OptaJoe/status/660502216084615168
https://twitter.com/ManUtdStuff/status/660502163483938816
https://twitter.com/Squawka/status/660500263204032512